Borgarráð - Fundur nr. 4696

Borgarráð

BORGARRÁÐ

Ár 2001, þriðjudaginn 31. júlí, var haldinn 4696. fundur s. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 12.00. Viðstaddir voru Steinunn Valdís Óskarsdóttir, Helgi Hjörvar, Sigrún Magnúsdóttir, Helgi Pétursson, Inga Jóna Þórðardóttir og Júlíus Vífill Ingvarsson. Fundarritari var Kristbjörg Stephensen.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram fundargerð stjórnar Innkaupastofnunar frá 30. júlí.

2. Lögð fram fundargerð skipulags- og byggingarnefndar frá 25. júlí. B-hluti fundargerðarinnar samþykktur.

3. Lagðar fram embættisafgreiðslur fulltrúa borgarstjórnar, dags. í dag, um afgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 4 mál.

4. Lagt fram bréf Borgarskipulags frá 30. þ.m., sbr. samþykkt skipulags- og byggingarnefndar 25. s.m. varðandi ósk um að fá til afnota lóðarblett í eigu Reykjavíkurborgar (fósturlóð) fyrir framan lóðina nr. 12 við Viðarás. Samþykkt.

5. Lagt fram bréf Borgarskipulags frá 30. þ.m., sbr. samþykkt skipulags- og byggingarnefndar 25. s.m. um umráðarétt (fósturlóð) yfir 3,5 metra skika við enda raðhúss nr. 19 við Brekkubæ. Samþykkt.

6. Lagt fram bréf Borgarskipulags frá 30. þ.m., sbr. samþykkt skipulags- og byggingarnefndar 25. s.m. um auglýsingu á deiliskipulagi fyrir Vatnagarða 4-28. Samþykkt.

7. Lagt fram bréf Borgarskipulags frá 30. þ.m., sbr. samþykkt skipulags- og byggingarnefndar 25. s.m. um auglýsingu á deiliskipulagi fyrir athafnasvæði í Grafarholti. Samþykkt.

8. Lögð fram ársskýrsla Leikskóla Reykjavíkur árið 2000.

9. Lagt fram bréf Innkaupastofnunar Reykjavíkurborgar, dags. 30. þ.m., sbr. samþykkt stjórnar Innkaupastofnunar s.d., um kaup á foreinangruðum plaströrum vegna Grímsnesveitu. Samþykkt að taka tilboði lægstbjóðanda, Nör ehf.

- Kl. 12.30 tók Vilhjálmur Þ. Vilhjámsson sæti á fundinum.

10. Lögð fram tillaga framkvæmdastjóra þróunar og fjölskyldusviðs, dags. 30. þ.m., um að Sigurður Ármann Snævarr verði ráðinn í stöðu borgarhagfræðings. Frestað. Samþykkt að óska eftir umsögn borgarritara um stöðu borgarhagfræðings í stjórnkerfi borgarinnar.

11. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarverkfræðings, dags. 27. þ.m., þar sem lagt er til að borgarráð samþykki að í stað Varna ehf. verði Samvinnuferðir-Landsýn ehf. lóðarhafi lóðarinnar nr. 32 við Gylfaflöt. Samþykkt.

12. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarverkfræðings, dags. 26. þ.m., þar sem lagt er til að borgarráð samþykki að Þ.G. verktakar ehf. verði lóðarhafi leigulóðarinnar nr. 1, 3 og 5 (ójöfn nr.) við Naustabryggju í stað Björgunar ehf. Samþykkt.

13. Lögð fram að nýju umsögn fulltrúa skrifstofustjóra borgarstjórnar frá 9. þ.m. um leyfi til áfengisveitinga fyrir Kaffi Austurstræti, Austurstræti 6, ásamt bréfi skrifstofustjóra borgarstjórnar frá 18. þ.m. Jafnframt lagt fram bréf Björns Erlendssonar, rekstraraðila veitingastaðarins, dags. 30. þ.m., auk bréfs fyrirtækja sem reka starfsemi að Austurstræti 6, dags. 30. s.m. Ennfremur lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks sem lögð var fram á fundi borgarráðs 24. þ.m. Vísað til umsagnar borgarlögmanns. Jafnframt samþykkt að óska eftir afstöðu lögreglu til þeirra erinda sem nú liggja fyrir í málinu og að gera borgarráði grein fyrir þeim afskiptum sem lögreglan hefur þurft að hafa af málinu.

14. Lagt fram að nýju bréf skrifstofustjóra Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 6. þ.m., sbr. samþykkt umhverfis- og heilbrigðisnefndar 5. s.m., um gjaldskrá vegna sölu tóbaks og eftirlits skv. tóbaksvarnarlögum.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram svohljóðandi breytingartillögu við 3. gr. tillögu að gjaldskrá: Í 3. gr. breytast upphæðir þannig: Í stað kr. 12.250 komi kr. 5.000 og í stað kr. 7.350 komi kr. 3.000. Breytingartillagan var felld með 4 atkv. gegn 3. Gjaldskráin samþykkt með 4 atkv.

15. Lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks varðandi stofnun sérstakrar Miðbæjardeildar, sem frestað var á fundi borgarráðs 24. þ.m. Vísað til starfshóps til að kortleggja möguleika á árangursríkara eftirliti með veitingastöðum. Jafnframt óskað umsagnar félagsmálastjóra og framkvæmdstjóra ÍTR um tillöguna.

16. Borgarráðsfulltrúar Reykjavíkurlistans lögðu fram svohljóðandi bókun:

Á hverju ári gefur Samband íslenskra sveitarfélaga út yfirlit um rekstur og framkvæmdakostnað sveitarfélaga á landinu þar sem þau eru borin saman með sambærilegum hætti út frá ákveðnum lykiltölum. Rétt er að benda á nokkrar lykiltölur úr ársreikningum borgarinnar.

Ársreikningur borgarsjóðs fyrir árið 2000 sýnir að rekstur málaflokka hefur farið lækkandi frá árinu 1994. Jafnframt standast rekstraráætlanir borgarinnar nánast 100 prósent. Skuldir borgarsjóðs sem hlutfall af skatttekjum hafa stórlækkað frá 1994, eða úr 123.7% í 64.5% árið 2000. Þar með hafa fjármagnsgjöld borgarsjóðs einnig lækkað sem hlutfall af skatttekjum úr 6% árið 1994 í 3.1% árið 2000. Á sama tíma hefur borgarsjóður staðið í fjárfrekum framkvæmdum svo sem einsetningu grunnskóla og hreinsun strandlengjunnar.

Fyrirtæki borgarinnar hafa á undanförnum árum staðið í mikilli uppbyggingu. Má þar nefna virkjunarframkvæmdir Orkuveitu Reykjavíkur á Nesjavöllum. Nesjavallavirkjun er ekki ætlað að standa undir fjármagnskostnaði borgarinnar í heild. Standi virkjun undir fjármagnskostnaði, öðrum rekstrarkostnaði og ávöxtunarkröfu, þá er hún arðsöm fjárfesting. Það á við um Nesjavallavirkjun, en arðsemisútreikningar fyrir raforkuframleiðslu á Nesjavöllum sýna að virkjunin hefur rúmlega 10% innri arðsemi, og er áætlaður endurgreiðslutími virkjunarinnar um 11 ár. Heildarstofnkostnaður raforkuversins er áætlaður rúmir 8 milljarðar miðað við verðlag í júní 2001, en tekjur eru áætlaðar að meðaltali um 1500 milljónir á ári. Núvirtur hagnaður af Nesjavallavirkjun fram til 2018 er um 4,5 milljarðar króna.

Reykjavíkurborg er, líkt og ríkissjóður, sveitasjóðir og fyrirtæki landsins, hluti af efnahagskerfi þjóðarinnar. Þar af leiðandi hafa sveiflur eins og gengisbreytingar áhrif á fjármagnskostnað hennar sem og annarra þátttakenda í íslensku efnahagslífi. Málflutningur borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins að undanförnu er einungis til þess fallinn að slá ryki í augu borgarbúa og snúa við staðreyndum.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óskuðu bókað:

Fulltrúar R-lista forðast sem fyrr að fjalla um meginatriði fjármálastöðu Reykjavíkurborgar sem er hrikaleg skuldasöfnun á þeirra valdatíma. Frá árinu 1994 til ársloka þessa árs munu hreinar skuldir borgarinnar sjöfaldast að raungildi. Þessari hrikalegu skuldasöfnun fylgir að sjálfsögðu stóraukinn fjármagnskostnaður nú og í framtíðinni.

Tilburðir fulltrúa R-listans til að fela þessar staðreyndir með því að fjalla eingöngu um fjármál borgarsjóðs eru aumkunarverðar þegar til þess er litið að millifærslur fjár til borgarsjóðs frá stofnunum og fyrirtækjum borgarinnar hafa leitt til þess að samanburður er ómögulegur. Með slíkum bókhaldsbrellum hafa margir milljarðar króna verið fluttir til og þannig hægt að sýna betri stöðu borgarsjóðs. Fjárhagsstaða Reykjavíkurborgar hefur á hinn bóginn hríðversnað á valdatíma R-listans.

Auk þess hefur skattheimta á borgarbúa aukist verulega á þessum árum með hækkun útsvars og fasteignaskatts. Samanburður sem hlutfall af skatttekjum verður því að skoðast í því ljósi.

Borgarráðsfulltrúar Reykjavíkurlistans óskuðu bókað:

Það er ömurlegt hlutskipti fyrir fulltrúa Sjálfstæðisflokksins að hafa ekkert annað til málanna að leggja en að vera stöðugt með útúrsnúninga varðandi fjármál borgarinnar. Það sem vekur furðu er að formaður Sambands íslenskra sveitafélaga skuli taka þátt í bókun sem þessari. Það eru skýr ákvæði um samanburðarhæfni ársreikninga allra sveitarfélaga á landinu og stendur Reykjavík afar vel í þeim samanburði. Lántökur fyrirtækja borgarinnar til framkvæmda og fjárfestinga á umliðnum árum eru fráleitt hættumerki, heldur þvert á móti til vitnis um framfarir og uppbyggingu á síðustu 7 árum.

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson óskaði bókað:

Ég kannast ekki við útúrsnúninga í bókun okkar Sjálfstæðismanna. Í bókun okkar er einungis vakin athygli á nokkrum mikilvægum staðreyndum varðandi vaxandi skuldaaukningu borgarinnar og afleiðingar hennar. Það sem ég hef einkum gagnrýnt í fjármálastjórn borgarinnar er sú staðreynd að fluttir hafa verið fjármunir úr sjóðum fyrirtækja borgarinnar í þeim tilgangi að fegra stöðu borgarsjóðs, sem þýðir aukna skuldasöfnun hjá viðkomandi fyrirtækjum borgarinnar. Ég veit ekki til þess að önnur sveitarfélög hafi farið þessa leið til að fegra stöðu sinna bæjarsjóða. Ég óska eftir því að borgarráðsfulltrúar R-listans finni orðum sínum um útúrsnúning stað í bókun okkar.

Borgarráðsfulltrúar Reykjavíkurlistans óskuðu bókað:

Síendurteknar blekkingar Sjálfstæðismanna felast í því að fjalla um skuldir fyrirtækja borgarinnar, s.s. Orkuveitunnar, sem skuldir borgarsjóðs, en telja ekki hina miklu skuldaaukningu Landsvirkjunar til skulda ríkissjóðs. Lántökur beggja fyrirtækja eru eðlilegar og ætlaðar til arðbærra fjárfestinga. Að fjárhagsstaða borgarinnar fari hríðversnandi er að umturna sannleikanum því nú eru tekjur borgarsjóðs umtalsvert meiri en rekstrargjöld en því var öfugt farið í tíð Sjálfstæðismanna, og sýnir það svo ekki verður um villst að fjárhagsstaða borgarinnar hefur farið snarbatnandi á síðustu árum.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óskuðu bókað:

Ljóst er að fulltrúar R-listans treysta sér ekki til að finna orðum sínum um útúrsnúning stað.

17. Júlíus Vífill Ingvarsson lagði fram svohljóðandi fyrirspurn:

Fjármáladeild hefur reiknað að minni beiðni fjármagnskostnað borgarinnar frá árinu 1994 til ársins 2000. Í framhaldi af því er óskað eftir að fjármáladeild geri áætlun um það hver fjármagnskostnaður borgarinnar stefni í að verða á þessu ári. Upplýsingarnar verði lagðar fram í borgarráði svo fljótt sem kostur er.

Fundi slitið kl. 14.30

Steinunn Valdís Óskarsdóttir

Helgi Hjörvar Helgi Pétursson
Inga Jóna Þórðardóttir Júlíus Vífill Ingvarsson
Sigrún Magnúsdóttir Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson