Borgarráð - Fundur nr. 4711

Borgarráð

B O R G A R R Á Ð

Ár 2001, laugardaginn 3. nóvember, var haldinn 4711. fundur s. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 10.00. Viðstaddir voru, auk borgarstjóra, Alfreð Þorsteinsson, Helgi Hjörvar, Hrannar Björn Arnarsson og Júlíus Vífill Ingvarsson. Fundarritari var Gunnar Eydal.

Þetta gerðist:

1. Rætt um fjárhagsáætlun 2002.

- Kl. 10.15 tóku Jóna Gróa Sigurðardóttir og Steinunn Valdís Óskarsdóttir sæti á fundinum og Alfreð Þorsteinsson vék af fundi. - Kl. 11.45 tók Guðlaugur Þór Þórðarson sæti á fundinum. - Kl. 12.30 vék Júlíus Vífill Ingvarsson af fundi. - Kl. 13.15 tók Kjartan Magnússon sæti á fundinum. - Kl. 13.40 vék Helgi Hjörvar af fundi og Helgi Pétursson tók þar sæti.

2. Lagt fram bréf borgarverkfræðings frá 2. þ.m. um athugun á byggingu bílastæðahúss undir botni Tjarnarinnar. Vísað til nánari útfærslu borgarverkfræðings og framkvæmdastjóra Bílastæðasjóðs í samvinnu við borgarlögmann og forstjóra Innkaupastofnunar.

3. Borgarráð samþykkir að vísa svohljóðandi tillögu til borgarstjórnar:

1. Á árinu 2002 skal hlutfall fasteignaskatts, skv. a-lið 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995, vera 0,32%.

2. Á árinu 2002 skal hlutfall fasteignaskatts skv. b-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga, með síðari breytingum, vera 1,32% að viðbættri hækkun um 25%, sbr. heimild í 4. mgr. sömu greinar (1,65%).

3. Lóðaleiga fyrir íbúðahúsalóðir skal á árinu 2002 vera 0,08% af fasteignamatsverði.

4. Leiga fyrir verslunar- og iðnaðarlóðir skal á árinu 2002 vera 1,0% af fasteignamatsverði.

5. Á árinu 2002 skal hlutfall holræsagjalds skv. reglugerð nr. 658/1994 vera 0,115%.

Borgarstjórn samþykkir að gefa greiðendum fasteignagjalda kost á að gera skil á fasteignagjöldum ársins 2002 með sex jöfnum greiðslum á gjalddögum 1. febrúar, 1. mars, 1. apríl, 1. maí, 1. júní og 1. ágúst. Fjármáladeild er heimilt að víkja frá ákvæðum um gjalddaga ef fjárhæð gjalda er undir kr. 15.000 og/eða gjaldendur óska eftir að greiða gjöldin með eingreiðslu í maí.

Greinargerð.

Borgarráð samþykkti hinn 2. júlí sl. að fela fjármáladeild að endurskoða álagningarprósentu fasteignagjalda með það að markmiði að almennt endurmat Fasteignamats ríkisins, sem orðið hafði til hækkunar á matsverði, leiddi ekki til þess að heildarálögur á Reykvíkinga hækki.

Til að halda greiðslubyrði vegna fasteignaskatta á íbúðarhúsnæði óbreyttu milli áranna 2001 og 2002 er álagningarhlutfall fasteignaskatta á íbúðarhúsnæði lækkað um 0,055% eða úr 0,375% í 0,32%. Jafnframt er álagningarhlutfall lóðarleigu lækkað um 0,065% eða úr 0,145% í 0,08%. Ef skatthlutfallið hefði verið óbreytt milli ára hefðu tekjur borgarsjóðs orðið 275 mkr. hærri vegna fasteignaskatta og 50 mkr. hærri vegna lóðaleigu. Álagningarhlutfall fasteignaskatta af atvinnuhúsnæði er óbreytt milli áranna 2001 og 2002 bæði hvað varðar mannvirki og lóðir. Álagningarstofn atvinnuhúsnæðis hefur á undanförnum árum þróast í takt við efnahagsþróunina og gera má ráð fyrir að samdráttur í eftirspurn eftir atvinnuhúsnæði endurspeglist í lækkun álagningarstofns.

Álagningahlutfall holræsagjalds er lækkað úr 0,15% í 0,115%, sem jafngildir 262 mkr. tekjulækkun fyrir borgarsjóð. Lækkun holræsagjalds tekur bæði til íbúðarhúsnæðis og atvinnuhúsnæðis.

4. Borgarráð samþykkti að vísa svohljóðandi tillögu til borgarstjórnar:

Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir að álagningarstuðull útsvars verði 12,70% á tekjur manna á árinu 2002 með vísan til laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga með síðari breytingum.

Greinargerð.

Ekki er gerð tillaga um þá hækkun útsvars um 0.33% sem sveitarstjórnum var veitt heimild til með lögum nr. 144/2000. Hækkun útsvars um 0.33% hefði leitt til tekjuauka borgarsjóðs að fjárhæð 609 mkr. á árinu 2002.

5. Borgarráð samþykkir að leyfisgjald fyrir matsöluvagna verði óbreytt.

Fundi slitið kl. 15.30.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir

Steinunn Valdís Óskarsdóttir Jóna Gróa Sigurðardóttir
Hrannar Björn Arnarsson Kjartan Magnússon
Helgi Pétursson Guðlaugur Þór Þórðarson