Borgarráð - Fundur nr. 4724

Borgarráð

3

B O R G A R R Á Ð

Ár 2002, þriðjudaginn 5. febrúar, var haldinn 4724. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 12.00. Viðstaddir voru, auk borgarstjóra, Helgi Hjörvar, Helgi Pétursson, Hrannar B. Arnarsson, Inga Jóna Þórðardóttir, Júlíus Vífill Ingvarsson og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson. Fundarritari var Gunnar Eydal.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram fundargerð stjórnar Innkaupastofnunar frá 4. þ.m.

2. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 4 mál.

3. Lagt fram bréf Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis frá 31. f.m. um breytingu á 1. mgr. 23. gr. samþykktar fyrir sparisjóðinn að því er varðar skipun stjórnar.

4. Lagt fram bréf skrifstofu borgarritara frá 23. f.m. varðandi styrkumsóknir. Umsóknum Neytendasamtaka og erindi Jóhanns Sturlusonar f.h. Neðansjávarmynda ehf. vísað til styrkjameðferðar. Erindi Bifhjólasamtaka lýðveldisins vísað til samgöngunefndar. Erindi Design Instituttet synjað.

5. Lagt fram bréf Borgarskipulags frá 1. þ.m. um auglýsingu á breytingu á deiliskipulagi vegna Grænlandsleiðar 22–40 og 29–49, sbr. samþykkt skipulags- og byggingarnefndarar 30. f.m. Jafnframt lögð fram umsögn Borgarskipulags frá 17. október s.l. varðandi málið. Frestað.

6. Lagt fram bréf Borgarskipulags frá 1. þ.m., sbr. samþykkt skipulags- og byggingarnefndar 12. desember s.l. um duftreit í Leynimýri við Öskjuhlíð. Jafnframt lögð fram umsögn umhverfis- og heilbrigðisnefndar frá 24. f.m. um tillöguna, sbr. bréf skrifstofustjóra Umhverfis- og heilbrigðisstofu frá 28. f.m. Samþykkt.

- Kl. 12.55 vék Helgi Pétursson af fundi og Alfreð Þorsteinsson tók þar sæti.

7. Lagt fram að nýju bréf Borgarskipulags frá 17. f.m., sbr. samþykkt skipulags- og byggingarnefndar 16. s.m. um breytingu á aðalskipulagi lóðar nr. 38 við Suðurhlíð. Jafnframt lagt fram bréf Borgarskipulags frá 31. f.m., sbr. samþykkt skipulags- og byggingarnefndar 30. s.m. um breytt deiliskipulag Suðurhlíðar 38.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram svohljóðandi tillögu:

Borgarráð samþykkir að fresta ákvörðun um breytingu á aðalskipulagi og deiliskipulagi lóðarinnar Suðurhlíðar 38 og halda fund með íbúum og öðrum hagsmunaaðilum í þeim tilgangi að ná fram lausn sem meiri sátt getur ríkt um.

Borgarráð samþykkir tillögu borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks. Afgreiðslu aðalskipulags og deiliskipulags frestað.

8. Lagt fram bréf Félagsþjónustunnar frá 4. þ.m. varðandi heimild til að undirbúa opnun heimilis fyrir þá sem nú eru heimilislausir. Samþykkt.

9. Lagt fram bréf Borgarskipulags frá 31. f.m., sbr. samþykkt skipulags- og byggingarnefndar 30. s.m. um breytingu á aðalskipulagi og deiliskipulagi vegna Langholtsvegar 115. Samþykkt.

10. Lagt fram bréf Borgarskipulags frá 4. þ.m., sbr. samþykkt skipulags- og byggingarnefndar 30. f.m. um breytt aðalskipulag vegna lóðar nr. 10 við Bleikjukvísl. Samþykkt.

11. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar frá 30. f.m. um kjörstaði við borgarstjórnarkosningar 25. maí n.k. Samþykkt.

12. Lagt fram bréf forstöðumanns Fasteignastofu frá 4. þ.m. vegna fyrirspurnar borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks um niðurtöku listaverks á vegg í Árbæjarskóla, sbr. 22. lið fundargerðar borgarráðs frá 29. f.m.

13. Lagt fram bréf borgarverkfræðings frá 4. þ.m. varðandi breytingu á fjölda íbúða í samningsdrögum við Rauðhól ehf. vegna Norðlingaholts. Samþykkt með 4 samhljóða atkvæðum. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks sátu hjá með tilvísun til fyrri afgreiðslu málsins.

14. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarverkfræðings, dags. í dag, varðandi niðurfellingu kvaðar um óðalsrétt á hluta jarðarinnar Dalsmynnis á Kjalarnesi. Borgarráð samþykkir umsögnina.

15. Lagt fram bréf fjármáladeildar frá 29. f.m. um styrk til greiðslu fasteignaskatts vegna Loftkastalans, kr. 575.619. Samþykkt.

16. Lögð fram drög að vegáætlun 2002-2006. Frestað.

17. Lagt fram bréf Borgarskipulags frá 17. f.m., sbr. samþykkt skipulags- og byggingarnefndar 16. s.m. á skipuriti fyrir skipulags- og byggingarsvið. Samþykkt með 4 samhljóða atkvæðum.

18. Lagt fram bréf Borgarskipulags frá 31. f.m., sbr. samþykkt skipulags- og byggingarnefndar 30. s.m. um að auglýsa að nýju tillögu að deiliskipulagi fyrir Grjótaþorp með nánar tilgreindum breytingum.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram eftirfarandi tillögu:

Sjálfstæðismenn leggja til að fleiri hugmynda verði leitað innanlands og erlendis um hvernig að varðveislu og sýningu fornminjanna í Aðalstræti verður staðið. Sjálfstæðismenn leggja áherslu á að fela ekki minjarnar, heldur verði þær gerðar hluti af götumynd Aðalstrætis, öllum sýnilegar sem þar eiga leið um. Erlendis er algengt að vegfarendur geti skoðað fornminjar í gegnum gler á götu eða gangstétt. Slíkar lausnir gætu einnig átt við hér og farið mjög vel. Einnig skal litið til þess, að hægt verði að mynda samstæða heild á svæðinu, bæði fyrir minjarnar um landnámsbæinn og í Víkurkirkjugarði.

Samþykkt með 4 atkv. gegn 3 að vísa tillögu borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá.

Tillaga skipulags- og byggingarnefndar samþykkt með 4 samhljóða atkvæðum með þeirri breytingu að fellt verði niður ákvæði í samþykkt nefndarinnar um inndregna jarðhæð vesturhliðar Aðalstrætis 14-16.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óskuðu bókað:

Sjálfstæðismenn gera verulegar athugasemdir við tvö atriði fyrirliggjandi deiliskipulagstillögu um Grjótaþorp. Í fyrsta lagi varðandi Aðalstræti 4 þar sem tillaga fellur mjög illa að götumynd og umhverfi og er veruleg breyting frá fyrri hugmyndum, þar sem samræmis var betur gætt við þá byggð sem fyrir er. Í öðru lagi telja borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins tillögu um inngang úr Fógetagarðinum (Víkurgarði) að fornminjum undir Aðalstræti 14-16 allt of umfangsmikla. Sú lausn mun hafa í för með sér mörg hundruð milljón króna útgjöld. Auk þess hefur hún í för með sér verulega röskun á gömlum kirkjugarði og fornminjum sem skoða þarf sem sérstakt mál. Varðveislu og aðgang að rústum undir Aðalstræti er hægt að tryggja með betri og ódýrari hætti með göngum frá Aðalstræti 10 og aðgangi frá garði á horni Túngötu og Aðalstrætis. Með hliðsjón af þessu sitja borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hjá við afgreiðslu á deiliskipulagstillögunni.

19. Lagt fram að nýju bréf borgarminjavarðar, borgarverkfræðings og menningarfulltrúa frá 8. f.m. varðandi fornminjar í Aðalstræti. Samþykkt með 4 samhljóða atkvæðum.

20. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarritara frá 4. þ.m. um aðgerðir til að stuðla að uppbyggingu í miðborginni að því er varðar kröfur um bílastæði, bílastæðagjöld og gatnagerðargjöld. Samþykkt.

21. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í dag, sbr. samþykkt stjórnkerfisnefndar s.d. um samþykkt fyrir átta hverfisráð í Reykjavík. Frestað.

Fundi slitið kl. 14.50.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir

Alfreð Þorsteinsson Inga Jóna Þórðardóttir
Helgi Hjörvar Júlíus Vífill Ingvarsson
Hrannar B. Arnarsson Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson.