Borgarráð - Fundur nr. 4650

Borgarráð

Ár 2000, þriðjudaginn 10. október, var haldinn 4650. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 12.00. Viðstaddir voru, auk borgarstjóra, Hrannar Björn Arnarsson, Inga Jóna Þórðardóttir, Júlíus Vífill Ingvarsson, Sigrún Magnúsdóttir, Steinunn Valdís Óskarsdóttir og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson. Fundarritari var Gunnar Eydal.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram fundargerð Bláfjallanefndar frá 5. október.

2. Lögð fram fundargerð hafnarstjórnar frá 9. október.

3. Lögð fram fundargerð íþrótta- og tómstundaráðs frá 6. október.

4. Lögð fram fundargerð leikskólaráðs frá 4. október.

5. Lögð fram fundargerð miðborgarstjórnar frá 9. október.

6. Lögð fram fundargerð samstarfsráðs Kjalarness frá 5. október.

7. Lögð fram fundargerð skipulags- og byggingarnefndar frá 4. október.

8. Lögð fram fundargerð stjórnar Innkaupastofnunar frá 9. október.

9. Lögð fram fundargerð stjórnar SVR frá 2. október.

10. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar um embættisafgreiðslur erindis sem borist hefur borgarráði.

11. Lagt fram bréf forstjóra Innkaupastofnunar frá 9. þ.m. um afsláttarboð í símaþjónustu fyrir Reykjavíkurborg. Samþykkt að gera rammasamning við Íslandssíma h.f. á grundvelli tilboðs hans.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óskuðu bókað:

Við leggjum áherslu á að lokið verði hið fyrsta við gerð útboðsgagna vegna útboðs á síma-, fjarskipta- og gagnaflutningaþjónustu, sbr. samþykkt stjórnar Innkaupastofnunar 14. ágúst s.l., þannig að hægt verði fljótlega á næsta ári að bjóða út þessi viðskipti borgarinnar. Rammasamningur sem hér liggur fyrir er því báðabirgðaráðstöfun þar til formlegt útboð fer fram.

12. Lagt fram bréf borgarlögmanns, dags. í dag, varðandi tilboð í fasteignina Þingholtsstræti 29A. Samþykkt að taka tilboði hæstbjóðanda, Guðjóns Más Guðjónssonar.

13. Lagt fram bréf forstöðumanns byggingadeildar og móttökufulltrúa frá 5. þ.m. varðandi minnismerki um leiðtogafundinn í Höfða 1986. Samþykkt.

- Kl. 13.40 vék borgarstjóri af fundi og Helgi Hjörvar tók þar sæti.

14. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 6. þ.m., sbr. samþykkt skipulags- og byggingarnefnd 4. s.m. varðandi drög að stefnu íbúðarsvæðis þróunaráætlunar miðborgar. Jafnframt lögð fram drög, dags. í dag.

Steinunn Valdís Óskarsdóttir lagði fram svohljóðandi breytingartillögu:

Liður 3, bls. 1, í kaflanum "Stefnumarkandi ákvarðanir", hljóði svo:

Ekki verður veitt heimild til uppbyggingar sem skaðar verulega gæði borgarumhverfis, svo sem að því er varðar yfirbragð svæðisins, nábýli og trjágróður (gróðurreiti). Ennfremur verði við mat á tillögum til uppbyggingar skoðaðir þættir eins og hætta á aukinni umferð og auknum hávaða eða loftmengun.

Breytingartillagan samþykkt. Borgarráð samþykkir tillöguna svo breytta.

15. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 6. þ.m., sbr. samþykkt skipulags- og byggingarnefndar 4. s.m. varðandi lóðarstækkun að Frostaskjóli 35. Borgarráð samþykkir afgreiðslu nefndarinnar og er erindinu því synjað.

16. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 6. þ.m., sbr. samþykkt skipulags- og byggingarnefndar 4. s.m. varðandi breytingu á deiliskipulagi á reit afmörkuðum af Njálsgötu, Grettisgötu, Barónsstíg og Vitastíg og tillögu að nýbyggingu við Njálsgötu 55 og 57. Borgarráð samþykkir afgreiðslu nefndarinnar og er erindinu því synjað.

17. Lagt fram bréf Borgarskipulags, dags. í dag, ásamt drögum að hafnarsvæði miðborgarsvæðis varðandi þróunaráætlun, dags. s.d. Jafnframt lagður fram 7. liður fundargerðar hafnarstjórnar frá 9. þ.m., sbr. afgreiðslu hafnarstjórnar á umsögn hafnarstjóra um þróunaráætlun, dags. s.d. Vísað til umsagnar borgarlögmanns.

18. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 6. þ.m., sbr. samþykkt skipulags- og byggingarnefndar 4. s.m. um aðal- og deiliskipulag, breytingu vegna Reykjanesbrautar. Samþykkt. Niðurstaða viðræðna við Olís verði kynnt í borgarráði að þeim loknum.

19. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 6. þ.m., sbr. samþykkt skipulags- og byggingarnefndar 4. s.m. um breytingu á deiliskipulagi vegna Einarsness 44A. Samþykkt.

20. Lagt fram bréf fjármálastjóra frá 9. þ.m. varðandi tölvumál í grunnskólum.

21. Lagt fram bréf fulltrúa borgarlögmanns frá 6. þ.m. varðandi kaup á Smálandabraut 15. Samþykkt.

22. Lögð fram tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks, sbr. 21. lið fundargerðar borgarráðs frá 3. þ.m.

Borgarráðsfulltrúar Reykjavíkurlistans lögðu fram svohljóðandi breytingartillögu:

Tillagan hljóði svo:

Ljóst er að gatnakerfi borgarinnar annar ekki þeim mikla umferðarþunga sem er á álagstímum. Mikið ófremdarástand hefur því skapast af þeim sökum og má búast við að ástandið versni enn þegar kemur fram á vetur. Mikilvægt er að borgaryfirvöld leiti allra leiða til að tryggja öruggari og greiðari umferð fólks um borgina og ríkið tryggi þau fjárframlög sem ætluð voru á vegáætlun til framkvæmda við stofnbrautir í Reykjavík en skeri þau ekki niður við afgreiðslu fjárlaga, eins og gert hefur verið undanfarin ár og áformað er í fjárlögum næsta árs. Borgarráð samþykkir að beina þeirri áskorun til þingmanna Reykjavíkur að þeir standi vörð um hagsmuni höfuðborgarinnar þegar kemur að afgreiðslu fjárlaga. Jafnframt samþykkir borgarráð að leita eftir samstarfi við skóla, stofnanir og fyrirtæki í borginni til að kanna hvernig betur megi dreifa umferðarálagi á háannatímum. Samgöngunefnd borgarinnar verði falið að vinna að málinu í samvinnu við þær stofnanir sem hlut eiga að máli.

Breytingartillagan samþykkt með 4 samhljóða atkvæðum.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óskuðu bókað:

Með tillöguflutningi sínum er vinstri meirihlutinn í borgarráði að drepa málinu á dreif. Kjarni tillögu okkar er að bregðast við þeim vandamálum sem blasa við borgarbúum í dag og tryggja öruggari og greiðari umferð fólks um borgina. Það verði gert með víðtæku samráði og samstarfi allra þ.m.t. fyrirtækjanna í borginni, skólanna og stofnana með það að markmiði að dreifa umferðarálagi á háannatímum. Við tökum undir nauðsyn þess að fjárveitingar verði tryggðar til brýnna samgönguframkvæmda á höfuðborgarsvæðinu. Það er jafnframt brýnt að benda á hversu dýrkeypt skipulagsmistök R-listans um að falla frá mislægum gatnamótum á mótum Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar eru þegar orðin Reykvíkingum.

Borgarráðsfulltrúar Reykjavíkurlistans óskuðu bókað:

Breytingartillaga Reykjavíkurlistans breytir í engu þeim áherslum að skoðaðar verði leiðir til að dreifa umferðarálagi í borginni. Það er því furðulegt að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í borgarráði hlaupist á brott frá tillögu sinni þegar við hana er bætt því atriði sem helst ógnar umferðaröryggi í borginni, nefnilega ítrekaður niðurskurður ráðherra Sjálfstæðsflokks á vegafé til höfuðborgarsvæðisins. Sú afstaða opinberar með skýrum hætti þá sýndarmennsku sem í tillöguflutningi Sjálfstæðisflokksins felst.

23. Lagt fram bréf forstjóra SVR frá 9. þ.m., sbr. umsögn stjórnar SVR 2. s.m. um samþykkt fyrir samgöngunefnd, dags. 12. f.m.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram svohljóðandi breytingartillögu:

1. Lagt er til að ferðamál verði verkefni menningarmálanefndar í stað samgöngunefndar. 2. Lagt er til að borgarráð kjósi 3ja manna rekstrarstjórn SVR sem hafi með höndum allan almennan rekstur SVR. Samgöngunefnd sinni öðrum þáttum í starfsemi SVR en almennum rekstri m.a. í stefnumótun almenningssamgangna.

Borgarráðsfulltrúar Reykjavíkurlistans lögðu fram svohljóðandi frávísunartillögu:

Tillögur borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins ganga þvert á meginhugsun stjórnkerfisbreytinga varðandi samgöngunefnd og er því vísað frá.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óskuðu bókað:

Það er algjör misskilningur borgarráðsfulltrúa Reykjavíkurlistans að breytingatillögur okkar gangi þvert á meginhugsun nýrrar samgöngunefndar. Þær miklu fremur afmarka betur verkefni nefndarinnar og gera hana hæfari til að takast á við verkefni í samgöngu- og ferðamálum.

Málinu vísað til borgarstjórnar.

- Kl. 14.40 vék Inga Jóna Þórðardóttir af fundi.

24. Rætt um umferð um Langarima.

25. Lagt fram bréf gatnamálastjóra frá 9. þ.m. varðandi endurbætur á Njarðargötu og flutning götustæðis. Samþykkt.

26. Lagt fram bréf framkvæmdastjóra þróunar- og fjölskyldusviðs frá 9. þ.m. varðandi fyrirheit um byggingarstyrk til Landakotsskóla. Samþykkt.

27. Lagt fram bréf borgarstjóra frá 9. þ.m. varðandi breytingar á fjárhagsrömmum fyrir árið 2001, sbr. 20. lið fundargerðar borgarráðs frá 30. maí s.l. Frestað.

- Kl. 15.40 vék Helgi Hjörvar af fundi og Helgi Pétursson tók þar sæti.

28. Lagt fram yfirlit um fjárhagsáætlunarferlið og leikreglur við gerð fjárhagsáætlunar, dags. í dag. Frestað.

29. Rætt um fjárhagsáætlun 2001.

- Kl. 16.00 tók Helgi Hjörvar sæti á fundinum og Helgi Pétursson vék af fundi. - Kl. 16.20 vék Steinunn Valdís Óskarsdóttir af fundi og Helgi Pétursson tók þar sæti að nýju.

30. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram svohljóðandi fyrirspurn:

Óskað er eftir að lagðar verði fram í borgarráði upplýsingar frá Leikskólum Reykjavíkur þar sem fram komi:

1. Hversu mörg börn eru nú á biðlistum leikskólanna? 2. Hversu marga starfsmenn vantar nú til starfa á leikskólum borgarinnar? 3. Hversu mörg pláss eru nú vannýtt á leikskólunum og hvernig er sú skipting eftir hverfum borgarinnar?

31. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram svohljóðandi fyrirspurn:

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lýsa yfir undrun á vinnubrögðum borgaryfirvalda gagnvart Skotfélagi Reykjavíkur. Á undanförnum árum hefur þetta fjölmenna íþróttafélag í Reykjavík leitað árangurslaust til borgaryfirvalda um nýtt æfingasvæði, eftir að ljóst var að Grafarholtið yrði tekið fyrir byggingarsvæði. Nú liggur fyrir að Skotfélagið verður að fjarlægja hús og önnur mannvirki af æfingasvæðinu í Leirdal án þess að fyrir liggi hvert félagið geti farið með þau hús. Hyggst borgarstjóri beita sér nú þegar fyrir lausn þessa aðkallandi vanda Skotfélags Reykjavíkur?

Fundi slitið kl. 16.55.

Sigrún Magnúsdóttir

Júlíus Vífill Ingvarsson Helgi Hjörvar

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson Hrannar Björn Arnarsson