Borgarráð - Fudnur nr. 5162

Borgarráð

B O R G A R R Á Ð

Ár 2011, mánudaginn 18. apríl, var haldinn 5162. fundur s. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 10.10. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Dagur B. Eggertsson, Elsa Hrafnhildur Yeoman, Hanna Birna Kristjánsdóttir, Júlíus Vífill Ingvarsson, Oddný Sturludóttir, Óttarr Ólafur Proppé og Sóley Tómasdóttir.
Fundarritari var Örn Sigurðsson.

Þetta gerðist:

1. Lagt fram að nýju bréf borgarstjóra frá 13. þ.m. ásamt tillögum vinnuhóps um atvinnumál ungs fólks varðandi sumarstörf. R11030004
Vísað til umsagnar fjármálaskrifstofu.

2. Lögð fram skýrsla starfshóps um greiningu tækifæra til samreksturs og/eða sameiningar leikskóla, gunnskóla og frístundaheimila, dags. í febrúar, auk umsagna meirihluta menntaráðs og íþrótta- og tómstundaráðs, dags. 13. þ.m.

Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 14. þ.m.:

Borgarráð samþykkir eftirfarandi tillögur um samrekstur og/eða sameiningar leikskóla, grunnskóla og yfirstjórna skóla og frístundaheimila með vísan til fyrirliggjandi gagna, meðal annars tillagna starfshóps frá febrúar 2011 og á grundvelli úrvinnslu og umsagna menntaráðs og ÍTR:
1. Lagt er til að skoðað verði með heildrænum hætti leik- og grunnskólastarf, svo og frístunda- og félagsstarf barna og unglinga í 111 Reykjavík. Lagt er til að í umboði borgarstjóra verði skipaður starfshópur fulltrúa foreldra og fulltrúa starfsfólks leikskóla, grunnskóla og ÍTR, þjónustumiðstöðvar Breiðholts, Leiknis, Gerðubergs og annarra hagsmunaaðila. Starfshópurinn leiti leiða til að auka samstarf í efra-Breiðholti í skóla- og frístundastarfi, til að efla félagslegan jöfnuð, árangur, vellíðan og þátttöku barna og unglinga í frístunda- og menningarstarfi. Horfið verður frá aldursskiptingu Hólabrekku- og Fellaskóla og sameiningu Hraunborgar og Aspar og Suðurborgar og Hólaborgar, a.m.k. að sinni. Starfshópurinn taki strax til starfa og skili tillögum til borgarstjóra eigi síðar en 1. apríl 2012. Verkefnið verði tengt átaksverkefninu ,,111 Reykjavík“ sem var hleypt af stokkunum í upphafi kjörtímabilsins.
2. Lagt er til að sameina grunnskólann Ártúnsskóla, leikskólann Kvarnaborg og frístundaheimilið Skólasel. Sameiningin komi til framkvæmda 1. janúar 2012 og leitað verði eftir samstarfi við menntavísindasvið Háskóla Íslands um ráðgjöf og stuðning við innleiðingu breytinganna. Horft verði til framkvæmdarinnar sem tilraunaverkefnis og af því dreginn lærdómur fyrir frekari skólaþróun á næstu árum. Við undirbúning sameiningar verði haft samráð við foreldra, nemendur og starfsfólk.
3. Lagt er til að frestað verði til ársins 2013 að sameina Fossvogsskóla, Kvistaborg og frístundaheimilið Neðstaland og litið verði til reynslu Dalskóla og samreksturs Ártúnsskóla, Kvarnaborgar og Skólasels sem fyrirmyndar.
4. Lagt er til að menntasviði verði falið að koma á samráði við stjórnendur og starfsmenn grunnskólanna í Vesturbæ auk skólaráða og foreldraráða (skólasamfélagið) og koma með tillögur að breytingum á skólastarfi í Vesturbæjar-, Mela-, Granda- og Hagaskóla. Markmiðið er að finna leiðir til að komast hjá því að byggja við þá skóla sem senn komast í húsnæðisþröng vegna nemendafjölgunar. Starfshópur taki til starfa strax og skili tillögum til borgarstjóra eigi síðar en 1. desember 2011.
5. Lagt er til að sameina yfirstjórn Korpuskóla og Víkurskóla 1. janúar 2012. Nemendur í 8.–10. bekk úr Staðahverfi sæki áfram nám í Víkurskóla. Við undirbúning breytinga verði haft samráð við foreldra, nemendur og starfsfólk.
6. Lagt er til að sameina yfirstjórn Borgaskóla og Engjaskóla 1. janúar 2012. Skólastjórnendum verði falið að vinna að auknu samstarfi og/eða sameiningu unglingadeilda skólanna. Stefnumótandi ákvörðun komi til framkvæmda fyrir upphaf skólaársins 2012-2013. Við undirbúning breytinga verði haft samráð við foreldra, nemendur og starfsfólk.
7. Lagt er til að sameina yfirstjórn Álftamýrarskóla og Hvassaleitisskóla 1. janúar 2012. Nýjum skólastjórnendum verði falið að vinna að flutningi nemenda á unglingastigi fyrir skólaárið 2012-2013 sem gætu valið um skólavist í Réttarholtsskóla eða Álftamýrarskóla. Við undirbúning breytinga verði haft samráð við foreldra, nemendur og starfsfólk.
8. Lagt er til að Foldaskóli verði heildstæður safnskóli á unglingastigi fyrir nemendur úr Húsaskóla og Hamraskóla. Unnið verði að undirbúningi breytinganna allt næsta skólaár með þátttöku foreldra og starfsfólks og breytingin komi til framkvæmda skólaárið 2012-2013. Samhliða þessum breytingum er lagt til að rekstur Húsaskóla og Hamraskóla verði skoðaður með tilliti til betri nýtingar á húsnæði og hugsanlegrar sameiningar í stjórnun eða sameininga við leikskóla í nágrenninu.
9. Lagt er til að sameina yfirstjórn í neðangreindum leikskólum frá 1. júlí 2011. Lagt er til að þar sem þrír leikskólar verði sameinaðir undir einni stjórn verði stjórnunarhlutfall aukið svo að aðstoðarleikskólastjórar verði tveir á fyrsta starfsári sameinaðs skóla. Lögð verði áhersla á að foreldrar og starfsfólk séu virkir þátttakendur í innleiðingarferli nýrra sameinaðra leikskóla.

Drafnarborg og Dvergasteinn
Barónsborg, Lindarborg og Njálsborg
Hamraborg og Sólbakki
Hlíðaborg og Sólhlíð
Holtaborg og Sunnuborg
Hlíðarendi og Ásborg
Laugaborg og Lækjaborg
Furuborg og Skógarborg
Arnarborg og Fálkaborg
Hálsaborg og Hálsakot
Foldaborg, Foldakot og Funaborg
10. Lagt er til að haustið 2011 verði skóla- og frístundastarf 6-9 ára barna samþætt í einu þjónustuhverfi og jafnframt því undirbúin sameining yfirstjórnar skóla og frístundastarfs í borginni allri.

Samþykkt með 4 atkvæðum gegn 3. Vísað til borgarstjórnar.

Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 14. þ.m.:

Borgarráð samþykkir að hefja undirbúning að sameiningu leikskólasviðs og menntasviðs. Ennfremur verði þau verkefni sem nú eru á skrifstofu tómstundamála á íþrótta- og tómstundasviði hluti af sameinuðu sviði. Verkefnin eru meðal annars umsjón með frístundamiðstöðvum, frístundaheimilum, félagsmiðstöðvum og öðru tómstundastarfi barna og ungmenna. Stofnað verði nýtt skóla- og frístundasvið. Stöður sviðsstjóra menntasviðs og leikskólasviðs verði lagðar niður og staða sviðsstjóra sameinaðs sviðs auglýst laus til umsóknar. Borgarstjóra verði falið að skila tillögu að sameiningu ásamt umsögn stjórnkerfisnefndar í byrjun maí en stefnt er að því að nýr sviðsstjóri taki til starfa eigi síðar en 1. júlí næstkomandi.

Greinargerð fylgir tillögunni.
Samþykkt með 4 atkvæðum gegn 3. Vísað til borgarstjórnar. R11010176

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:

Meirihluti Besta flokks og Samfylkingar hefur ítrekað gengið fram af borgarbúum með vinnubrögðum sínum og málflutningi í tengslum við sameiningar leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila. Samráð hefur ekki verið viðhaft, ekki hefur verið hlustað á varnarorð eða tillögur fagfólks og upplýsingaflæði hefur verið allt of lítið. Rökstuðningur fyrir endanlegri niðurstöðu er afar rýr, hvort sem litið er til faglegra eða fjárhagslegra áhrifa og tillögurnar allar til marks um þekkingar- og skilningsleysi á eðli og mikilvægi þeirra starfa sem unnin eru á sviðunum. Ljóst er að faglegur ávinningur af sameiningunum verður enginn. Leikskólar verða færri og einsleitari, stjórnun þeirra mun taka miklum breytingum og miða meira að rekstri en vellíðan og menntun barnanna. Gassagangurinn er mestur gagnvart þeim og mun öll starfsemin augljóslega líða fyrir það. Leikskólastjórar gegna mikilvægu hlutverki gagnvart börnum, foreldrum og starfsfólki sem verður ekki leyst jafn vel af hendi eftir breytingar. Þó grunnskólarnir fái ögn lengri tíma mun heilmikið rask verða á starfsemi þeirra með tilheyrandi áhrifum á menntun og líðan barnanna í viðkomandi skólum. Hugmyndafræði frístundaheimilanna á svo að kollvarpa án þess að fyrir liggi ný stefnumörkun eða hugmyndir um með hvaða hætti starfið verði unnið. Allar breytingarnar eru gerðar í óþökk starfsfólks borgarinnar, stéttarfélögin hafa gagnrýnt ferlið og áformin harðlega og allar umsagnir frá sérfræðingum eru neikvæðar. Reynsla og rannsóknir sýna að breytingar við slíkar aðstæður eru dæmdar til að mistakast, starfið verður ómarkvissara og kostnaðurinn meiri. Enn hefur ekki öllum spurningum verið svarað um meint fjárhagslegt hagræði, þrátt fyrir margítrekaðar spurningar um forsendur útreikninganna og útskýringar á þeim. Þetta á sérstaklega við um frístundaheimilin, þar sem virðist eiga að leggja niður störf án þess að aðrir geti tekið við verkefnunum. Það er ábyrgðarhluti að samþykkja svo umfangsmiklar tillögur án þess að öll þessi gögn liggi fyrir, þó það virðist ekki vefjast fyrir meirihluta menntaráðs og íþrótta- og tómstundaráðs. Þær breytingar sem nú eru í farvatninu eru allar hugsaðar á forsendum menntasviðs. Lítil sem engin umræða hefur verið um málið í íþrótta- og tómstundaráði allt fram undir það síðasta, og fulltrúar meirihlutans í því ráði hafa ekki haldið mikilvægi starfseminnar á lofti. Þó sérfræðingar hafi verið kallaðir inn í íþrótta- og tómstundaráð hafði það engin áhrif, umsögn meirihlutans var samþykkt óbreytt á sama fundi. Í þau skipti sem málið hefur verið til umfjöllunar í borgarráði hefur formaður menntaráðs kynnt málið ein og talað ein fyrir tillögum og umsögnum menntaráðs. Vinstri græn hafa ítrekað lagt til að hætt verði við sameiningarnar. Hagræðing í rekstri borgarinnar verður að hefjast á toppnum og því ættu miðlægar stjórnkerfisbreytingar að vera fyrsta skrefið. Því næst verður að skoða sameiningar- og hagræðingarmöguleika á þeim sviðum þar sem stjórnunarspönnin er mest og starfsemin á efnislegri nótum, en bíða í lengstu lög með að raska starfi í þágu uppeldis, menntunar og velferðar. Þessum tillögum hefur ítrekað verið hafnað. Og nú á að ganga enn lengra. Með vikufyrirvara ætlar borgarstjóri að þvinga í gegn tilflutning á 800 starfsmönnum borgarinnar milli sviða, án þess að tillagan hafi verið rædd í fagráðum eða stjórnkerfisnefnd, við starfsfólk eða fagfólk. Þessi vinnubrögð eru enn verri en þau sem áður hafa sést og til marks um fullkomna vanvirðingu fyrir stjórnkerfi borgarinnar, starfsfólki og því starfi sem unnið er. Ekkert virðist geta komið í veg fyrir að meirhlutinn þvingi í gegn vanhugsuaðar og handahófskenndar tillögur sínar, rökstuddar með sundurslitnum setningum úr umsögnum sérfræðinga sem allir gjalda miklum varhug við áformunum. Undirskriftir og virk mótmæli borgarbúa hafa ekkert að segja. Það er miður að velferð barnanna í borginni skuli þurfa að líða fyrir pólitískt stolt, einstrengingshátt og þröngsýni kjörinna fulltrúa. Borgarbúar eiga betra skilið.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óska bókað:

Þrátt fyrir að 12.000 íbúar hafi skorað á borgarstjórn, rúmlega 90#PR umsagna vegna málsins séu neikvæðar og ljóst sé að fjárhagslegur ávinningur sé alltof lítill miðað við áhættuna sem í tillögunum felst, hyggst meirihlutinn fullnaðarafgreiða tillögur um samrekstur í skólaumhverfi Reykjavíkur á fundi borgarstjórnar á morgun. Tillögur um sameiningu skóla, leikskóla og frístundaheimila hafa valdið miklu uppnámi í skóla- og frístundastarfi og meirihlutinn hefur frá upphafi staðið illa að málinu. Þetta kemur m.a. fram með ófaglegum vinnubrögðum, miklum flýti og litlu sem engu samráði við hagsmunaaðila. Að auki er hagræðing af sameiningu og samrekstri óljós en sannarlega undir einu prósenti af heildarútgjöldum þeirra þriggja sviða, sem tillögurnar fjalla um þegar þær verða að fullu komnar til framkvæmda. Búast má við að talsvert rask á skólastarfi verði þegar stofnanir verða sameinaðar og hætt við að tímabundið skapist órói og ótti vegna árekstra og átaka í sameiningu starfsumhverfis ólíkra starfsstétta. Engu að síður kýs meirihlutinn að fara fram með þetta mál í algjöru ósætti og ágreiningi. Þær breytingartillögur, sem meirihlutinn leggur nú fram, fela í flestum tilvikum í sér tímabundna frestun um hálft ár og eru einungis settar fram vegna tímahraks. Þeir stjórnendur grunnskóla, sem áttu að fá uppsögn frá og með 1. maí fá nú uppsögn með haustinu og því verður nýr stjórnandi að taka við á miðju skólaári. Erfitt er að skipta um stjórn skóla á miðju skólaári án þess að það bitni beint á starfi skólans og þar með þjónustu við börn. Í breytingartillögum meirihlutans er einnig mikill greinarmunur gerður á leikskólum og faglegu starfi þeirra miðað við röksemdafærslur í umsögn meirihlutans um að fresta tímabundið breytingum á grunnskólum vegna samráðs og samstarfs við fagaðila. Leikskólarnir bera hitann og þungann af hagræðingunni og í raun má segja að allir grunnskólarnir fái aðstoð og aukinn tíma til að aðlagast breytingum á meðan að svo er ekki um neinn leikskóla. Allar þessar tillögur eru því á ábyrgð meirihlutans og fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lýsa eindreginni andstöðu sinni við málið. Á lokametrum þessarar vinnu eru svo lagðar til umfangsmiklar breytingartillögur á yfirstjórn í málaflokkum er tengjast þjónustu við börn og ungmenni. Um það er ekki deilt að hagræðing í kerfinu eru nauðsynleg og fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa ítrekað bent á að á sama tíma og meirihlutinn sker niður í grunnþjónustu við borgarbúa, hækkar skatta og virðist fyrirmunað að ná nokkurri sátt um mikilvæga þætti í starfsemi borgarinnar, sé ekki gengið af festu og yfirsýn til þess að lækka kostnað við kerfið sjálft. Í Ráðhúsinu virðist sá vilji hins vegar ekki til staðar og sú staðreynd að stjórnkerfisnefnd, sem ábyrgð ber á tillögum og innleiðingu slíkra breytinga hefur ekki verið boðuð til fundar í tvo mánuði lýsir þessum vinnubrögðum vel. Þær tillögur sem borgarstjóri boðar nú eru því framlagðar án nokkurrar heildarhugsunar um það hvernig spara eigi og hvers vegna það er t.d. talið farsælt að sameina alla þjónustu vegna menntunar og frístundar barna og ungmenna í eitt svið, á meðan svið sem tengjast framkvæmdum, skipulagi og samgöngum og fleiru starfa enn samkvæmt óbreyttu skipulagi. Allar þessar tillögur eru vondar og vinnubrögðin einnig, en því miður verst fyrir borgarbúa. Aðför að þjónustu við börnin í borginni hefur staðið yfir frá því nýr meirhluti tók við og þær tillögur sem nú eru sendar til fullnaðarafgreiðslu staðfesta að sú aðför heldur áfram.

Borgarráðsfulltrúar Besta flokks og Samfylkingar óska bókað:

Besti flokkurinn og Samfylkingin telja aldrei nógu oft áréttað að á þriðja ári í hagræðingu er afar erfitt að skerða meira í skólastarfinu sjálfu með flötum niðurskurði. Því var farið í viðamikla greiningu á öllum möguleikum til hagræðingar með endurskipulagningu í stjórnun og betri nýtingu húsnæðis. Hagræðingin sem af breytingunum hlýst er afar mikilvæg til að betur verði hægt að hlífa skóla- og frístundastarfi á næstu árum sem verða eflaust líka strembin í rekstri borgarinnar. Breytingartillögur í skóla- og frístundastarfi taka mið af framkomnum ábendingum foreldra, starfsfólks og fagaðila þó ekki hafi verið unnt að koma til móts við allar óskir. Viðamikið undirbúningsferli hefur átt sér stað með þátttöku fjölmargra, ljóst var við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2011 að endurskipulagning í skóla- og frístundastarfi væri nauðsyn, nú þegar sveitarfélög hagræða þriðja árið í röð. Tillögurnar eru vandaðar og eru eðlileg og rétt viðbrögð við þröngum fjárhag borgarinnar og barnasprengju í Reykjavík. Vönduð innleiðingaráætlun fyrir sameiningar í yfirstjórnum skóla liggur fyrir og eftir henni verður unnið, nauðsynlegur stuðningur og ráðgjöf verða að sjálfsögðu til staðar. Lengi hefur verið í farvatninu að tengja betur saman stefnumótun skóla- og frístundamála í Reykjavík og stjórnkerfisbreytingar með fækkun sviða er eðlileg þróun á þjónustu við borgarbúa. Nú er samþykkt að hefja undirbúning að sameiningu leikskólasviðs og menntasviðs sem og tómstundahluta ÍTR. Það er forsenda samfellu í þjónustu við börn, ungmenni og fjölskyldur þeirra. Forgangsmál borgarstjórnar er að standa vörð um skóla- og frístundastarf í borginni og að ólíkar fagstéttir komi saman að menntun og þjónustu við börn og unglinga í Reykjavík. Áfram verður stjórnsýsla borgarinnar skoðuð með fækkun sviða og skrifstofa að leiðarljósi, það er mikilvægt að þróa þjónustu borgarinnar áfram í átt til skilvirkni og bestu hugsanlegu meðferð fjármuna.

Fundi slitið kl. 10.40

Dagur B. Eggertsson

Elsa Hrafnhildur Yeoman Hanna Birna Kristjánsdóttir
Júlíus Vífill Ingvarsson Oddný Sturludóttir
Óttarr Ólafur Proppé Sóley Tómasdóttir