Borgarráð - Fundur nr. 4680

Borgarráð

4

B O R G A R R Á Ð

Ár 2001, þriðjudaginn 3. apríl, var haldinn 4680. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 12.00. Viðstaddir voru, auk borgarstjóra, Helgi Hjörvar, Hrannar Björn Arnarsson, Inga Jóna Þórðardóttir, Júlíus Vífill Ingvarsson, Steinunn Valdís Óskarsdóttir og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson. Fundarritari var Gunnar Eydal.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram fundargerð félagsmálaráðs frá 28. mars.

2. Lögð fram fundargerð miðborgarstjórnar frá 26. mars.

3. Lögð fram fundargerð skipulags- og byggingarnefndar frá 28. mars.

4. Lögð fram fundargerð stjórnar Innkaupastofnunar frá 2. apríl.

5. Lögð fram fundargerð stjórnar veitustofnana frá 27. mars.

6. Lögð fram fundargerð umhverfis- og heilbrigðisnefndar frá 22. mars.

7. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í dag, um afgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 5 mál.

8. Lagðar fram umsagnir fulltrúa skrifstofustjóra borgarstjórnar frá 30. f.m. um leyfi til áfengisveitinga fyrir eftirtalda staði:

Wall Street, Ármúla 7 Galileo, Hafnarstræti 1-3

Borgarráð samþykkir umsagnirnar.

9. Lagður fram dómur Hæstaréttar í máli nr. 442/2000, Kristján Grétar Tryggvason gegn Reykjavíkurborg, skaðabótamál.

10. Lagt fram álit umboðsmanns Alþingis, mál nr. 2824/1999 og 2836/1999 varðandi starfshætti lögreglu.

11. Lagður fram kjarasamningur við Eflingu – stéttarfélag, dags. 22. f.m. Borgarráð samþykkir samninginn fyrir sitt leyti.

12. Lagt fram bréf hafnarstjóra frá 26. f.m. ásamt skýrslu um framtíðarnotkun Austurhafnar.

13. Lagt fram bréf byggingarfulltrúa frá 2. þ.m. varðandi dagsektir vegna óleyfisbyggingar að Skipasundi 9. Frestað.

14. Lögð fram yfirlýsing félagsmálaráðherra, Rauða kross Íslands, borgarstjóra og bæjarstjórans í Hafnarfirði um sjálfseignarstofnuna Fjölsmiðjuna frá 15. f.m. ásamt skipulagsskrá fyrir stofnunina. Samþykkt.

15. Lagt fram bréf undirbúningshóps að stofnun Strætó bs., dags. 2. þ.m. ásamt tillögu að stofnsamningi og eigendasamkomulagi um stofnun byggðasamlags. Frestað.

16. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 26. f.m., sbr. samþykkt skipulags- og byggingarnefndar 28. s.m. varðandi viðbyggingu við Skúlagötu 57. Borgarráð samþykkir afgreiðslu skipulags- og byggingarnefndar.

17. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 26. f.m., sbr. samþykkt skipulags- og byggingarnefndar 28. s.m. varðandi losunarstað á Hólmsheiði fyrir jarðvegsefni og auglýsingu að breyttu deiliskipulagi. Jafnframt lagt fram bréf embættis borgarverkfræðings frá 30. f.m. vegna málsins. Samþykkt.

18. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 26. f.m., sbr. samþykkt skipulags- og byggingarnefndar 28. s.m. varðandi auglýsingu á breytingu á deiliskipulagi á lóð Ártúnsskóla. Samþykkt.

19. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 26. f.m., sbr. samþykkt skipulags- og byggingarnefndar 28. s.m. varðandi breytingu á deilskipulagi lóðar nr. 9 við Skeljatanga. Samþykkt.

20. Lagt fram bréf Foreldrafélags Öskjuhlíðarskóla frá 20. f.m. varðandi fjárstuðning vegna sumardvalar nemenda, kr. 1.794.000. Samþykkt.

21. Lagt fram bréf slökkviliðsstjóra frá 2. þ.m. varðandi framkvæmdir við lokafrágang slökkvistöðvar í Hafnarfirði.

22. Lagt fram bréf fjármálastjóra frá 2. þ.m. varðandi breytingu á fjárhagsáætlun vegna húsnæðisstyrks til einkarekinna leikskóla. Samþykkt.

23. Lagt fram bréf fjármálastjóra frá 2. þ.m. um tilfærslur á milli liða fjárhagsáætlunar menningarmála. Samþykkt.

24. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 22. þ.m., sbr. samþykkt skipulags- og byggingarnefndar 21. s.m. um gerð deiliskipulags við Heiðargerði. Samþykkt.

25. Lagður fram 27. liður fundargerðar borgarráðs frá 27. f.m. varðandi forval arkitektastofu í tengslum við skipulag Halla og Hamrahlíðarlands. Jafnframt lagt fram bréf Ævars Harðarsonar frá 3. þ.m. varðandi málið.

Borgarstjóri óskaði bókað:

Í umsögn borgarlögmanns er því haldið fram að fulltrúar Borgarskipulags í forvalsnefndinni hafi verið vanhæfir til að meta umsóknir tveggja umsækjenda. Borgarlögmaður kemst samt sem áður að þeirri niðurstöðu að ekki sé ástæða til að endurtaka forvalið. Til að taka af öll tvímæli um að þessir umsækjendur hafi setið við sama borð og aðrir, þrátt fyrir meint vanhæfi tveggja fulltrúa Borgarskipulags, hef ég ákveðið að þessir fulltrúar víki úr forvalsnefndinni og að tveir nýir komi í þeirra stað, þ.e. arkitektarnir Sigbjörn Kjartansson og Rúnar Gunnarsson. Er þeim, ásamt öðrum fulltrúum í forvalsnefndinni, falið að dæma að nýju þessar tvær umsóknir ásamt þeim nítján umsóknum sem ekki voru valdar. Meint vanhæfi snertir ekki val fjögurra umsækjenda af sex og því ekki ástæða til að fara í frekara mat á þeim.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óskuðu bókað:

Við óskum eftir að fá afhentar niðurstöður forvalsnefndar sem meiri hluti skipulags- og byggingarnefndar byggði tillögu sína á. Jafnframt áskiljum við okkur rétt til að taka málið upp á næsta fundi borgarráðs.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óskuðu jafnframt bókað:

Óskað er upplýsinga um stærð þess lands sem forval Halla og Hamrahlíðarlanda tók til upphaflega og þær breytingar sem gerðar hafa verið á stærð þess.

26. Lagt fram bréf forstjóra Innkaupastofnunar frá 2. þ.m. um tilboð í endurnýjun gangstétta og veitukerfa fyrir Orkuveitu Reykjavíkur. Samþykkt að taka tilboði lægstbjóðanda, Sveins Skaftasonar.

27. Lögð fram bréf skrifstofustjóra borgarverkfræðings frá 28. f.m., sbr. samþykkt samgöngunefndar 26. s.m. um afmörkun svæða og gatna, þar sem gildir 30 km hámarkshraði. Samþykkt.

28. Borgarstjóri lagði fram svohljóðandi frávísunartillögu við tillögu borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks um göngubrú yfir Miklubraut, sbr. 43. lið fundargerðar borgarráðs frá 27. f.m.:

Eins og sjálfstæðismönnum er kunnugt er unnið að hönnun göngutengsla og breytingu á aðalskipulagi vegna fyrirhugaðrar göngubrúar yfir Miklubraut og er stefnt að því að ljúka verkhönnun og skipulagi á þessu ári þannig að framkvæmdir verði mögulegar á því næsta. Annars ágæt tillaga er því óþörf og henni vísað frá.

Frávísunartillagan samþykkt 4 samhljóða atkvæðum.

29. Borgarstjóri lagði fram svohljóðandi frávísunartillögu:

Í tillögu Júlíusar Vífils Ingvarssonar er lagt til að fram fari almenn úttekt á fjármálum borgarinnar, án þess að nokkur tilraun sé gerð til að afmarka það viðfangsefni. Þetta fæli í raun í sér úttekt á starfsemi hverrar einustu rekstareiningar innan borgarkefisins, nýtingu húsnæðis, fjárfestingu, lánastýringu, áhættustýringu, ávöxtun sjóða, innheimtumál o.fl. o.fl. Hún væri því gríðarlega umfangsmikil, dýr og vandséð hvernig hún myndi nýtast umfram þær úttektir sem gerðar eru árlega á vegum Borgarendurskoðunar við framlagningu ársreiknings borgarinnar. Stöðugt er unnið að úttektum á fjölmörgum sviðum borgarrekstursins, bæði að frumkvæði stjórnenda einstakra rekstrareininga og yfirstjórnar borgarinnar. Í því sambandi má geta þess að í starfsáætlun Ráðhússins fyrir þetta ár er annars vegar gert ráð fyrir úttekt á innra eftirliti, innri endurskoðun og fjárhagslegri endurskoðun með það að markmiði að styrkja eftirlitsferli borgarinnar og hins vegar að hefja markvissan samanburð við bæði sveitarfélög innanlands og utan og einkafyrirtæki til að ná betri árangri hvað varðar nýtingu fjármagns og gæði þjónustu og samspil þessara þátta. Eins og fram kemur í meðfylgjandi minnisblaði frá fjármálastjóra borgarinnar er útilokað að fela einum aðila úttekt á fjármálum borgarinnar án þess að takmarka það með einhverjum hætti við ákveðna þætti starfseminnar. Tillagan er því óraunhæf og er vísað frá.

Frávísunartillagan samþykkt með 4 atkvæðum gegn 2.

Júlíus Vífill Ingvarsson óskaði bókað:

Af frávísunartillögunni má ráða að borgarstjóri neitar að horfast í augu við kaldan sannleikann varðandi hrikalega skuldastöðu borgarinnar. Sú alvarlega þróun sem einkennt hefur fjármálastjórn R-listans eftir að hann tók við völdum í borginni árið 1994 verður að stöðva hið bráðasta og snúa vörn í sókn. Á sama tíma og borgarstjóri hreykir sér af dyggri fjármálastjórn sinni aukast skuldir borgarinnar um 7 milljónir króna á degi hverjum. Nettóskuldastaðan hefur farið úr 5,5 milljörðum árið 1994 í 21,5 milljarð á þessu ári. Í tillögu minni er alls ekki verið að leggja til að utanaðkomandi sérfræðingar velti hverjum steini í borgarkerfinu. Það er útúrsnúningur. Samkvæmt tillögunni eiga borgarendurskoðandi og fjármálastjóri borgarinnar að leggja tillögur fyrir borgarráð sem miða að því að ráðgjafavinnan nýtist sem best til þess að hægt verði að vinna á skuldastöðu borgarinnar. Það er auðveld fjármálastjórn að veita fjármagni til vinstri og hægri án innistæðu og ætla síðan komandi kynslóðum að borga skuldirnar. Það er e.t.v. líklegt til tímabundinna vinsælda. Frasi oddvita R-listans í síðustu kosningum “Skuldir í dag eru skattar á morgun” á vel við hér. Það hafa reynst orð að sönnu því að skuldir í dag hafa þegar endurspeglast í hærra útsvari, hærri fasteignasköttum og hækkun allra gjaldskráa borgarinnar. Þannig verður ekki áfram haldið. Það er furðulegt að kasta frá tillögu sem miðar að því að leita ráðgjafar á mikilvægu sviði. Aðeins ein skýring getur verið á því. Hún er ótti við að slík óvilhöll ráðgjöf muni opinbera óábyrga fjármálastjórn R-listans.

30. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram svohljóðandi fyrirspurn:

Hvað líður undirbúningi að stofnun og rekstri Alþjóðahúss, sbr. samþykkt borgarráðs 28. nóvember s.l.?

Fundi slitið kl. 15.00.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir

Inga Jóna Þórðardóttir Helgi Hjörvar
Júlíus Vífill Ingvarsson Hrannar Björn Arnarsson
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson Steinunn Valdís Óskarsdóttir