Borgarráð - Fundur nr. 4702

Borgarráð

3

B O R G A R R Á Ð

Ár 2001, þriðjudaginn 18. september, var haldinn 4702. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 12.00. Viðstaddir voru, auk borgarstjóra, Helgi Hjörvar, Hrannar Björn Arnarsson, Inga Jóna Þórðardóttir, Júlíus Vífill Ingvarsson, Steinunn Valdís Óskarsdóttir og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson. Fundarritari var Gunnar Eydal.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram fundargerð stjórnar Innkaupastofnunar frá 17. september.

2. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 5 mál.

3. Lögð fram ársskýrsla Menningarmiðstöðvarinnar Gerðubergs 2000.

4. Lagt fram bréf Hreins Hreinssonar frá 10. þ.m., þar sem hann óskar lausnar frá störfum sem fulltrúi í félagsmálaráði.

5. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar frá 5. þ.m. ásamt fyrirmynd að samþykkt fyrir nefndir og ráð Reykjavíkurborgar, dags. 5. s.m.

6. Lagt fram bréf fræðslustjóra frá 11. þ.m., sbr. samþykkt fræðsluráðs 10. s.m. um að kannaður verði kostnaður við kaup og uppsetningu útilistaverksins „Terra-Cosmos” eftir Rúrí. Vísað til umsagnar Orkuveitu Reykjavíkur.

7. Lagt fram bréf forstöðumanns Listasafns Reykjavíkur frá 28. f.m. varðandi staðsetningu útilistaverksins Þorfinnur karlsefni, sem nú er staðsett til bráðabirgða við Vesturfarasetrið á Hofsósi. Vísað til athugunar framkvæmdastjóra þróunar- og fjölskyldusviðs og menningarmálastjóra. Jafnframt er þeim falið að taka upp viðræður við forráðamenn Vesturfarasetursins.

8. Lagt fram bréf borgarlögmanns frá 17. þ.m. varðandi rotþrær við sumarbústaði í borgarlandinu. Frestað.

9. Lagt fram að nýju bréf framkvæmdastjóra Leikskóla Reykjavíkur frá 5. þ.m., sbr. samþykkt leikskólaráðs s.d. um rekstrarleyfi fyrir leikskóla til E. Lovísu Hallgrímsdóttur ásamt vilyrði fyrir stofnstyrk. Samþykkt.

10. Rætt um hugsanlega siglingakeppni „Cutty sark” til Íslands, sbr. 26. lið fundargerðar borgarráðs frá 28. f.m., bréf Reykjavíkurhafnar og ÍTR frá 20. s.m. ásamt greinargerð. Borgarstjóra falið að skipa vinnuhóp vegna málsins sem m.a. undirbúi tillögu að umsókn um þátttöku Reykjavíkurborgar í keppninni. Hópurinn ljúki störfum fyrir 1. nóvember n.k.

11. Lagt fram bréf aðstoðarslökkviliðsstjóra frá 12. þ.m. ásamt stefnumótun, fjárhagsáætlun og starfsáætlun 2002-2004. Samþykkt með 4 samhlj. atkv.

12. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 6. þ.m., sbr. samþykkt skipulags- og byggingarnefndar 5. s.m. um auglýsingu á breyttu aðal- og deiliskipulagi Hringbrautar. Frestað.

13. Lagt fram minnisblað borgarlögmanns frá 3. þ.m. um hugsanlega breytingar á rekstrarformi Orkuveitu Reykjavíkur.

Borgarráðsfulltrúar Reykjavíkurlistans lögðu fram svohljóðandi tillögu:

Borgarráð samþykkir að vísa umsögn borgarlögmanns um breytingar á rekstrarformi Orkuveitu Reykjavíkur til meðferðar hjá stjórn veitustofnana Reykjavíkurborgar. Jafnframt felur borgarráð stjórninni að gera tillögu að framtíðarrekstrarformi Orkuveitunnar.

Samþykkt með 4 atkv. gegn 3.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óskuðu bókað:

Tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að breyta Orkuveitu Reykjavíkur í hlutafélag er á dagskrá fundar borgarstjórnar n.k. fimmtudag. Með tillöguflutningi nú í borgarráði, sólarhring eftir að tillaga sjálfstæðismanna kom fram, er borgarstjóri augljóslega að víkja sér undan efnislegri afgreiðslu á tillögu okkar. Enn á ný sýnir borgarstjóri virðingarleysi fyrir lýðræðislegum vinnubrögðum. Borgarstjóri óskaði bókað:

Eins og flestum ætti að vera ljóst hefur legið fyrir frá því skrifað var undir samkomulag milli Reykjavíkurborgar og Akranesbæjar um sameiningu Akranesveitna og Orkuveitu Reykjavíkur að breyta þyrfti rekstrarfyrirkomulagi Orkuveitu Reykjavíkur. Hefur m.a. verið fjallað um málið oftsinnis í fjölmiðlum. Nú liggur fyrir álit borgarlögmanns um þá kosti sem eru í stöðunni og er eðlilegt að borgarfulltrúar og stjórn veitustofnana velti þeim fyrir sér áður en efnisleg ákvörðun er tekin í málinu. Tillaga sjálfstæðismanna verður að sjálfsögðu tekin til efnislegrar umfjöllunar á næsta fundi borgarstjórnar þó að hæpið sé að gera ráð fyrir að endanleg ákvörðun verði þá tekin um rekstrarformið án þess að áður hafi farið fram skoðun á því í stjórn veitustofnana.

14. Lagt fram bréf skrifstofustjóra Innkaupastofnunar frá 17. þ.m., sbr. samþykkt stjórnar Innkaupastofnunar s.d., þar sem lagt er til að Sjöfn Kristjánsdóttir, hdl., verði ráðin forstjóri stofnunarinnar. Samþykkt með 4 samhlj. atkv.

15. Lögð fram skýrsla Landsbanka Íslands „Erlendar lántökur áhættunnar virði”.

- Kl. 14.47 tók Ólafur Kr. Hjörleifsson við fundarritun af Gunnari Eydal.

16. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 17. þ.m., um endurskoðaðan fjárhagsramma fyrir árið 2002, ásamt yfirliti um endurskoðun rammanna, ódagsett. Samþykkt með 4 samhlj. atkv.

17. Lagt fram bréf fjármálastjóra, dags. 17. þ.m., um beiðni um aukafjárveitingu til Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Borgarráð samþykkir aukafjárveitingu að fjárhæð kr. 12.720.000 af kostnaðarstað ófyrirséð útgjöld.

18. Júlíus Vífill Ingvarsson lagði fram svohljóðandi fyrirspurn:

Óska eftir upplýsingum um heildarferðakostnað (þ.m.t. dagpeninga) borgarstjóra og annarra borgar- og varaborgarfulltrúa sem ferðast hafa á vegum Reykjavíkurborgar, stofnana og fyrirtækja hennar auk Menningarborgar 2000. Samantektin taki yfir tímabilið frá 1. júní 1994 til dagsins í dag, skipt eftir árum, og verði lögð fram í borgarráði svo fljótt sem kostur er.

19. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram svohljóðandi fyrirspurn:

Með hvaða hætti hyggst borgarstjóri svara erindi Félags sjálfstætt starfandi arkitekta, dags. 31. f.m., varðandi forval vegna skipulagsvinnu í Halla og Hamrahlíðarlöndum?

Fundi slitið kl. 15.05.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir

Helgi Hjörvar Inga Jóna Þórðardóttir
Hrannar Björn Arnarsson Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson
Steinunn Valdís Óskardóttir Júlíus Vífill Ingvarsson