Borgarráð - Fundur nr. 4683

Borgarráð

3

B O R G A R R Á Ð

Ár 2001, föstudaginn 27. apríl var haldinn 4683. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 13.00. Viðstaddir voru, auk borgarstjóra, Hrannar Björn Arnarsson, Inga Jóna Þórðardóttir, Jóna Gróa Sigurðardóttir, Júlíus Vífill Ingvarsson, Sigrún Magnúsdóttir og Steinunn Valdís Óskarsdóttir Fundarritari var Gunnar Eydal.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram fundargerð miðborgarstjórnar frá 23. apríl.

2. Lögð fram fundargerð skipulags- og byggingarnefndar frá 25. apríl.

3. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í dag, varðandi embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 4 mál.

4. Lögð fram umsögn fulltrúa skrifstofustjóra borgarstjórnar frá 26. þ.m. um leyfi til áfengisveitinga fyrir veitingastaðinn Grand Rokk, Smiðjustíg 6. Borgarráð samþykkir umsögnina.

5. Lagðar fram umsagnir fulltrúa skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í dag, varðandi leyfi til reksturs leiktækjasalar að Hafnarstræti 18 og knattborðsstofu að Skúlagötu 26. Borgarráð samþykkir umsagnirnar.

6. Lagt fram bréf stofnenda Lánatryggingasjóðs kvenna frá 25. þ.m. um breytingar á samþykktum sjóðsins að því er varðar framhald á starfsemi. Samþykkt.

7. Lögð fram að nýju umsögn borgarlögmanns frá 23. þ.m. um frumvörp til laga um skipan opinberra framkvæmda og frumvarp til laga um opinberar framkvæmdir. Borgarráð samþykkir umsögnina og jafnframt var gerð svohljóðandi bókun:

Borgarráð átelur hinn skamma umsagnarfrest um frumvörpin sem gefinn er og það hversu lítið samráð var haft við Innkaupastofnun Reykjavíkurborgar meðan á smíði frumvarpsins stóð. Vegna hins skamma frests hefur ekki reynst mögulegt að yfirfara frumvarp til laga um opinber innkaup og þá sérstaklega reglur annars þáttar frumvarpsins svo viðunandi geti talist. Borgarráð telur hins vegar mikilvægt að helstu efnisreglur um opinber innkaup verði að finna í einum heildarlögum. Með framkomnu frumvarpi til laga um opinber innkaup sé stefnt að því að tryggja gegnsæi, skýr vinnubrögð og jafnræði bjóðenda við innkaup og framkvæmdir á vegum opinberra aðila. Þótt ýmsir ágallar séu á frumvarpi til laga um opinber innkaup, eins og rakið er í umsögn borgarlögmanns, telur borgarráð samþykkt frumvarpsins til bóta að því tilskildu að tekið verði tillit til framkominna athugasemda og haft samráð við sveitarfélögin um hvernig leysa megi úr þeim ágöllum sem á frumvarpinu eru.

Inga Jóna Þórðardóttir vék af fundi við meðferð málsins.

8. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarritara frá 23. þ.m. yfir styrkumsóknir sem borist hafa. Umsókn Sjálfsbjargar o.fl. vísað til framkvæmdastjóra þróunar- og fjölskyldusviðs. Umsókn Kiwanisklúbbsins Höfða vísað til samgöngunefndar. Aðrar umsóknir hljóta ekki stuðning.

9. Lögð fram umsögn fulltrúa borgarstjórnar frá 23. þ.m. um erindi Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins um þvingunarúrræði, s.s. dagsektir. Borgarráð samþykkir umsögnina.

10. Lagt fram að nýju bréf ritara stjórnar veitustofnana frá 18. þ.m., sbr. samþykkt stjórnarinnar 17. s.m. um þátttöku í fyrirtækinu Raflínu ehf. þannig að Orkuveita Reykjavíkur eigi allt að 50% í fyrirtækinu. Samþykkt með 4 atkvæðum gegn 3.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óskuðu bókað:

Þegar Lína.Net hf. var stofnað átti gagnaflutningur í gegnum rafdreifikerfi að vera meginverkefni fyrirtækisins. Nú er gerð tillaga um stofnun nýs fyrirtækis, Raflínu hf., með hlutafé allt að 80 mkr. Stofnfjárfesting þessa nýja fyrirtækis er 300 mkr. Engin efnisleg rök hafa verið sett fram fyrir stofnun nýs fyrirtækis. Aðaltilgangurinn með stofnun þessa fyrirtækis virðist því vera að búa til leið til að sækja aukna fjármuni í sjóði Orkuveitu Reykjavíkur. Fram hefur komið að þörf er á sérstöku fjármagni til markaðssóknar og því þurfi Orkuveitan að leggja það fram. Enn vantar meira fjármagn og skattgreiðendur í Reykjavík eiga að standa undir því. Ekki hefur verið kynnt með hvaða hætti nýtt fyrirtæki greiðir fyrir aðgang að þeim gæðum (auðlind) sem rafdreifikerfið er. Skýrir samningar þar að lútandi þurfa að liggja fyrir og þá um leið á hvaða forsendum verðlagning fer fram. Mikilvægt er að aðilar á markaði hafi eðlilegan og sanngjarnan aðgang að sameiginlegu rafdreifikerfi. Því er nauðsynlegt að Orkuveita Reykjavíkur byrji á því að móta stefnu um með hvaða hætti samkeppnisaðilar geti komið að þessu máli. Rétt er að benda á að fram hefur komið að þessi tækni sé lausn sem muni ekki gilda til framtíðar, heldur til skamms tíma og því er augljóslega um áhættusama fjárfestingu að ræða. Sjálfstæðismenn eru mótfallnir því að borgin standi í fyrirtækjarekstri á samkeppnismarkaði og greiða því atkvæði gegn þessari tillögu.

Borgarráðsfulltrúar Reykjavíkurlistans óskuðu bókað:

Fyrirtækið Raflína hf. er stofnað í þeim tilgangi að veita fjarskiptaþjónustu um rafdreifikerfið, en þó aðallega internetþjónustu og símaþjónustu. með fyrirtækinu er stefnt að því að bjóða stöðugar nettengingar til almennings á mun lægra verði en áður hefur þekkst. Þjónusta um raflínu er veitt yfir dreifikerfi Orkuveitunnar og verður verkefnið því óhjákvæmilega að vinnast í mjög nánu samstarfi við Orkuveituna. Þjónusta um raflínu er einnig háð fjarskiptatenginu á milli allra spennistöðva, en slík tenging er einungis möguleg um ljósleiðarakerfi Línu.Nets hf. sem rekur gagnaflutningskerfi og er með tengingu inn til annarra veitenda fjarskiptaþjónustu. Það er því mjög eðlilegt að Raflína hf. sé í sameign þeirra tveggja fyrirtækja sem eiga þann búnað sem notaður er. Eftir sem áður geta öll fyrirtæki sem selja internet- og símaþjónustu nýtt sér þá þjóðbraut sem þarna er verið að koma upp til hagsbóta fyrir neytendur.

11. Lagt fram bréf byggingarfulltrúa frá 26. þ.m. ásamt ársskýrslu embættisins.

12. Lögð fram tillaga borgarstjóra frá 26. þ.m. um að Guðrún Torfhildur Gísladóttir verði ráðin í starf borgarbókara. Samþykkt.

13. Borgarráð samþykkir að tilnefna Steinunni Valdísi Óskarsdóttur í stjórn Fjölsmiðjunnar og til vara Láru Björnsdóttur.

14. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarverkfræðings frá 27. þ.m. um að lóð við Þórðarsveig 1-9 verði ráðstafað fyrir fjölbýlishús. Samþykkt.

15. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram svohljóðandi tillögu:

Borgarráð samþykkir að framlög til einkaskóla í Reykjavík verði reiknuð á sama grundvelli og með sömu viðmið og framlög til annarra grunnskóla í Reykjavík.

Borgarráðsfulltrúar Reykjavíkurlistans lögðu fram svohljóðandi frávísunartillögu:

Tillaga sjálfstæðismanna ber vott um ótrúlega sýndarmennsku og ábyrgðarleysi. Hinn 21. ágúst 2000 samþykkti fræðsluráð samhljóða tillögu forstöðumanns fjármálasviðs að styrkjum til einkaskóla. Framlög til einkaskóla pr. nemanda hafa hækkað umtalsvert á síðustu árum, eða u.þ.b. 50% á þremur árum. Frá og með næsta skólaári fá einkaskólar í Reykjavík sömu upphæð pr. nemanda og Samband íslenskra sveitarfélaga notar með nemendum sem stunda nám utan lögheimilissveitarfélaga. Tillaga sjálfstæðismanna er eingöngu yfirboð og í andstöðu við fyrri afstöðu þeirra og fræðsluráð. Henni er því vísað frá.

Frávísunartillagan samþykkt með 4 atkvæðum gegn 3.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óskuðu bókað:

Tillaga okkar miðar að því að nemendur njóti jafnræðis óháð því hvort þeir stundi nám í almennum skóla eða einkaskóla. Tillagan er jafnframt forsenda fyrir raunverulegu sjálfstæði skóla sem fulltrúar R-listans láta stundum í veðri vaka að þeir styðji. Fullyrðingum um sýndarmennsku og ábyrgðarleysi vísum við til föðurhúsanna.

16. Afgreidd 39 útsvarsmál.

Fundi slitið kl. 14.40.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir

Inga Jóna Þórðardóttir Sigrún Magnúsdóttir
Jóna Gróa Sigurðardóttir Steinunn Valdís Óskarsdóttir
Júlíus Vífill Ingvarsson Hrannar Björn Arnarsson