Borgarráð - Fundur nr. 4699

Borgarráð

5

B O R G A R R Á Ð

Ár 2001, þriðjudaginn 28. ágúst, var haldinn 4699. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 12.00. Viðstaddir voru, auk borgarstjóra, Alfreð Þorsteinsson, Helgi Pétursson, Hrannar Björn Arnarsson, Jóna Gróa Sigurðardóttir, Júlíus Vífill Ingvarsson og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson. Fundarritari var Kristbjörg Stephensen.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram fundargerð félagsmálaráðs frá 22. ágúst.

2. Lögð fram fundargerð fræðsluráðs frá 27. ágúst.

3. Lögð fram fundargerð hafnarstjórnar frá 27. ágúst.

4. Lögð fram fundargerð hverfisnefndar Grafarvogs frá 21. ágúst.

5. Lögð fram fundargerð jafnréttisnefndar frá 16. ágúst.

6. Lögð fram fundargerð skipulags- og byggingarnefndar frá 22. ágúst.

7. Lögð fram fundargerð stjórnar Innkaupastofnunar frá 27. ágúst.

8. Lögð fram fundargerð stjórnar Vinnuskólans frá 23. ágúst.

9. Lögð fram fundargerð umhverfis- og heilbrigðisnefndar frá 23. ágúst.

10. Lagt fram bréf fulltrúa borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 2 mál.

11. Lagt fram bréf borgarlögmanns frá 20. þ.m., þar sem óskað er heimildar borgarráðs til að ganga frá kaupum á Höfðatúni 10. Samþykkt.

12. Borgarverkfræðingur fór yfir stöðu mála í Norðlingaholti.

13. Lögð fram að nýju umsögn fulltrúa skrifstofustjóra borgarstjórnar frá 9. júlí s.l. um leyfi til áfengisveitinga fyrir Kaffi Austurstræti, Austurstræti 6, ásamt bréfi skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. 18. f.m., bréf Björns Erlendssonar, rekstraraðila veitingastaðarins, dags. 30. f.m., ásamt bréfi fyrirtækja sem reka starfsemi að Austurstræti 6, dags. 30. f.m. Jafnframt lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks, sem lögð var fyrst fram á fundi borgarráðs 24. júlí s.l., umsögn aðstoðarmanns borgarlögmanns frá 14. þ.m. ásamt yfirlýsingu lögreglustjórans í Reykjavík, dags. 8. þ.m., ásamt meðfylgjandi gögnum og bréf Björns Erlendssonar, dags. 7. og 19 þ.m. Ennfremur lagður fram að nýju útdráttur úr dagbók lögreglu um ölvun á almannafæri 1998 – 20. ágúst 2001 í miðborginni, ásamt útdrætti úr ársskýrslu ríkislögreglustjóra 1999 um breytingu á áfengislögum og eignaspjöll 1999, ásamt yfirliti yfir skilgreind brot á áfengislögum í umdæmi Lögreglustjórans í Reykjavík árið 2000.

Borgarstjóri lagði fram svohljóðandi tillögu:

Borgarráð hefur fjallað ítarlega um málefni veitingarstaðarins Kaffi Austurstræti að undanförnu og leitað afstöðu eða umsagnar allra þeirra er málið varðar, m.a. hefur í tvígang verið leitað álits lögreglunnar í Reykjavík og farið yfir málið með henni á fundi borgarráðs í síðustu viku. Ástæða þessarar ítarlegu yfirferðar er sú afstaða fjölmargra að yfirbragð staðarins og umgengni í næsta nágrenni hans sé ekki með þeim hætti sem menn vilja sjá í miðborg Reykjavíkur.

Í umsögn aðstoðarmanns borgarlögmanns kemur fram að ákvarðanir stjórnvalda verði ætíð að vera lögmætar og byggja á málefnalegum rökum, afturköllun leyfa sem aðrar ákvarðanir. Í umsögnum frá lögreglu dags. 13. júní og 8. ágúst kemur fram að engin lagaleg rök séu að þeirra mati fyrir því að mæla gegn umsókn staðarins um vínveitingaleyfi og rekstraraðili hafi ekki orðið uppvís að brotum í rekstri staðarins þó svo að staðurinn ,,þjónusti m.a. fólk með þann lífsstíl sem engum sæmir nema óreglufólki”. Er það jafnframt mat aðstoðarmanns borgarlögmanns að ekki séu til staðar málefnaleg rök fyrir synjun umsóknar um vínveitingaleyfi í máli þessu.

Flest bendir því til að synjun umsóknar myndi hvorki halda gagnvart úrskurðarnefnd áfengismála né dómstólum. Tillögu um synjun er því vísað frá en samþykkt að veita tímabundið leyfi til 6 mánaða til reynslu með þeim takmörkunum sem um getur í umsögn fulltrúa skrifstofustjóra borgarstjórnar. Á síðasta fundi borgarráðs kom það fram hjá fulltrúa lögreglunnar í Reykjavík að hún hyggðist taka fastar á ölvun og óspektum í miðborginni en hingað til og leggur borgarráð áherslu á að því verði fylgt fast eftir. Jafnframt verði skrifstofu borgarstjórnar falið að taka upp viðræður við rekstraraðila staðarins, sbr. bréf hans dags. 7. ágúst sl., um þær breytingar sem þurfa að verða á yfirbragði staðarins þannig að hægt sé að búa við þennan rekstur í miðborg Reykjavíkur. Verði þar ekki breyting á, sbr. skráðar bókanir lögreglu sem tengjast þessum stað, mun leyfi til vínveitinga ekki verða endurnýjað að 6 mánuðum liðnum.

Samþykkt með 4 atkv. gegn 3.

14. Lögð fram umsögn fulltrúa skrifstofustjóra borgarstjórnar frá 27. þ.m. um leyfi til áfengisveitinga fyrir veitingastaðinn Kaffi Thomsen, Hafnarstræti 17. Jafnframt lagt fram bréf Lendna ehf., dags. 20. þ.m. ásamt bréfi lögmanns Lendna hf., dags. í dag. Borgarráð samþykkir umsögn fulltrúa skrifstofustjóra borgarstjórnar en felur jafnframt skrifstofu borgarstjórnar að taka upp viðræður við rekstraraðila staðarins um þær breytingar sem þurfa að verða á rekstri og yfirbragði staðarins, sbr. skráðar bókanir lögreglu sem tengjast þessum stað, eigi leyfi til vínveitinga að verða endurnýjað að 6 mánuðum liðnum.

15. Lögð fram ársskýrsla Félagsþjónustunnar í Reykjavík 2000.

16. Lagt fram bréf Innkaupastofnunar frá 27. þ.m., sbr. samþykkt stjórnar Innkaupastofnunar s.d. varðandi tilboð í ýsuflök. Samþykkt að taka tilboði lægstbjóðanda, Fiskverslunar Hafliða Baldurssonar ehf.

17. Lagt fram bréf Innkaupastofnunar frá 27. þ.m., sbr. samþykkt stjórnar Innkaupastofnunar s.d. varðandi tilboð í verkið Kjalarnes endurnýjun 1. áfanga. Samþykkt að taka tilboði lægstbjóðanda, RBG Vélaleigu og verktaka ehf.

18. Lagt fram bréf Innkaupastofnunar frá 27. þ.m., sbr. samþykkt stjórnar Innkaupastofnunar s.d. varðandi tilboð í Grímsnesveitu 1. verkáfanga og stofnpípur. Samþykkt að taka tilboði lægstbjóðanda, Nóntinds ehf.

19. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 4. f.m., sbr. samþykkt skipulags- og byggingarnefndar 20. júní s.l. um deiliskipulag að Ofanleiti 1 og 2, leiðrétta bókun. Jafnframt lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarverkfræðings frá 29. júní s.l., sbr. samþykkt samgöngunefndar 25. júní s.l. Samþykkt.

20. Lagður fram úrskurður kærunefndar útboðsmála frá 23. þ.m. í máli nr. 1/2001; Nýherji hf. gegn Reykjavíkurborg.

21. Lagt fram bréf forstöðumanns Listasafns Reykjavíkur frá 17. þ.m. um heimild til að staðsetja útilistaverkið “Vatnaflautan” eftir Hafstein Austmann við Fjölbrautarskólann í Ármúla. Samþykkt.

22. Lagt fram að nýju erindi Ylhúsa frá 12. f.m. varðandi kaup eða leigu á húseigninni nr. 107 við Hraunbæ ásamt umsögn félagsmálastjóra frá 20. þ.m. um erindið. Samþykkt.

23. Lagt fram að nýju bréf borgarstjóra frá 23. f.m. um stjórnskipulag á sviði umhverfis- og tæknimála og skipulags- og byggingamála ásamt bréfi Borgarskipulags frá 23. f.m., sbr. samþykkt skipulags- og byggingarnefndar 18. s.m. um endurskipulagningu Borgarskipulags og embættis byggingarfulltrúa, áfangaskýrsla um vinnu við skipulag umhverfis- og tæknisviðs og bréf embættis borgarverkfræðings frá 13. þ.m. með fylgigögnum, sbr. samþykkt umhverfis- og heilbrigðisnefndar s.d. um stjórnkerfisbreytingar á sviði umhverfis- og tæknimála og skipulags- og byggingamála. Jafnframt lagt fram að nýju bréf fulltrúa borgarstjórnar, dags. 13. þ.m. um breytingartillögu við tillögu borgarstjóra ásamt fundargerð stjórnkerfisnefndar frá 13. s.m. Einnig lögð fram að nýju umsögn borgarritara frá 14. þ.m. um útfærslu skipurita á sviði umhverfis- og tæknimála og skipulags- og byggingamála. Jafnframt lagðar fram breytingatillögur borgarstjóra, dags. 27. þ.m., við tillögu borgarstjóra, dags. 23. f.m., að breytingum á stjórnskipulagi á sviði umhverfis- og tæknimála og skipulags- og byggingamála. Breytingatillaga borgarstjóra samþykkt með 4 atkv. gegn 3.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óskuðu bókað:

Tillögur R-listans um breytt stjórnskipulag á sviði umhverfis- og tæknimála og skipulags- og byggingamála fela í sér aukna yfirbyggingu og eru ekki til þess fallnar að gera stjórnsýslu borgarinnar á þeim vettvangi skilvirkari eða stytta boðleiðir í kerfinu. Engin efnisleg rök hafa komið fram sem sýna hagræðingu eða stjórnunarlegan ávinning með þessum tillögum. Þvert á móti verður valdsvið og verkaskipting einstakra embættismanna óljósari. Með tillögunni er verið að búa til nýtt embætti yfirmanns skipulags- og byggingamála og þar með nýjan yfirmann yfir embætti núverandi skipulagsstjóra. Með því er Borgarskipulag svipt faglegu sjálfstæði sínu og embætti skipulagsstjóra, sem heyrt hefur beint undir borgarstjóra, í raun lagt niður. Þessi ákvörðun er alvarlegt skref aftur á bak og óskiljanleg í ljósi þess að á undanförnum 20 árum hefur verið unnið að því að efla faglegan þátt þessarar stofnunar, sem hefur mjög mikilvægu hlutverki að gegna í skipulags- og byggingamálum borgarinnar. Verið er að gera skipulagsmálum lægra undir höfði og stjórnsýslu þeirra að hornreku í kerfinu.

Breytingar á embætti borgarverkfræðings, þar sem embættinu er breytt í umhverfis- og tæknisvið eru óraunhæfar og allan rökstuðning fyrir gagnsemi breytinganna vantar. Einnig hafa komið fram afar misvísandi túlkanir á hvað hinar einstöku ráðstafanir þýði og hvernig farið verði með innbyrðis verkaskiptingu. Það vekur sérstaka athygli að undirbúningur þessara viðamiklu stjórnkerfisbreytinga er ekki unnin í samráði við stjórnkerfisnefnd. Það eru óeðlileg vinnubrögð þegar um er að ræða hluta af æðstu stjórnsýslu borgarinnar. Ljóst er að stöðugur ágreiningur milli Árna Þórs Sigurðssonar formanns skipulags- og byggingarnefndar og Helga Hjörvar formanns stjórnkerfisnefndar hefur komið í veg fyrir að stjórnkerfisnefnd tæki málið til umfjöllunar. Það var ekki fyrr en tillögur höfðu verið afgreiddar frá skipulags- og byggingarnefnd og komnar til borgarráðs að fallist var á kröfur fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í borgarráði um að stjórnkerfisnefnd fengi þær til afgreiðslu.

Þessar skipulagsbreytingar R-listans eru enn ein tilraunin til að fela ýmis vandkvæði og seinagang í stjórnsýslunni, þar sem átök milli pólitískt kjörinna fulltrúa og innbyrðis valdabarátta kristallast. Það sem einkennir þessar breytingar eru, ný embætti, fleiri silkihúfur, aukinn kostnaður og útþensla.

Borgarstjóri óskaði bókað:

Eins og fram kemur í greinargerð, sem fylgir tillögunni sem nú hefur verið samþykkt, er ekki síst að því stefnt með þeim breytingum sem gerðar verða, að styrkja stöðu umhverfismála og skipulagsmála í stjórnkerfi borgarinnar. Er það í samræmi við breytt viðhorf í borgarmálum og það aukna vægi sem þessir málaflokkar hafa í allri þjóðfélagsumræðu. Það er því með öllu óskiljanlegt að því skuli haldið fram af Sjálfstæðismönnum að verið sé að svipta Borgarskipulag faglegu sjálfstæði sínu og gera skipulagsmálin að hornreku í borgarkerfinu. Í raun er það harla sérkennilegt að Sjálfstæðismenn skuli reyna að gera pólitískan ágreining úr því einu að verið sé að endurskoða stjórnskipulag sem færa má rök fyrir að hafi verið óbreytt alltof lengi. Slíkur ágreiningur endurspeglar óvenjulega íhaldssemi. Með breytingunni er að auki stefnt að því að ná margvíslegri hagræðingu í sameiginlegum rekstri stofnana sem hver um sig rekur núna sjálfstæða skrifstofu og afgreiðslu.

Hrannar Björn Arnarsson óskaði bókað:

Ég lýsi sérstakri ánægju minni með þær breytingar sem nú hafa verið samþykktar á umhverfis- og tæknisviði borgarinnar, sérstaklega tilkomu Umhverfis- og heilbrigðisstofu sem sameina mun krafta borgarinnar á vettvangi umhverfis- og heilbrigðismála í einni öflugri stofnun. Tilkoma umhverfis- og heilbrigðisstofu markar tímamót í þróun málaflokksins innan borgarinnar og er í góðu samræmi við vaxandi mikilvægi hans í borgarsamfélaginu á undanförnum árum. Umhverfis- og heilbrigðisstofa mun án nokkurs vafa efla og styrkja málafokkinn enn frekar á komandi árum.

24. Lagt fram bréf borgarlögmanns frá 27. þ.m., þar sem lagt er til að borgarráð falli frá forkaupsrétti að mb. Lárusi Halldórssyni SH-217. Samþykkt.

25. Lagt fram bréf Reykjavíkurhafnar og Íþrótta- og tómstundaráðs, dags. 20. þ.m. ásamt greinargerð um Cutty Sark Tall Ship Race í Bergen 2001.

26. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram svohljóðandi athugasemd vegna bókunar borgarstjóra á fundi borgarráðs 21. ágúst við lið nr. 20:

Það er rangt hjá borgarstjóra að Sjálfstæðismenn hafi tafið afgreiðslu þessa máls. Þeir vöktu fyrst athygli á því í fyrirspurn í borgarráði 10. júlí s.l. sem svarað var af hálfu borgarstjóra 24. júlí. Síðan hefur málinu ítrekað verið frestað af hálfu meirihlutans, líklega vegna þess að verið var að færa það í heppilegri búning.

27. Lagt fram svar fjármálastjóra frá 27. þ.m. við fyrirspurn Ingu Jónu Þórðardóttur sem lögð var fram á fundi borgarráðs 21. þ.m. um færslu fjárveitinga milli ára.

28. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarverkfræðings frá 24. þ.m. um úthlutun viðbótarlóðar við Sævarhöfða 2-2A. Samþykkt. Júlíus Vífill Ingvarsson vék sæti við afgreiðslu málsins.

29. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarverkfræðings frá 23. þ.m. um framsal byggingarréttar á lóðum við Grænlandsleið. Samþykkt.

30. Lagt fram bréf borgarverkfræðings frá 24. þ.m. um framsal byggingarréttar á lóð nr. 2-12 við Gvendargeisla. Samþykkt.

31. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 22. þ.m., sbr. samþykkt skipulags- og byggingarnefndar s.d. um deiliskipulag á Barónsreit. Samþykkt.

- Kl. 14.05 vék Jóna Gróa Sigurðardóttir af fundi.

32. Afgreidd 72 útsvarsmál.

Fundi slitið kl. 14.30.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir

Alfreð Þorsteinsson Júlíus Vífill Ingvarsson
Helgi Pétursson Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson
Hrannar Björn Arnarsson