Borgarráð - Fundur nr. 4715

Borgarráð

2

B O R G A R R Á Ð

Ár 2001, þriðjudaginn 27. nóvember, var haldinn 4715. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 12.00. Viðstaddir voru, auk borgarstjóra, Helgi Hjörvar, Hrannar Björn Arnarsson, Inga Jóna Þórðardóttir, Júlíus Vífill Ingvarsson og Sigrún Magnúsdóttir. Fundarritari var Gunnar Eydal.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram fundargerð Bláfjallanefndar frá 12. nóvember.

2. Lögð fram fundargerð stjórnar Innkaupastofnunar frá 26. nóvember.

3. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 12 mál.

4. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 22. þ.m., sbr. samþykkt skipulags- og byggingarnefndar 21. s.m. um nýbyggingu við Heilsuverndarstöðina, Barónsstíg 47. Samþykkt. Borgarráð ítrekar ósk sína um að ríkið gangi til samninga um kaup þess á 60% eignarhluta borgarinnar í Heilsuverndarstöðinni.

5. Lagt fram bréf forstjóra Innkaupastofnunar frá 26. þ.m. um heimild til að ganga til samninga við Jarðboranir hf. um forborun tveggja hola á Hellisheiði. Samþykkt.

6. Lagður fram kjarasamningur við Stéttarfélag sálfræðinga á Íslandi, dags. 31. október s.l. Borgarráð samþykkir samninginn fyrir sitt leyti.

7. Lagt fram bréf framkvæmdastjóra íþrótta- og tómstundaráðs frá 23. þ.m. varðandi breytingu og framlengingu á húsaleigusamningi við KR vegna félagsmiðstöðvarinnar Frostaskjóls. Samþykkt.

8. Lagt fram bréf borgarlögmanns frá 22. þ.m., þar sem lagt er til að borgarsjóður leysi til sín lóðarréttindi og mannvirki á lóð nr. 78 við Sólvallagötu. Samþykkt.

9. Lagt fram bréf framkvæmdastjóra íþrótta- og tómstundaráðs frá 26. þ.m. ásamt skýrslu um Vinnumiðlun skólafólks 2001.

- Kl. 12.50 tók Jóna Gróa Sigurðardóttir sæti á fundinum.

10. Lagt fram bréf Reykjavíkurprófastsdæma eystra og vestra um framlag til kirkjubyggingarsjóðs 2002.

11. Lagt fram bréf slökkviliðsstjóra frá 17. þ.m. varðandi heimildir embættis slökkviliðsstjóra til lokunar mannvirkja.

12. Lagt fram bréf Náttúruverndar ríkisins frá 21. þ.m. varðandi friðlýsingu Tröllafoss í Leirvogsá. Vísað til umsagnar umhverfis- og heilbrigðisnefndar.

13. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarverkfræðings frá 26. þ.m. um mörk lóðar Skeljungs við Vesturlandsveg o.fl. Frestað.

14. Lagt fram bréf embættis borgarverkfræðings frá 26. þ.m. varðandi samþykkt skipulags- og byggingarnefndar um opnun Hafnarstrætis fyrir umferð. Samþykkt.

15. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarverkfræðings frá 26. þ.m., þar sem lagt er til að Þórði Antonssyni og Dagnýju Hrund Gunnarsdóttur verði gefinn kostur á byggingarrétti á lóð nr. 38 við Gvendargeisla gegn afsali lóðar nr. 27 við Jónsgeisla. Samþykkt.

16. Lagt fram bréf menningarmálastjóra frá 23. þ.m., sbr. samþykkt menningarmálanefndar 24. f.m. á menningarstefnu Reykjavíkurborgar. Frestað.

17. Lagt fram bréf Foreldrafélags Korpuskóla frá 26. þ.m. varðandi hönnun og byggingu Staðarskóla.

18. Lagðar fram eftirtaldar starfsáætlanir fyrir árið 2002 ásamt tillögum sem þeim fylgja.

1. Stjórn borgarinnar, starfsáætlun Ráðhúss Reykjavíkur Starfsáætlun jafnréttismála Starfsáætlun Borgarendurskoðunar Umhverfis- og tæknisvið Gatnamálastofa Umhverfis- og heilbrigðisstofa, umhverfismál Umhverfis- og heilbrigðisstofa, hreinsunardeild Fræðslumál ÍTR Leikskólar Reykjavíkur Miðgarður Miðborgarstjórn Orkuveita Reykjavíkur Innkaupastofnun Reykjavíkurhöfn Vélamiðstöð Fráveita Félagsbústaðir Skipulagssjóður

Umhverfis- og heilbrigðisstofa, Heilbrigðiseftirlit: Vísað er til bréfs skrifstofustjóra Heilbrigðiseftirlits, dags. 12. þ.m., varðandi gjaldskrár fyrir mengunar- og heilbrigðiseftirlit og hundahald. Vísað til umsagnar hollustuháttaráðs á fundi borgarráðs þann 13. þ.m.

Skipulags- og byggingarsvið: Vísað er til bréfs byggingarfulltrúa, dags. 2. þ.m., varðandi gjaldskrár fyrir byggingarleyfisgjöld, úttektir og vottorð. Afgreitt í borgarstjórn þann 15. þ.m.

2. Menningarmál: Vísað er til bréfs menningarmálastjóra, dags. 25 f.m., um hækkun verðs skírteina Borgarbókasafns úr kr. 800 í kr. 1.000.

Samþykkt með 4 samhlj. atkv.

3. Félagsþjónustan í Reykjavík: Vísað er til bréfs framkvæmdastjóra fjármálasviðs, dags. 26. f.m., sbr. svohljóðandi tillögur: a) Lagt er til að tímagjald í heimaþjónustu verði kr. 250 í stað kr. 230 nú. b) Lagt er til að þjónustugjöld í þjónustuíbúðum aldraðra verði hækkuð þannig að gjöld einstaklinga í Seljahlíð og á Dalbraut verði kr. 13.400 í stað kr. 12.500 nú, gjöld hjóna í Seljahlíð og á Dalbraut verði kr. 15.300 í stað kr. 14.300 nú, þjónustugjöld í Lönguhlíð, Furugerði og Norðurbrún verði kr. 7.300 í stað kr. 6.800 nú og þjónustugjöld á Lindargötu verði kr. 6.000 í stað kr. 5.600 nú. c) Lagt er til að gjaldskrá fyrir námskeið á félags- og þjónustumiðstöðvum hækki sem svarar hækkun á vísitölu neysluverðs frá okt. 2000 – okt. 2001, eða um 7,35%. d) Verð á mat og kaffi hækkar samkvæmt hækkun á vísitölu neysluverðs. e) Gjald fyrir heimsendingu á mat hækkar samkvæmt taxtahækkunum Trausta – félags sendibílstjóra. f) Lagt er til að viðmiðunarfjárhæð fjárhagsaðstoðar verði breytt þannig að fyrir einstakling verði hún kr. 67.000 í stað kr. 62.421 nú og fyrir hjón kr. 120.000 í stað kr. 112.354 nú.

Samþykkt með 4 samhlj. atkv.

4. Bílastæðasjóður: Vísað er til bréfs skrifstofustjóra borgarverkfræðings, dags. 2. þ.m., svohljóðandi tillögur samgöngunefndar: Tímagjald í bílahúsum Bílastæðasjóðs Reykjavíkur, sem nú er 100 krónur fyrir fyrsta klukkutímann og 10 krónur fyrir hverjar byrjaðar 6 mínútur eftir það, verði 80 krónur fyrir fyrsta klukkutímann og 10 krónur fyrir hverjar byrjaðar 12 mínútur eftir það.

Samþykkt með 4 samhlj. atkv.

5. Fasteignastofa Reykjavíkurborgar: Vísað er til tillögu á bls. 21 í starfsáætlun um að Trésmiðja Reykjavíkurborgar verði þjónustudeild innan Fasteignastofu.

Samþykkt með 4 samhlj. atkv.

Framlögðum starfsáætlunum vísað til borgarstjórnar.

Afgreiddum tillögum vísað til meðferðar við gerð frumvarps að fjárhagsáætlun.

19. Lagt fram frumvarp að fjáhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2002 ásamt greinargerð. Vísað til borgarstjórnar.

20. Afgreidd 34 útsvarsmál.

Fundi slitið kl. 15.00.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir

Helgi Hjörvar Inga Jóna Þórðardóttir
Hrannar Björn Arnarsson Júlíus Vífill Ingvarsson
Sigrún Magnúsdóttir Jóna Gróa Sigurðardóttir