Borgarráð
4
B O R G A R R Á Ð
Ár 2001, þriðjudaginn 6. nóvember, var haldinn 4712. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 12.00. Viðstaddir voru Steinunn Valdís Óskarsdóttir, Alfreð Þorsteinsson, Hrannar Björn Arnarsson, Jóna Gróa Sigurðardóttir, Júlíus Vífill Ingvarsson, Sigrún Magnúsdóttir og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson. Fundarritari var Gunnar Eydal.
Þetta gerðist:
1. Lögð fram fundargerð stjórnar Innkaupastofnunar frá 5. nóvember.
2. Lögð fram fundargerð stjórnar Vinnuskólans frá 13. september.
3. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 22 mál.
4. Lögð fram umsögn fulltrúa skrifstofustjóra borgarstjórnar frá 5. þ.m. um leyfi til áfengisveitinga fyrir veitingastaðinn La Café, Laugavegi 45. Borgarráð samþykkti umsögnina.
5. Lagður fram úrskurður úrskurðarnefndar um áfengismál í máli nr. 14/2001 varðandi veitingastaðinn Kaffi Thomsen, Hafnarstræti 17.
6. Lagt fram bréf fulltrúa skrifstofustjóra borgarstjórnar frá 5. þ.m. varðandi leyfi til áfengisveitinga til veitingastaðarins Kaffi Thomsen, Hafnarstræti 17. Samþykkt.
7. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 5. þ.m., sbr. samþykkt skipulags- og byggingarnefndar 31. f.m., um breytingu á deiliskipulagi vegna Engjateigs 7. Jafnframt lögð fram umsögn byggingarfulltrúa frá 5. þ.m. um undanþágu vegna bílastæða á lóðinni. Samþykkt.
8. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 1. þ.m., sbr. samþykkt skipulags- og byggingarnefndar 31. f.m., um auglýsingu á breytingu á deiliskipulagi Bryggjuhverfis. Samþykkt.
9. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 25. f.m., sbr. samþykkt skipulags- og byggingarnefndar 24. s.m., varðandi umferðarskipulag og breytingu á deiliskipulagi í Skeifu – Fenjum. Samþykkt. Alfreð Þorsteinsson vék af fundi við afgreiðslu málsins.
10. Lagt fram bréf ritara stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur, dags. í dag, sbr. samþykkt stjórnarinnar um breytt rekstrarform Orkuveitu Reykjavíkur. Samþykkt með 4 atkv. gegn 3.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óskuðu bókað:
Við breytingu á rekstrarformi Orkuveitu Reykjavíkur hlýtur að vera eðlilegt að velja þann kost sem best hentar í nútímalegum fyrirtækjarekstri. Það skýtur því skökku við að þegar önnur orkufyrirtæki hafa breytt yfir í hlutafélagaformið skuli Orkuveita Reykjavíkur stefna í aðra átt. Enginn lagarammi er til um sameignarfélög og enginn vafi er á því að það rekstrarform er þyngra í vöfum og býður ekki upp á sömu möguleika, skilvirkni og gegnsæi og hlutafélagsformið. Í minnisblaði borgarlögmanns til borgarstjóra dags. 3. sept. 2001 kemur fram að “hlutafélagsformið hefur ótvíræða kosti þegar til framtíðar er litið”. Greinilegt er á öllu að Vinstri grænir hafa náð yfirhöndinni og beygt Framsóknarmenn og Samfylkinguna. Allur undirbúningur málsins af hálfu meirihlutans hefur augljóslega miðað að því að stofnað yrði hlutafélag. Niðurstaðan er rekstrarform sem er á skjön við það sem á sér stað hjá flestum stórfyrirtækjum í landinu. Meðal annars hafa stjórnendur Landsvirkjunar kynnt tillögur sínar um að færa fyrirtækið úr sameignarfyrirtæki yfir í hlutafélagaformið.
Borgarráðsfulltrúar Reykjavíkurlista óskuðu bókað:
Í umsögn borgarlögmanns kemur fram að bæði sameignarfélagsformið og hlutafélagaformið koma til greina við breytingu á rekstrarformi Orkuveitu Reykjavíkur. Eins og fram kemur í greinargerð með tillögunni verður minni röskun fyrir starfsmenn, ef sameignarfélagsformið verður tekið upp og lánshæfi fyrirtækisins helst óbreytt. Þetta rekstrarform er það sama og Landsvirkjun býr við í dag og hefur reynst vel.
11. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar frá 2. þ.m., sbr. tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks varðandi fjárhagsstöðu Línu.Nets hf.; vísað til frekari athugunar í borgarráði á fundi borgarstjórnar 1. þ.m. Jafnframt lögð fram eftirtalin gögn varðandi Línu.Net hf.: Rekstrar- og fjárhagsáætlun 2001-2008. Árshlutareikningur Línu.Nets hf. 1.1.-30.9.’01. Ársreikningur Línu.Nets hf. 2000.
Borgarráðsfulltrúar Reykjavíkurlistans lögðu fram svohljóðandi tillögu:
Þar sem stjórn Línu.Nets hf. hefur lagt fram yfirlit yfir fjárhagsstöðu fyrirtækisins eins og óskað var eftir, þ.m.t. níu mánaða uppgjör og viðskiptaáætlanir, er tillaga sjálfstæðismanna óþörf og henni því vísað frá.
Frestað.
12. Lagt fram bréf forstjóra Innkaupastofnunar frá 5. þ.m, sbr. samþykkt stjórnar Innkaupastofnunar s.d. um að gengið verði til samninga við Verkfræðistofu Guðmundar og Kristjáns hf., Fjarhitun hf., Rafteikningu hf., Rafhönnun hf., Teiknistofuna ehf. og Landslag ehf. á grundvelli tilboðs þeirra. Samþykkt.
13. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarverkfræðings frá 1. þ.m., þar sem leiðrétt er fyrra bréf frá 29. f.m. vegna fyrirspurnar borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks um fjölda úthlutaðra íbúða í Grafarvogi.
14. Lagt fram bréf byggingarfulltrúa frá 2. þ.m., sbr. samþykkt skipulags- og byggingarnefndar um gjaldskrá hjá embætti byggingarfulltrúa. Vísað til borgarstjórnar.
15. Lagt fram erindisbréf fyrir vinnuhóp um varðveislu og frágang fornminja við Aðalstræti. Jafnframt kynntar hugmyndir að varðveislu.
16. Lagt fram bréf gatnamálastjóra, dags. í dag, varðandi fyrirspurn Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar á fundi borgarráðs 23. f.m. um hálkueyðingu.
- Kl. 14.00 vék Alfreð Þorsteinsson af fundi og Helgi Pétursson tók þar sæti.
17. Lagt fram bréf iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis frá 24. þ.m. um tilnefningu í ráðgjafanefnd Rannsóknarstofnunar byggingariðnaðarins. Samþykkt að tilnefna forstöðumann byggingadeildar í nefndina.
18. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarverkfræðings frá 5. þ.m. um sölu á lóð á Kleifarvegi 4. Samþykkt.
19. Lagt fram bréf forstöðumanns Listasafna Reykjavíkur frá 5. þ.m. varðandi fyrirspurn á fundi borgarráðs 30. f.m. um falsanir listaverka.
20. Borgarráðsfulltrúar Reykjavíkurlistans lögðu fram svohljóðandi tillögu:
Þar sem lögð hafa verið fram gögn um fjárhagsmál Línu.Nets hf., m.a. níu mánaða uppgjör og viðskiptaáætlun samþykkir borgarráð að fela fjárreiðustjóra Reykajvíkurborgar að afla sambærilegra upplýsinga hjá öllum dóttur- og hlutdeildarfélögum í eigu Reykjavíkurborgar, þ.m.t. sameignarfélögum og byggðarsamlögum. Upplýsingarnar verði tiltækar fyrir síðari umræðu um fjárhagsáætlun næsta árs. Frestað.
21. Júlíus Vífill Ingvarsson lagði fram svohljóðandi tillögu:
Borgarráð samþykkir að hefja vinnu við mótun stefnu um framtíð tónlistarskóla í Reykjavík. Í því skyni verði sett á laggirnar nefnd á vegum fræðsluráðs þar sem í eiga sæti kjörnir fulltrúar, fulltrúar tónlistarskólanna og embættismenn eftir nánari útfærslu fræðsluráðs sem jafnframt mótar ramma nefndarinnar í samvinnu við tónlistarkennara.
Skort hefur heilstæða stefnu varðandi tónlistarskólana og ekki gætt sama áhuga á málefnum þeirra og annarra skóla. Nauðsynlegt er að fara t.d. vel yfir hugmyndir um færslu forskólans yfir til grunnskólans en þær munu hafa afgerandi áhrif á starfsemi tónlistarskólanna. Móta þarf skýra stefnu hvernig sjálfstæði tónlistarskólanna verði tryggt og faglegum markmiðum þeirra náð.
Ekki á að blanda þessari vinnu saman við kjaradeilur tónlistarkennara og launanefndar sveitarfélaga. Lýst er áhyggjum af því ástandi sem skapast hefur vegna þessa. Hörð afstaða launanefndar í þessari kjaradeilu endurspeglar lítinn skilning á störfum tónlistarkennara og mikilvægi tónlistarmenntunar í landinu. Tónlistarskólarnir hafa skilað undraverðum árangri á undanförnum áratugum sem rík ástæða er til fyrir Íslendinga að vera stoltir af. Tónlistarkennarar hafa hins vegar augljóslega dregist verulega aftur úr í launum í samanburði við aðra kennara og það ber að leiðrétta.
Frestað.
- Kl. 14.10 vék Jóna Gróa Sigurðardóttir af fundi.
22. Afgreidd 33 útsvarsmál.
Fundi slitið kl. 14.30.
Steinunn Valdís Óskarsdóttir
Hrannar Björn Arnarsson Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson
Helgi Pétursson Júlíus Vífill Ingvarsson
Sigrún Magnúsdóttir