Borgarráð - Fundur nr. 4675

Borgarráð

4

B O R G A R R Á Ð

Ár 2001, þriðjudaginn 13. mars, var haldinn 4675. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 12.15. Viðstaddir voru, auk borgarstjóra, Helgi Hjörvar, Hrannar Björn Arnarsson, Inga Jóna Þórðardóttir, Júlíus Vífill Ingvarsson, Steinunn Valdís Óskarsdóttir og Vilhjámur Þ. Vilhjálmsson. Fundarritari var Gunnar Eydal.

Þetta gerðist:

1. Lagðar fram fundargerðir félagsmálaráðs frá 28. febrúar og 7. mars.

2. Lögð fram fundargerð fræðsluráðs frá 12. mars.

3. Lögð fram fundargerð hafnarstjórnar frá 12. mars.

4. Lögð fram fundargerð íþrótta- og tómstundaráðs frá 2. mars.

5. Lögð fram fundargerð leikskólaráðs frá 7. mars.

6. Lögð fram fundargerð menningarmálanefndar frá 7. mars.

7. Lögð fram fundargerð samgöngunefndar frá 12. mars.

8. Lögð fram fundargerð skipulags- og byggingarnefndar frá 7. mars.

9. Lögð fram fundargerð stjórnar Innkaupastofnunar frá 12. mars.

10. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 13 mál.

11. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 7. þ.m., sbr. samþykkt skipulags- og byggingarnefndar s.d. um auglýsingu deiliskipulags vegna Suðurhlíðar 38. Frestað.

12 Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 7. þ.m., sbr. samþykkt skipulags- og byggingarnefndar s.d. um Þjóðhildarstíg 3G, auglýsingu stækkunar byggingarreits. Samþykkt.

13. Lagt fram bréf menningarmálastjóra frá 8. þ.m., sbr. samþykkt menningarmálanefndar 7. s.m. um friðun húsa á Grófarreit. Vísað til umsagnar skipulags- og byggingarnefndar og borgarlögmanns.

14. Lagt fram bréf framkvæmdastjóra Leikskóla Reykjavíkur frá 7. þ.m., sbr. samþykkt leikskólaráðs s.d. um breytingu á gjaldtöku. Frestað.

15. Lagt fram bréf framkvæmdastjóra Leikskóla Reykjavíkur frá 7. þ.m., sbr. samþykkt leikskólaráðs s.d. um úthlutun styrkja.

16. Lagt fram bréf framkvæmdastjóra íþrótta- og tómstundaráðs frá 12. þ.m., sbr. samþykkt íþrótta- og tómstundaráðs 2. s.m. um úthlutun styrkja.

17. Lagt fram bréf félagsmálastjóra frá 6. þ.m., sbr. samþykkt félagsmálaráðs 28. f.m. um úthlutun styrkja.

18. Lagt fram bréf framkvæmdastjóra Línu.Nets hf. frá 9. þ.m. ásamt ákvörðun samkeppnisráðs nr. 7/2001 frá 5. þ.m. varðandi erindi Landsíma Íslands hf. vegna samnings Fræðslumiðstöðvar við Línu.Net hf.

19. Lagt fram bréf Samkeppnisstofnunar frá 7. þ.m. ásamt ákvörðun samkeppnisráðs nr. 8/2001 og áliti þess nr. 1/2001 í tilefni af erindi Bandalags sjálfstæðra leikhúsa um samkeppnisskilyrði.

20. Lagt fram endurrit úr dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-7131/1999, Ragnheiður Ágústsdóttir gegn Reykjavíkurborg.

21. Lagt fram endurrit úr dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-9318/2000 vegna úrskurðar úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála vegna Heiðagerðis 76, en Reykjavíkurborg er stefnt til réttargæslu í málinu.

- Kl. 13.30 tók Kristbjörg Stephensen við fundarritun.

22. Lagt fram bréf forstjóra Innkaupastofnunar frá 12. þ.m. varðandi kaup á rafstöð fyrir metangas í Álfsnesi. Samþykkt að taka tilboði lægstbjóðanda, Pro2 Anlagentechnik GmbH.

23. Lagt fram bréf forstjóra Innkaupastofnunar frá 12 þ.m. varðandi tilboð í búnað og þjónustu mælaprófunarstofa Orkuveitunnar, ásamt ódags. minnisblaði Orkuveitu um mælastöðvar Orkuveitu Reykjavíkur. Samþykkt að taka hagstæðasta tilboði, tilboði Frumherja hf., í búnað og þjónustu sölumælinga.

24. Lagt fram bréf forstjóra Innkaupastofnunar frá 12. þ.m. varðandi tilboð í endurskipulag varmastöðvar í Nesjavallavirkjun. Samþykkt að taka tilboði næst lægstbjóðanda, Teknís ehf.

25. Lagt fram bréf forstjóra Innkaupastofnunar frá 12. þ.m. varðandi tilboð í uppsetningu einingadreifistöðva. Samþykkt að taka tilboði lægstbjóðanda, Matthíasar ehf.

26. Lagt fram bréf forstjóra Innkaupastofnunar frá 12. þ.m. varðandi tilboð í steypta kantsteina. Frestað.

27. Lögð fram að nýju skýrsla Borgarendurskoðunar um framkvæmdir og tengibyggingu Borgarleikhúss og Kringlu og Listasafn Reykjavíkur í Hafnarhúsi, dags. í febrúar 2001.

- Kl. 14.20 vék Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson af fundi og Jóna Gróa Sigurðardóttir tók þar sæti.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óskuðu bókað:

Niðurstöður skýrslu Borgarendurskoðunar eru mikill áfellisdómur yfir stjórnsýslu borgarinnar. Ljóst er að borgarstjóra hefur ekki tekist að skipuleggja störf og eftirlit með fullnægjandi hætti. Þeirri ákvörðun að fela byggingarnefnd Listasafns Reykjavíkur, ásamt byggingadeild Borgarverkfræðings stranga kostnaðaraðgát hefur greinilega ekki verið fylgt eftir. Engar verklagsreglur hafa verið settar. Ekki var fylgt þeirri grundvallarreglu að ljúka hönnun að mestu áður en framkvæmdir hófust.

Listahátíð var færð fram fyrir sveitarstjórnarkosningar 1998 og fylgdi því mikill beinn kostnaður. Borgarendurskoðun leiðir líkur að því, að í raun hafi kostnaður vegna flutnings Listahátíðar orðið miklu meiri en talið hefur verið, vegna þess að byggingarframkvæmdir og hönnun við Hafnarhúsið töfðust fram eftir sumri, sem síðan leiddi til þess að framkvæmdaraðilar lentu í tímahraki sem fylgdi mikill aukakostnaður.

Fram kemur í skýrslu Borgarendurskoðunar, að borgarstjóri hafi undirritað 7. apríl 1998 viljayfirlýsingu Reykjavíkurborgar og Eignarhaldsfélags Kringlunnar um smíði tengibyggingar á milli Borgarleikhúss og Kringlunnar. Áætlaðar heildargreiðslur voru 62,5 milljónir króna. Einnig kemur fram í skýrslunni að kostnaðartölur í viljayfirlýsingunni voru ekki byggðar á haldbærum forsendum. Upplýsingar um kostnaðarhækkanir voru ekki lagðar fyrir borgarráð þegar þær lágu fyrir. Hluti borgarsjóðs í byggingunni reyndist vera 205 milljónir króna.

Borgarstjóri ber mikla ábyrgð í þessu máli. Ljóst er að báðar þessar framkvæmdir voru notaðar í hreinum pólitískum tilgangi fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar og það hefur kostað borgarbúa gríðarlegar fjárhæðir eins og skýrsla Borgarendurskoðunar ber glöggt vitni um.

Borgarráðsfulltrúar Reykjavíkurlistans óskuðu bókað:

Skýrsla Borgarendurskoðunar, sem unnin er samkvæmt beiðni borgarstjóra, varpar ljósi á mikilvægi þess að styrkja eftirlitsferli borgarinnar, m.a. með verklegum framkvæmdum, og skýra ábyrgðarmörk og hlutverk hinna ýmsu aðila sem að verki koma. Hefur vinnuhópi, undir forystu borgarritara, verið falið að gera tillögur um úrbætur og verður honum send skýrsla Borgarendurskoðunar til meðferðar. Það er með öllu óviðunandi að framkvæmdir fari eins mikið fram úr áætlunum og raunin er í þeim tveimur tilvikum sem hér eru til umfjöllunar. Á því kunna þó að vera haldbærar skýringar en í slíkum tilvikum er mikilvægt að borgarráð sé upplýst um stöðu mála áður en til útgjalda er stofnað. Hinu mega menn ekki gleyma að kostnaður af byggingarframkvæmdum á vegum borgarsjóðs nemur um 3 milljörðum á hverju ári, og um annað eins er að ræða hjá fyrirtækjum borgarinnar. Almennt standast kostnaðaráætlanir byggingadeildar mjög vel og mál eins og hér eru til umfjöllunar heyra sem betur fer til undantekninga. Þær undantekningar virðast allar tengjast viðamikilli endurbyggingu eldri mannvirkja eða byggingu nýrra sem eru flókin í hönnun og framkvæmd. Má í því sambandi nefna Ráðhúsið, en kostnaður við það fór um 1.000 mkr. fram úr áætlun, Perluna, en kostnaður við hana fór um 500 mkr. fram úr því sem var áætlaður heildarkostnaður þegar húsið var opnað, Iðnó, sem fór á fyrstu stigum verulega fram úr þeim hugmyndum sem menn höfðu um kostnaðinn, og á lokasprettinum 36 mkr. fram úr þeirri kostnaðaráætlun sem gerð var 1997, og nú Hafnarhús og Kringla. Í þeirri vinnu sem framundan er, er mikilvægt að hafa öll þessi dæmi til hliðsjónar og draga af þeim lærdóma þannig að koma megi í veg fyrir að borgaryfirvöld standi andspænis slíkum hækkunum sem gerðum hlut.

28. Lagt fram að nýju bréf borgarverkfræðings frá 5. þ.m. f.h. samvinnunefndar um svæðisskipulag fyrir höfuðborgarsvæðið, um varanlega samvinnunefnd um svæðisskipulag fyrir höfuðborgarsvæðið. Frestað.

29. Lagt fram að nýju bréf borgarverkfræðings frá 5. þ.m. f.h. samvinnunefndar um svæðisskipulag fyrir höfuðborgarsvæðið, um samstarfsvettvang sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu við ríki og atvinnulíf. Frestað.

30. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarverkfræðings frá 12. þ.m., sbr. samþykkt samgöngunefndar s.d. um umferðarskipulag vegna færslu Hringbrautar og framkvæmdaáfanga frá Þorfinnstjörn að Rauðarárstíg. Samþykkt.

31. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarritara yfir styrkumsóknir, dags. 12. þ.m.. Samþykkt að vísa umsókn áfangaheimilis Krossgatna til félagsmálaráðs, umsókn Engjaskóla til fræðsluráðs, umsókn íshokkídeildar Skautafélags Reykjavíkur til íþrótta- og tómstundaráðs og umsókn Tónlistarskólans í Reykjavík til styrkjameðferðar borgarráðs.

32. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarverkfræðings frá 9. þ.m., þar sem lagt er til að borgarráð afturkalli úthlutun lóðar nr. 8 við Fossaleyni. Frestað.

33. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarverkfræðings frá 7. þ.m., um aðilaskipti að lóðinni 35-37 (stök nr.) við Naustabryggju. Samþykkt.

34. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar frá 1. þ.m. ásamt yfirliti yfir ákvæði laga um kosningar til sveitarstjórna nr. 5/1998 sem ekki verður byggt á við atkvæðagreiðslu um Reykjavíkurflugvöll. Samþykkt.

35. Lagt fram bréf fulltrúa borgarstjórnar, dags. í dag, um leiðréttingar á kjörskrá. Samþykkt.

36. Lagt fram bréf framkvæmdastjóra miðborgar frá 12. þ.m. um hugmynd að hljómsveitarpalli og veitingahúsi í Hljómskálagarðinum. Vísað til skipulags- og byggingarnefndar.

37. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram svohljóðandi fyrirspurn:

Á fundi borgarráðs 12. desember sl. samþykkti meirihluti borgarráðs í öllum meginatriðum tillögur sérfræðihóps vegna atkvæðagreiðslu um framtíðarnýtingu Vatnsmýrar og staðsetningu Reykjavíkurflugvallar. Þar var m.a. samþykkt að samhliða atkvæðagreiðslunni yrði efnt til skoðanakönnunar meðal annarra landsmanna til að fá fram sjónarmið landsbyggðarfólks og íbúa annarra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Úrtak 5 – 10 þúsund manna yrði spurt í síma. Samþykkt var að niðurstöður þessarar skoðanakönnunar og atkvæðagreiðslunnar yrðu birtar samtímis.

Því er spurt: Hvað líður gerð skoðunarkönnunarinnar, hvað er úrtakið stórt og með hvaða hætti hyggst borgarstjóri láta meta niðurstöður hennar inn í niðurstöður atkvæðagreiðslunnar?

38. Júlíus Vífill Ingvarsson lagði fram svohljóðandi tillögu:

Brýnt er að leitað sé utanaðkomandi ráðgjafar á sviði fjármálastjórnar fyrir Reykjavíkurborg. Borgarráð felur fjármálastjóra borgarinnar og borgarendurskoðanda að leggja fyrir borgarráð nauðsynlegar upplýsingar varðandi ráðgjafarfyrirtæki sem til greina geta komið ásamt tillögu að því með hvaða hætti sé heppilegast að standa að ráðningu. Skoðað verði einnig hvort erlend ráðgjafarfyrirtæki sem sérhæfa sig í fjármálum sveitarfélaga geti nýst borginni að þessu leiti. Höfuðáherslu ber að leggja á að vinna með ráðgjöfunum úr þeim mikla vanda sem skuldasöfnun undanfarinna ára hefur komið Reykjavíkurborg í og gera áætlun um stöðvun skuldasöfnunar og niðurgreiðslu skulda. Fjármálastjóri og borgarendurskoðandi leggi tillögur sínar fyrir borgarráð fyrir lok aprílmánaðar.

Frestað.

39. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram eftirfarandi:

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óska eftir að borgarlögmaður athugi hvort forval arkitektastofa í tengslum við skipulag Halla- og Hamrahlíðarlanda brjóti í bága við stjórnsýslulög.

40. Afgreidd 30 útsvarsmál.

Fundi slitið kl. 15.25.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir

Hrannar Björn Arnarsson Inga Jóna Þórðardóttir
Steinunn Valdís Óskarsdóttir Júlíus Vífill Ingvarsson
Helgi Hjörvar Jóna Gróa Sigurðardóttir