Borgarráð - Fundur nr. 4681

Borgarráð

5

B O R G A R R Á Ð

Ár 2001, þriðjudaginn 10. apríl, var haldinn 4681. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 12.15. Viðstaddir voru, auk borgarstjóra, Helgi Hjörvar, Hrannar Björn Arnarsson, Inga Jóna Þórðardóttir, Júlíus Vífill Ingvarsson, Sigrún Magnúsdóttir og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson. Fundarritari var Gunnar Eydal.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram fundargerð Bláfjallanefndar frá 15. mars.

2. Lögð fram fundargerð fræðsluráðs frá 9. apríl.

3. Lagðar fram fundargerðir íþrótta- og tómstundaráðs frá 29. mars og 2. apríl.

4. Lögð fram fundargerð menningarmálanefndar frá 4. apríl.

5. Lögð fram fundargerð samgöngunefndar frá 9. apríl.

6. Lögð fram fundargerð samstarfsráðs Kjalarness frá 5. apríl.

7. Lögð fram fundargerð skipulags- og byggingarnefndar frá 4. apríl.

8. Lögð fram fundargerð Innkaupastofnunar frá 9. apríl.

9. Lögð fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 5 mál.

10. Lagðar fram umsagnir fulltrúa skrifstofustjóra borgarstjórnar frá 3. þ.m. um leyfi til áfengisveitinga fyrir Gullöldina, Hverafold 5 og Lóuhreiðrið, Laugavegi 58. Borgarráð samþykkir umsagnirnar.

11. Lagt fram bréf framkvæmdastjóra íþrótta- og tómstundaráðs frá 3. þ.m. varðandi tillögur starfshóps um ráðningar skólanema til stofnana og fyrirtækja borgarinnar. Samþykkt.

12. Lagt fram bréf framkvæmdastjóra íþrótta- og tómstundaráðs frá 3. þ.m., sbr. samþykkt ráðsins um stefnu í málefnum fólks af erlendum uppruna.

13. Lagt fram að nýju bréf skipulagsstjóra frá 22. f.m., sbr. samþykkt skipulags- og byggingarnefndar 21. s.m. um breytta landnotkun að Barðastöðum 1-5 og auglýsingu um breytingu á aðalskipulagi. Samþykkt.

14. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 5. þ.m., sbr. samþykkt skipulags- og byggingarnefndar 4. s.m. um miðlunartjarnir í Fossvogsdal. Samþykkt.

15. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 5. þ.m., sbr. samþykkt skipulags- og byggingarnefndar 4. s.m. um breytt deiliskipulag við Skógarhlíð. Samþykkt.

16. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 5. þ.m., sbr. samþykkt skipulags- og byggingarnefndar 4. s.m. um auglýsingu endurskoðaðs deiliskipulags vegna Suðurlandsbrautar 18-20 og Ármúla 15-27. Samþykkt.

17. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 5. þ.m. varðandi afmörkun skipulagssvæðis í Höllum og Hamrahlíðarlöndum.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óskuðu bókað:

Forval vegna gerðar ramma- og deiliskipulags Halla og Hamrahlíðarlanda hefur nú verið til umfjöllunar hjá borgarráði frá því í byrjun mars eftir að í ljós kom að tveir aðilar sem valdir voru tengjast mjög tveimur æðstu stjórnendum Borgarskipulags, en embættið tilnefndi fulltrúa sína til setu í forvalsnefndinni. Vinnubrögð borgarstjóra í þessu máli eru fáheyrð. Eftir að álitsgerð borgarlögmanns var lögð fram, þar sem komist er að þeirri niðurstöðu að stjórnsýslulög hafi verið brotin með störfum forvalsnefndar var einsýnt að eina rökrétta lausnin var að endurtaka forvalið. Þess í stað ákveður borgarstjóri persónulega að gera breytingu á forvalsnefndinni og fela nýrri nefnd að dæma þær tvær umsóknir, sem tengjast vanhæfi fulltrúa Borgarskipulags ásamt þeim nítján umsóknum sem ekki voru valdar. Ekki verður séð að slík einhliða ákvörðun borgarstjóra standist þar sem forvalsnefnd er skipuð af skipulags- og byggingarnefnd og á breyting á nefndinni því annað hvort að afgreiðast þar eða í borgarráði. Þegar breyting er gerð á forvalsnefnd er ljóst að ekki er hægt að tryggja að sömu sjónarmið liggi til grundvallar ákvörðun. Það er því algjörlega óviðunandi að einungis hluti umsækjenda sé metinn að nýju. Umsækjendur eiga ekki að þurfa að sæta slíkri meðferð. Borgaryfirvöld verða að virða jafnræðisreglu stjórnsýslulaga. Ekki hefur enn fengist upplýst sú einkunnagjöf sem lá til grundvallar upphaflegri tillögu forvalsnefndar. Borgarfulltrúum er ítrekað meinaður aðgangur að nauðsynlegum upplýsingum. Auk þess hefur mikilvægri forsendu fyrir deiliskipulagsvinnunni verið breytt með mikilli stækkun þess svæðis sem skipuleggja á. Eina rétta leiðin út úr þessari vandræðastöðu sem borgarstjóri og formaður skipulags- og byggingarnefndar hafa komið málinu í er að endurtaka forvalið í heild sinni. Einungis þannig verður unnt að skapa á ný það traust sem verður að ríkja milli borgaryfirvalda og þeirra sem eiga samskipti við þau.

18. Lögð fram umsögn skrifstofustjóra borgarverkfræðings frá 30. f.m. um viðbyggingu við Keiluhöllina í Öskjuhlíð, þar sem lagt er til að byggingarréttur verði seldur auk greiðslu gatnagerðargjalds. Borgarráð samþykkir umsögnina með 6 samhljóða atkvæðum.

19. Lagt fram bréf forstjóra Innkaupastofnunar frá 9. þ.m. um tilboð í uppsteypu Klébergsskóla. Samþykkt að taka tilboði lægstbjóðanda, Péturs Jökuls Hákonarsonar.

20. Lagt fram bréf Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins frá 3. þ.m. um stefnumörkun í beitingu þvingunarúrræða til að knýja á um úrbætur á sviði eldvarna. Vísað til umsagnar skrifstofustjóra borgarstjórnar.

21. Lagt fram bréf félagsmálastjóra frá 30. f.m. ásamt lokaskýrslu um skrifstofu Barnaverndarnefndar Reykjavíkur auk tillagna að reglum um starfshætti. Vísað til umsagnar borgarlögmanns.

22. Lagt fram að nýju bréf undirbúningshóps að stofnun Strætó bs., dags. 2. þ.m. ásamt tillögu að stofnsamningi og eigendasamkomulagi um stofnun byggðasamlags. Borgarráð samþykkir stofnsamning og eigendasamkomulag fyrir sitt leyti.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óskuðu bókað:

Sjálfstæðismenn hafa lagt áherslu á sameiginlegt leiðakerfi á höfuðborgarsvæðinu og samstarf sveitarfélaganna um rekstur almenningssamgangna. Tillaga þess efnis var flutt í borgarráði 26. október 1999. Sérfræðingur borgarstjóra hefur síðan unnið að úttekt og tillögum um almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Í skýrslu hans, en hún er grundvöllur vinnu samráðshópsins sem hér liggur fyrir, er komist að þeirri niðurstöðu að nauðsynlegt sé að félagið verði með sem líkustum hætti og hlutafélag. Auk þess er lögð áhersla á að útboð sé meginforsenda aukinnar hagkvæmni í rekstri. Sérfræðingurinn telur jafnframt að byggðasamlag sé lakasti kosturinn varðandi rekstrarform. Hann kemst að þeirri niðurstöðu að “fyrirtækið hefði til að bera flesta ef ekki alla sömu galla og við er að glíma í dag...”. Sá ágreiningur sem birtist í röðum R-listans þegar samráðshópnum var falið að vinna að stofnun nýs félags um almenningssamgöngur hefur greinilega verið lagður til hliðar í bili. Ljóst er að með stofnun nýs félags, byggðasamlags, um almenningssamgöngur er verið að stíga mikilvægt skref í að einkavæða og hlutafélagavæða reksturinn. Stjórn félagsins hefur víðtækt umboð til útboðs þannig að betri hagkvæmni í rekstri náist. Það vekur athygli að í stofnsamningi og eigendasamkomulagi er hvorki að finna neina framtíðarsýn né viðskiptaáætlun. Það bíður augljóslega betri tíma.

Borgarráðsfulltrúar Reykjavíkurlistans óskuðu bókað.

Með stofnun Strætó bs. er stigið mikilvægt skref í átt til þess að styrkja stöðu almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu með einu leiðarkerfi, einni gjaldskrá, hagkvæmni í rekstri, samræmdum forgangi strætisvagna í umferðinni og sameiginlegri málsvörn gagnvart álögum ríkisvaldsins á þennan ferðamáta. Allt ætti þetta að koma íbúum svæðisins til góða, sérstaklega þegar til lengri tíma er litið. Með því að velja fyrirtækinu form byggðasamlags hefur tekist að skapa víðtæka sátt um þetta verkefni milli rekstraraðila og starfsmanna – ólíkt því sem gerðist árið 1993 þegar sjálfstæðismenn gerðu misheppnaða tilraun til að einkavæða SVR. Þrátt fyrir þá reynslu eru þeir greinilega enn við sama heygarðshornið og kjósa að líta á stofnun byggðasamlagsins sem fyrsta skref að einkavæðingu og hlutafélagavæðingu.

23. Lagt fram bréf forstjóra Innkaupastofnunar frá 9. þ.m. varðandi tilboð í gufuaðveitu, hálokahús og dælustöð fyrir Orkuveitu Reykjavíkur. Samþykkt að taka tilboði lægstbjóðanda, Vélsmiðjunnar Gils ehf.

24. Lagt fram bréf forstjóra Innkaupastofnunar frá 9. þ.m. varðandi tilboð í endurnýjun gangstétta og veitukerfa 2. áfanga fyrir Orkuveitu Reykjavíkur. Samþykkt að taka tilboði lægstbjóðanda, Heimis og Þorgeirs ehf.

25. Lagt fram bréf Orkuveitu Reykjavíkur frá 2. þ.m. um framsal leiguréttinda sumarbústaðar að Elliðavatnsbletti 18. Samþykkt.

26. Lagt fram bréf menningarmálastjóra frá 4. þ.m. um gerð starfssamninga menningarmála, sbr. samþykkt menningarmálanefndar s.d. Samþykkt.

27. Lagt fram bréf skólastjóra Vinnuskólans frá 12. f.m. um laun unglinga 2001, sbr. samþykkt stjórnar skólans 8. s.m. Samþykkt.

28. Lögð fram umsögn framkvæmdastjóra Bílastæðasjóðs frá 4. þ.m. um tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks um bílastæði á þaki Faxaskála.

29. Lagt fram bréf embættis menningarmálastjóra frá 9. þ.m. um framlengingu leigusamnings um Þerney til eins árs. Samþykkt.

30. Lagt fram bréf framkvæmdastjóra Leikskóla Reykjavíkur frá 7. f.m., sbr. samþykkt leikskólaráðs s.d. um afslátt af gjaldskrá með öðru systkini. Jafnframt lögð fram umsögn fjármálastjóra frá 5. þ.m. um breytinguna. Borgarráð samþykkir breytinguna með tilvísun til framlagðrar umsagnar.

31. Lögð fram umsókn BYKO hf. frá 8. f.m. um lóð á mótum Vesturlandsvegar og Víkurvegar. Vísað til skrifstofustjóra borgarverkfræðings.

32. Lögð fram umsögn fjármálastjóra frá 2. þ.m. um erindi Félagsþjónustunnar frá 9. f.m. um aðgang aldraðra og öryrkja að Fjölskyldugarðinum. Borgarráð samþykkir umsögnina.

33. Lagt fram bréf Björns Erlendssonar frá 8. f.m. varðandi leyfi til að breyta skemmtistaðnum Austurstræti 6 í næturklúbb. Jafnframt lögð fram umsögn fulltrúa borgarstjórnar frá 6. þ.m. um erindið. Borgarráð samþykkir umsögnina og er því ekki fallist á erindið.

34. Lagt fram listi yfir styrkumsóknir til borgarráðs, dags. 4. þ.m.

35. Borgarráð samþykkir að veita Björgu Einarsdóttur o.fl. fjárstuðning, kr. 100.000, vegna kostnaðar við steypu brjóstmyndar eftir Ásmund Sveinsson í minningu dr. Bjargar C. Þorláksson.

36. Lagt fram bréf forstöðumanns kjaraþróunardeildar frá 9. þ.m. um hækkun á styrk til tónlistarskóla vegna nýgerðra kjarasamninga. Samþykkt.

37. Lagt fram bréf borgarverkfræðings frá 9. þ.m. ásamt erindi Skátasambands Reykjavíkur frá 6. þ.m. um afnot af Hljómskálagarðinum í sumar. Vísað til meðferðar umhverfis- og heilbrigðisnefndar.

38. Lagt fram bréf framkvæmdastjóra Bílastæðasjóðs frá 5. þ.m. varðandi breytingu á gjaldskrá bílastæða við Nóatún að hluta, Brautarholt og Skipholt, sbr. bréf skrifstofustjóra borgarverkfræðings frá 9. þ.m. Samþykkt.

39. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarverkfræðings frá 7. þ.m. um lóðir fyrir leiguhúsnæði í Grafarholti. Frestað.

40. Lögð fram bréf skrifstofustjóra borgarverkfræðings frá 6. og 9. þ.m., þar sem lagt er til að fallið verði frá forkaupsrétti að lóð nr. 17-27, oddatölur, við Grænlandsleið og lóð nr. 14-22, jöfn númer, við Kristnibraut. Samþykkt.

41. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarverkfræðings frá 6. þ.m. um viðbótarlóð við Gufuneskirkjugarð. Samþykkt.

42. Lögð fram bréf skrifstofustjóra borgarverkfræðings frá 5. þ.m. um kaup á íbúðum að Miklubraut 18 og 20. Samþykkt.

43. Lagt fram bréf þróunar- og fjölskyldusviðs, dags. í dag, um kostnað vegna kynningarefnis varðandi atkvæðagreiðslu um framtíðarnýtingu Vatnsmýrar 17. mars s.l.

Fundi slitið kl. 15.05.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir

Inga Jóna Þórðardóttir Hrannar Björn Arnarsson
Júlíus Vífill Ingvarsson Sigrún Magnúsdóttir
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson Helgi Hjörvar