Borgarráð
Ár 2000, þriðjudaginn 21. nóvember, var haldinn 4660. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 12.00. Viðstaddir voru, auk borgarstjóra, Hrannar Björn Arnarsson, Inga Jóna Þórðardóttir, Júlíus Vífill Ingvarsson, Sigrún Magnúsdóttir, Steinunn Valdís Óskarsdóttir og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson. Fundarritari var Gunnar Eydal.
Þetta gerðist:
1. Lögð fram fundargerð Bláfjallanefndar frá 15. nóvember.
2. Lögð fram fundargerð íþrótta- og tómstundaráðs frá 17. nóvember.
3. Lögð fram fundargerð miðborgarstjórnar frá 13. nóvember.
4. Lögð fram fundargerð samstarfsráðs Kjalarness frá 16. nóvember.
5. Lögð fram fundargerð skipulags- og byggingarnefndar frá 15. nóvember.
6. Lögð fram fundargerð stjórnar Innkaupastofnunar frá 20. nóvember.
7. Lögð fram fundargerð stjórnar Vinnuskólans frá 9. nóvember.
8. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa til borgarráðs, alls 4 mál.
9. Lagt fram bréf forstjóra Innkaupastofnunar frá 20. þ.m. um tilboð í gatnagerð og lagnir 6. áfanga í Grafarholti. Samþykkt að taka tilboði lægstbjóðanda, Jarðvéla sf.
10. Lagt fram bréf forstjóra Innkaupastofnunar frá 20. þ.m. varðandi gerð samnings við Sveinbjörn Sigurðsson ehf. um fullnaðarfrágang Víkurskóla. Samþykkt.
11. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 15. þ.m., sbr. samþykkt skipulags- og byggingarnefndar s.d. um breytingu á deiliskipulagi vegna Borgartúns 20. Samþykkt.
12. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 15. þ.m., sbr. samþykkt skipulags- og byggingarnefndar s.d. um auglýsingu breytingar á aðalskipulagi vegna Dalbrautar 14. Samþykkt.
13. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 15. þ.m., sbr. samþykkt skipulags- og byggingarnefndar s.d. um breytingu á aðalskipulagi við Grafarlæk, Stekkjarmóa og Djúpadal. Samþykkt.
14. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 15. þ.m., sbr. samþykkt skipulags- og byggingarnefndar s.d. um auglýsingu á breytingu á deiliskipulagi við Grafarlæk, Stekkjarmóa og Djúpadal. Samþykkt.
15. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 15. þ.m., sbr. samþykkt skipulags- og byggingarnefndar s.d. um auglýsingu breytingar á aðalskipulagi lóðar nr. 1-3 og 5 við Kirkjustétt.
- Kl. 13.00 vék Sigrún Magnúsdóttir af fundi og Helgi Hjörvar tók þar sæti.
Borgarráð samþykkir erindið.
16. Lögð fram umsögn framtalsnefndar frá 17. þ.m. um tillögu stjórnkerfisnefndar varðandi athugun á meðferð útsvarsmála, sbr. bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar frá 12. september s.l.
17. Lagt fram bréf borgarlögmanns frá 20. þ.m., þar sem lagt er til að forkaupsrétti að spildu í landi Skrauthóla á Kjalarnesi verði hafnað. Samþykkt.
18. Lagt fram bréf skrifstofustjóra Heilbrigðiseftirlits frá 16. f.m., sbr. samþykkt umhverfis- og heilbrigðisnefndar 12. s.m. um nýja gjaldskrá fyrir mengunar- og heilbrigðiseftirlit. Jafnframt lögð fram umsögn hollustuháttaráðs frá 16. þ.m. um gjaldskrána. Frestað.
19. Lagt fram endurrit úr dómi Hæstaréttar í máli nr. 151/2000, Reykjavíkurborg gegn Pétri I. Hraunfjörð.
20. Lagt fram endurrit úr dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli E-7604/1999, Kristján Grétar Tryggvason gegn Reykjavíkurborg.
21. Lögð fram tillaga Vegagerðarinnar og borgarverkfræðings að matsáætlun 1. áfanga Sundabrautar.
22. Lagt fram bréf slökkviliðsstjóra frá 27. f.m. ásamt starfsáætlun Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins 2001.
23. Lagt fram að nýju bréf borgarlögmanns frá 13. f.m. varðandi staðsetningu auglýsingaskiltis við Vesturlandsveg. Borgarráð gerir ekki athugasemdir við að Golfklúbbur Reykjavíkur setji upp umrætt skilti við Vesturlandsveg en felur skipulags- og byggingarnefnd að skoða staðsetningu þess.
24. Lagt fram að nýju bréf félagsmálastjóra frá 26. f.m., sbr. samþykkt félagsmálaráðs 25. s.m. um framtíð Húsnæðisskrifstofu Reykjavíkur. Samþykkt með 4 atkv. gegn 3.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram svohljóðandi bókun:
Við gagnrýnum harðlega vinnubrögð R-listans í þessu máli. Engar hugmyndir eða tillögur liggja fyrir um með hvaða hætti húsnæðismálum verði komið fyrir hjá Félagsþjónustunni eða öðrum. Áður en ákvörðun er tekin um að leggja niður Húsnæðisskrifstofu Reykjavíkur er eðlilegt að kynntir verði kostir þess og gallar. Hér er illa að verki staðið og í raun verið að byrja á öfugum enda. Nær hefði verið að fela undirnefnd félagsmálaráðs um húsnæðismál að fjalla um málið og koma með tillögur til ráðsins, en þess í stað er sú nefnd algjörlega hundsuð. Lítið sem ekkert samráð hefur verið haft við starfsfólk vegna fyrirhugaðra breytinga og við sameiningu félagsmálaráðs og húsnæðisnefndar var samþykkt að skrifstofa húsnæðisnefndar yrði eftirleiðis hluti Félagsþjónustunnar í Reykjavík. Samþykkt þessi sýnir að R-listinn fylgir þeirri stefnu að gera fyrst og spyrja svo.
Borgarráðsfulltrúar Reykjavíkurlistans lögðu fram svohljóðandi bókun:
Miklar breytingar hafa orðið á félagslega húsnæðiskerfinu á síðastliðnum árum og verkefni Húsnæðisskrifstofu minnkað verulega af þeim sökum. Á öllum sviðum borgarrekstursins er unnið að einföldun stjórnkerfisins og hagræðingu í rekstri. Það kemur ekki á óvart að sjálfstæðismenn leggist gegn tillögunni í þá veru.
25. Lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks um kaup á víkingaskipinu Íslendingi, sbr. 33. lið fundargerðar borgarráðs frá 7. þ.m.
Borgarráðsfulltrúar Reykjavíkurlistans lögðu fram svohljóðandi frávísunartillögu:
Komið hefur fram í umræðum á Alþingi og í máli ráðherra í ríkisstjórn greinilegur áhugi á því að ríkið eignist víkingaskipið Íslending sem gert var út til Vesturheims á árinu og gegnt hefur stóru hlutverki í tilefni þess að landafunda hefur verið minnst á árinu 2000. Borgarráð telur því eðlilegt að ríkið hafi forgöngu í málinu en lýsir sig reiðubúið til samstarfs verði þess óskað. Borgarráð telur ekki ástæðu til að leita eftir kaupum á skipinu að svo stöddu og samþykkir að vísa tillögunni frá.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Frávísunartillagan samþykkt með 4 atkv. gegn 3.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óskuðu bókað:
Með frávísunartillögu sinni hefur R-listinn hafnað tillögu sem felur í sér aukin tækifæri fyrir ferðaþjónustu í Reykjavík. Það á að vera metnaðarmál fyrir borgina að koma hér á laggirnar veglegu sjóminja- og víkingasafni. Með hliðsjón af umræðum á Alþingi hefði verið eðlilegra að borgin hefði frumkvæði í málinu og leitaði eftir viðræðum og samstarfi við þá sem áhuga hafa á að víkingaskipið Íslendingur verði staðsett hér í Reykjavík. Hins vegar er ljóst af tillögu R-listans að hann er tilbúinn að koma síðar að málinu, þó að hann víki sér undan að hafa forgöngu í því.
26. Afgreidd 32 útsvarsmál.
Fundi slitið kl. 14.50.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir
Inga Jóna Þórðardóttir Steinunn Valdís Óskarsdóttir
Júlíus Vífill Ingvarsson Hrannar Björn Arnarsson
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson Helgi Hjörvar