Borgarráð - Fundur nr. 4727

Borgarráð

4

B O R G A R R Á Ð

Ár 2002, þriðjudaginn 26. febrúar, var haldinn 4727. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 12.15. Viðstaddir voru, auk borgarstjóra, Helgi Hjörvar, Hrannar Björn Arnarsson, Inga Jóna Þórðardóttir, Jóna Gróa Sigurðardóttir, Júlíus Vífill Ingvarsson og Steinunn Valdís Óskarsdóttir. Fundarritari var Gunnar Eydal.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram fundargerð samstarfsnefndar um lögreglumálefni frá 22. febrúar.

2. Lagðar fram fundargerðir samstarfsráðs Kjalarness frá 7. og 21. febrúar.

3. Lögð fram fundargerð stjórnar Innkaupastofnunar frá 25. febrúar.

4. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 7 mál.

5. Lagt fram bréf Innkaupastofnunar frá 25. þ.m., sbr. samþykkt stjórnar Innkaupastofnunar s.d. varðandi tilboð í stálsmíði, jarðvinnu og stígagerð vegna göngubrúar yfir Miklubraut. Borgarráð samþykkir tillögu stjórnar Innkaupastofnunar.

6. Lagt fram bréf Innkaupastofnunar frá 25. þ.m., sbr. samþykkt stjórnar Innkaupastofnunar s.d. varðandi tilboð í lagningu 2. áfanga Reynisvatnsvegar. Samþykkt að taka tilboði lægstbjóðanda, Jarðvéla sf.

7. Lagt fram bréf Innkaupastofnunar frá 25. þ.m., sbr. samþykkt stjórnar Innkaupastofnunar s.d. varðandi tilboð í fóðrun holræsa. Frestað.

8. Lögð fram umsögn fulltrúa skrifstofustjóra borgarstjórnar frá 25. þ.m. varðandi umsókn um leyfi til áfengisveitinga í Hlaðvarpanum, Vesturgötu 3. Borgarráð samþykkir umsögnina.

9. Lögð fram ársskýrsla gatnamálastjóra 2000.

10. Lagt fram bréf forstöðumanns Fasteignastofu frá 18. þ.m. varðandi yfirbyggða 50 metra sundlaug í Laugardal ásamt teikningum. Frestað.

- Kl. 13.10 tók Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson sæti á fundinum og Jóna Gróa Sigurðardóttir vék af fundi.

11. Lagt fram bréf forstöðumanns Fasteignastofu frá 25. þ.m. um viðbyggingu við Laugalækjarskóla ásamt teikningum. Samþykkt.

12. Lagður fram úrskurður úrskurðarnefndar um áfengismál frá 19. þ.m. um gildistíma leyfis til áfengisveitinga fyrir Kaffi Austurstræti, Austurstræti 6, sbr. bréf fulltrúa skrifstofustjóra borgarstjórnar frá 25. þ.m. Erindi fulltrúa skrifstofustjóra borgarstjórnar samþykkt.

13. Lagt fram bréf menningarmálastjóra frá 21. þ.m. varðandi styrkjaúthlutanir menningarmálanefndar 20. s.m.

14. Lagt fram bréf sviðsstjóra skipulags- og byggingarsviðs frá 19. þ.m., sbr. samþykkt skipulags- og byggingarnefndar 16. f.m. um dælustöð í Gufunesi. Samþykkt.

15. Lagt fram bréf sviðsstjóra skipulags- og byggingarsviðs frá 20. þ.m., sbr. samþykkt skipulags- og byggingarnefndar s.d. um gerð deiliskipulags á Hlíðarenda. Frestað.

16. Lagt fram bréf sviðsstjóra skipulags- og byggingarsviðs frá 20. þ.m., sbr. samþykkt skipulags- og byggingarnefndar s.d. um auglýsingu deiliskipulags vegna gerðar bílastæða við Grafarvogskirkju. Samþykkt.

17. Lagt fram bréf Borgarskipulags frá 21. þ.m., sbr. samþykkt skipulags- og byggingarnefndar 20. s.m. varðandi byggingarleyfi vegna áður gerðra bygginga við Sætún 8. Samþykkt.

18. Lagt fram bréf byggingarfulltrúa frá 25. þm., sbr. samþykkt skipulags- og byggingarnefndar 9. f.m. varðandi samþykkt um friðun trjáa. Vísað til borgarstjórnar.

19. Lagt fram bréf slökkviliðsstjóra frá 22. þ.m. varðandi lántöku vegna framkvæmda við slökkvistöðina í Skógarhlíð. Borgarráð samþykkti erindið fyrir sitt leyti.

20. Lagt fram að nýju bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar frá 18. þ.m. varðandi breytingar á 29.-31. gr. lögreglusamþykktar. Frestað.

21. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarritara frá 22. þ.m. yfir styrkumsóknir sem borist hafa eftir að umsóknarfrestur rann út. Erindi vegna REY Cup knattspyrnuhátíðar í Reykjavík, dags. 22. þ.m., vísað til íþrótta- og tómstundaráðs. Erindum Kvæðamannafélagsins Iðunnar frá 13. þ.m. og Samtaka psoriasis- og exemsjúklinga, SPOEX, frá 25. þ.m. vísað til styrkjameðferðar borgarráðs. Erindi skákdeildar KR frestað. Öðrum umsóknum synjað.

22. Lagt fram bréf framkvæmdastjóra miðborgar frá 21. þ.m. ásamt leiðréttingu sem borist hefur frá Landmati ehf. við skýrslunni “Greining á starfsemi miðborgar”.

Bókun borgarráðs:

Eins og fram kemur í bréfi Landmats ehf. gerði fyrirtækið mistök við úrvinnslu úr grunngögnum um starfsemi í miðborginni. Mistökin hafa m.a. leitt til þess að umræða að undanförnu um stöðu mála í miðborginni hefur verið á röngum forsendum og ályktanir dregnar um hnignun starfsemi sem ekki eiga við rök að styðjast. Slíkt hefur neikvæð áhrif á ímynd miðborgarinnar og getur skaðað viðskiptahagsmuni fyrirtækja sem þar starfa. Er þetta ákaflega miður og gera verður þá kröfu til fyrirtækisins að það leiðrétti þessi mistök og búi þannig um hnútana að aðferðafræði við söfnun og úrvinnslu gagna sé hafin yfir alla gagnrýni og hægt sé að treysta niðurstöðunum.

23. Borgarstjóri lagði fram svohljóðandi tillögu:

Borgarráð samþykkir að sækja um aðild Reykjavíkurborgar að samstarfssamtökum Evrópuborga, Eurocities. Árgjald 13.000 Evrur, sem samsvarar u.þ.b. 1.143.000 íslenskum krónum, greiðist af kostnaðarstað 09205, ófyrirséð.

Greinargerð fylgir tillögunni. Samþykkt.

24. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarverkfræðings frá 26. þ.m., sbr. samþykkt samgöngunefndar 25. s.m. varðandi forgangsröðun framkvæmda vegakerfis höfuðborgarsvæðisins. Samþykkt.

25. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarverkfræðings frá 21. þ.m., sbr. samþykkt samgöngunefndar 28. f.m. um útkeyrslu frá lóð MS við Grjótháls. Samþykkt.

26. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarverkfræðings frá 25. þ.m., þar sem lagt er til að Ragnari Sveinssyni og Gunnhildi M. Sæmundsdóttur, Spóahöfða 21, Mosfellsbæ, verði úthlutað byggingarrétti fyrir einbýlishús á lóð nr. 43 við Jónsgeisla. Samþykkt.

27. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarverkfræðings frá 25. þ.m., þar sem lagt er til að Hrauntúni ehf. verði úthlutað byggingarrétti fyrir 6 íbúða raðhús á lóð nr. 1-11 við Ljósuvík, í stað Arnar Isebarn. Samþykkt.

28. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarverkfræðings frá 20. þ.m. þar sem lagt er til að Guðríði Guðmundsdóttur og Þorsteini S. Mckinstry, Fossaleyni 4, verði úthlutað byggingarrétti fyrir leikskóla á lóð nr. 26 við Kristnibraut. Samþykkt.

29. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram svohljóðandi tillögu:

Borgarráð samþykkir að vinna að því að sorpbílar borgarinnar verði knúnir af metangasi. Gerð verði áætlun um endurnýjun sorpbílaflotans á næstu árum með það að markmiði að nýir bílar geti nýtt metangas. Jafnframt verði leitað eftir því við stjórn Strætó bs. að skoðaðir verði möguleikar á því að hluti þeirra strætisvagna, sem fyrirtækið rekur noti metangas. Átak þetta verði liður í að tryggja minni loftmengun í borginni og þar með mikilvægur þáttur í umhverfisstefnu Reykjavíkurborgar.

Greinargerð fylgir tillögunni. Frestað.

30. Július Vífill Ingvarsson lagði fram svohljóðandi tillögu:

Borgarráð beinir því til skipulags- og byggingarnefndar að skoðaðir verði möguleikar á breyttu skipulagi á skólasvæði Vogaskóla og Menntaskólans við Sund og næsta nágrennis, sem miði að því að leysa húsnæðisvanda skólanna á þessum stað enda fjárhagslega hagkvæmast að nýta það húsnæði sem fyrir er.

Með skoðun þessari verði miðað við breytt skipulag gatna í næsta nágrenni skólanna í þeim tilgangi að stækka skólalóðir. Gnoðarvogur frá Skeiðarvogi til austurs verði lokaður og Menntaskólinn við Sund fái lóð yfir götuna en ný og vegleg viðbygging skólans meðfram Skeiðarvoginum loki Gnoðarvoginum. Hringtorg á Skeiðarvogi leggist af. Þá verði gert ráð fyrir enn frekari stækkunarmöguleika skólahúsnæðisins með uppkaupum atvinnu- og verslunarhúsnæðis sunnan megin við Gnoðarvog sem næst stendur Skeiðarvogi.

Útreikningar fagfólks á ofangreindum lóðarstækkunum benda ótvírætt til þess að með þessum hætti megi leysa brýnan vanda Vogaskóla og Menntaskólans við Sund til framtíðar með nýjum glæsilegum skólabyggingum sem munu njóta sín á þessum mikilvæga og áberandi stað í borginni.

Frestað.

31. Afgreidd 9 útsvarsmál.

Fundi slitið kl. 14.45.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir

Helgi Hjörvar Inga Jóna Þórðardóttir
Hrannar Björn Arnarsson Júlíus Vífill Ingvarsson
Steinunn Valdís Óskardóttir Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson