Borgarráð - Fundur nr. 5783

Borgarráð

Ár 2025, fimmtudaginn 22. maí, var haldinn 5783. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:00. Viðstödd voru Líf Magneudóttir, Einar Þorsteinsson, Hildur Björnsdóttir, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, Sanna Magdalena Mörtudóttir og Skúli Helgason. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Helga Þórðardóttir og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir sem tók sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til heimildar í 2. málsl. 4. mgr. 44. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar sbr. 3. mgr. 17. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Eiríkur Búi Halldórsson og Þorsteinn Gunnarsson.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 21. maí 2025, ásamt trúnaðarmerktum fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki tilboð að nafnvirði 4.885 m.kr. í óverðtryggðan skuldabréfaflokk borgarsjóðs RVKN 35 1 á ávöxtunarkröfunni 8,40% en það eru 2.327 m.kr. að markaðsvirði og afþakki tilboð í verðtryggðan skuldabréfaflokk borgarsjóðs RVK 44 1. Ofangreind tillaga var tekin fyrir og samþykkt á fundi fjárstýringarhóps þann 21. maí 2025.

    -     Kl. 9:03 tekur Dóra Björt Guðjónsdóttir sæti á fundinum með rafrænum hætti.
    -     Kl. 9:05 taka borgarstjóri, Katrín Margrét Guðjónsdóttir og Ebba Schram sæti á fundinum.

    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Bjarki Rafn Eiríksson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS25010003

    Fylgigögn

  2. Fram fer kynning Jafnlaunastofu á vinnu við virðismat starfa í kjölfar kjarasamninga.

    -     Kl. 9:27 tekur Dóra Björt Guðjónsdóttir sæti á fundinum og aftengist fjarfundabúnaði.

    Helga Björg Ragnarsdóttir, Amy Ross, Rakel Guðmunsdóttir og Lóa Birna Birgisdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið. Einnig taka sæti á fundinum með rafrænum hætti borgarfulltrúarnir Andrea Helgadóttir, Friðjón R. Friðjónsson, Einar Sveinbjörn Guðmundsson, Guðný Maja Riba, Jóhanna Dýrunn Jónsdóttir, Oktavía Hrund Guðrúnar Jóns og Sara Björg Sigurðardóttir. MSS25050085

  3. Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 16. maí 2025, þar sem óskað er eftir að borgarráð veiti heimild til að ganga frá leigu á færanlegum kennslustofum fyrir Hólabrekkuskóla vegna framkvæmda við skólann, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt.

    Óli Jón Hertervig, Bjarki Rafn Eiríksson og Helena Rós Sigmarsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS25050033

    Fylgigögn

  4. Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 16. maí 2025, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki kaupsamning um sölu á eigninni Varmahlíð 1, sem er Perlan, ásamt tveimur tönkum, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Óli Jón Hertervig, Bjarki Rafn Eiríksson og Helena Rós Sigmarsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS23090001

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna ásamt áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Perlan verður seld fyrir 3,5 milljarða króna til núverandi rekstraraðila hússins og þar með er komin hagstæð niðurstaða í mál sem hefur verið lengi í undirbúningi. Þar sem Perlan er eitt af kennileitum Reykjavíkurborgar verður eftirfarandi kvöðum þinglýst á eignirnar samhliða kaupsamningi: 1. Reykjavíkurborg hefur forkaupsrétt að eignunum. 2. Kvöð er um að Perlan verði nýtt undir afþreyingartengda starfsemi, s.s. söfn, sýningar, veitingaþjónustu eða annað sem gerir staðinn að aðlaðandi áfangastað fyrir almenning í Reykjavík. 3. Kvöð er um að börn í grunnskólum Reykjavíkurborgar geti komið í skipulagðar grunnskólaheimsóknir í þau náttúrusöfn sem verða rekin í eignunum endurgjaldslaust tvisvar sinnum á skólagöngunni í 1. til 10. bekk.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks styðja að Perlan hafi verið sett í söluferli. Fulltrúarnir gera þó fyrirvara við greiðslufyrirkomulag og óljós vilyrði um byggingarheimildir og sitja því hjá við afgreiðslu málsins. Mikilvægt er að staðinn sé vörður um hið mikilvæga útivistarsvæði Reykvíkinga sem umlykur Perluna.

    Borgarráðsfulltrúi Framsóknarflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Framsókn styður sölu Perlunnar og minnir á að umræða um brunaútsölu á eignum til þess að bæta fjárhagsstöðu borgarinnar fyrir áramót var ómálefnaleg enda sýnir ársreikningur að borgarsjóður var rekinn með tæplega fimm milljarða afgangi þrátt fyrir að Perlan seldist ekki fyrir áramót. Perlan er hér seld á uppsettu verði og sú starfsemi sem þar er í dag heldur áfram og mun nýtast bæði reykvískum skólabörnum og almenningi öllum jafnt sem ferðamönnum.

    Fylgigögn

  5. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 20. maí 2025, varðandi fyrirhugaða ferð borgarstjóra til Nice í Frakklandi vegna stofnunar bandalags strandborga og -svæða, ásamt fylgiskjölum. MSS24120039

    Fylgigögn

  6. Lögð fram tillaga borgarstjóra, dags. 20. maí 2025, varðandi afturköllun úthlutunar lóðarinnar Fylkisvegur 9 gegn endurgreiðslu til lóðarhafa vegna byggingarréttar og gatnagerðargjalds, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt.

    Oddrún Helga Oddsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS25050010

    Fylgigögn

  7. Lögð fram tillaga borgarstjóra, dags. 20. maí 2025, varðandi úthlutun lóðar og sölu byggingaréttar vegna Helgugrundar 11, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt.

    Oddrún Helga Oddsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS25030079

    Borgarráðsfulltrúi Framsóknarflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Framsókn fagnar því að áherslur Framsóknar um húsnæðisuppbyggingu á Kjalarnesi séu hér að ná fram að ganga. Mikill áhugi er á lóðunum sem skipulagðar voru í tíð fyrri meirihluta þrátt fyrir yfirlýsingar undanfarinna ára um að lítill áhugi sé á því hjá almenningi að byggja á Kjalarnesi.

    Fylgigögn

  8. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 20. maí 2025, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki hjálagt erindisbréf stýrihóps (spretthóps) um reglur um leikskólastarf.

    Samþykkt. MSS25050076

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna ásamt áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Í samstarfsyfirlýsingu samstarfsflokkanna kemur fram að bæta eigi starfsaðstæður og vinnuumhverfi í leikskólum og fjölga leikskólaplássum. Sá spretthópur sem nú er skipaður mun annars vegar rýna inntöku barna með jafnræði og jöfnuð að leiðarljósi og hagræði fyrir barnafjölskyldur. Hinsvegar skal hópurinn skoða leiðir til að bæta mönnun og starfsaðstæður starfsfólks með það fyrir augum að draga verulega úr þörf fyrir fáliðunaraðgerðir í leikskólum borgarinnar og auka þar með fyrirsjáanleika í lífi barnafjölskyldna.

    Borgarráðsfulltrúi Framsóknarflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Framsókn tekur auðvitað sæti í þessum stýrihópi en rétt er að benda á að skóla- og frístundasvið hefur um nokkurra mánaða skeið unnið að tillögum um þessi efni og ljóst að þessi stýrihópur er aðeins skipaður til þess að eigna sér vinnu fyrri meirihluta. Það var einmitt það sem nýr meirihluti gerði með skipun „spretthóps um uppbyggingu leikskóladeilda“ frá 4. mars en þær tillögur voru unnar í tíð fyrri meirihluta. Þá vill Framsókn gera athugasemd við að meirihlutinn skuli skipa konur í öll fjögur sæti meirihlutans þrátt fyrir yfirlýsingar um kynjajafnrétti. Framsókn skipar Árelíu Eydísi Guðmundsdóttur fyrrverandi formann skóla- og frístundaráðs sem þekkir best þau mál sem stýrihópnum er ætlað að fjalla um.

    Fylgigögn

  9. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 20. maí 2025, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að fela atvinnu- og borgarþróunarteymi á skrifstofu borgarstjóra og borgarritara að auglýsa eftir áhugasömum aðila til að reka parísarhjól á Miðbakka sumarið 2025 og, ef viðunandi tilboð berast, gera samning við Faxaflóahafnir sf. um afnot af Miðbakka fyrir sumarið 2025 með möguleika á framlengingu til eins árs vegna sumarsins 2026. Samningur við rekstraraðila um rekstur parísarhjóls á Miðbakka verður lagður fyrir borgarráð, komi til slíks samnings.

    Greinargerð fylgir tillögunni.
    Samþykkt.

    Hulda Hallgrímsdóttir, Kamma Thordarson og Jóhanna Kristrún Birgisdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS25050083

    Fylgigögn

  10. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 20. maí 2025, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki þær tillögur sem koma fram í meðfylgjandi skýrslu spretthóps borgarstjóra um leikskólauppbyggingu sem skipaður var í kjölfar samþykktar borgarráðs 20. mars 2025. Tillögununum er skipt upp í fjóra liði. Í lið A eru níu tillögur um ný uppbyggingarverkefni sem gætu tryggt um 900 ný leikskólapláss. Í lið B eru tillögur um að hraðað verði verkefnum sem miða að stækkun starfandi borgarrekinna leikskóla með nýjum færanlegum stofum með áherslu á að boðin verði út þrjú til fjögur verkefni í einu í tveimur áföngum sem bæta við um 164 nýjum leikskólaplássum. Í lið C eru lagðar fram ýmsar tillögur, m.a. almennar tillögur um stofnstyrki, betri nýtingu skóla- og frístundahúsnæðis í þágu leikskóla sem standa í framkvæmdum og hugmyndir um samstarf við íþróttafélög um stofnun hreystileikskóla. Þá er vikið að áformum skóla- og frístundasviðs um mikilvægar breytingar á reglum um leikskólastarf sem m.a. er ætlað að bæta stöðu mönnunar og starfsaðstæður í leikskólum borgarinnar en skipaður verður stýrihópur (spretthópur) til að útfæra þær hugmyndir nánar. Í lið D eru ekki beinar tillögur heldur veitt yfirsýn yfir öll þau verkefni sem eru á döfinni og munu fjölga plássum á næstu fimm árum, þar með talin þau verkefni sem þegar hafa verið samþykkt og sett í farveg á vegum stýrihópsins Brúum bilið. Alls er þar um að ræða 1987 ný leikskólapláss sem dreifast á hverfi borgarinnar eins og sýnt er í skýrslunni. Jafnframt er lagt er til að næstu skref verði að vinna kostnaðarmat á tillögunum og vísa þeim í kjölfarið til undirbúnings fjárfestingaráætlunar til næstu fimm ára.

    Samþykkt.
    Vísað til borgarstjórnar. MSS25030059

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna ásamt áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Spretthópur borgarstjóra um leikskólauppbyggingu leggur til níu uppbyggingarverkefni til að mæta þörf barnafjölskyldna í borginni fyrir ný leikskólarými. Nýir borgarreknir leikskólar verða reistir í Elliðaárdal, Safamýri og Miðborg við Njálsgötu, auk þess sem Félagsstofnun stúdenta og Hjallastefnan stefna að byggingu nýrra leikskóla í samvinnu við borgina. Þá er lagt til að nýtt framtíðarhúsnæði verði reist fyrir leikskólana Laugasól, Sunnuás og Ægisborg. Nýju uppbyggingarverkefnin gætu skilað allt að 900 nýjum leikskólarýmum auk þeirra 164 nýju plássa sem opna í starfandi leikskólum með færanlegum húsum, 264 plássa sem endurheimtast eftir verklok framkvæmda og um 730 plássa sem þegar hafa verið ákveðin í aðgerðaáætluninni Brúum bilið. Alls mun því fjölga um nærri 2000 leikskólarými á næstu fimm árum. Spretthópurinn leggur einnig til að stofnstyrkir verði teknir upp til að hvetja til fjölgunar plássa á vegum sjálfstætt starfandi leikskóla. Þá verði teknar upp viðræður við íþróttafélög um hreystileikskóla og samnýting skóla- og frístundahúsnæðis í þágu leikskólastarfsemi aukin. Stuðningur er við hugmyndir um aukið samræmi vinnutíma starfsfólks leikskóla og grunnskóla og aðgerðir til að bæta starfsaðstæður, mönnun og hljóðvist verða mótaðar í vinnu spretthóps um breytingar á reglum um leikskólastarf sem borgarráð skipaði í dag og mun skila tillögum sínum í næsta mánuði.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks fagna vissulega áformum um uppbyggingu fleiri leikskólaplássa en vekja athygli á því að enn skortir fjármögnun fyrir uppbygginguna og aðgerðir til að tryggja mönnun á fyrirhuguðum plássum. Jafnframt gefa heildartölur skakka mynd enda taka þær ekki mið af þeim leikskólaplássum sem falla út samhliða uppbyggingunni. Fulltrúarnir minna jafnframt á að leikskólavandinn er mismikill milli hverfa og því nauðsynlegt að skipuleggja uppbygginguna sérstaklega eftir þörfum á hverju svæði enda mikilvægt hagsmunamál fjölskyldna að börn þeirra fái leikskólapláss innan hverfis. Þá sakna fulltrúarnir áforma um aukið samtarf við fyrirtækin í borginni um daggæslu og leikskóla á vinnustöðum.

    Borgarráðsfulltrúi Framsóknarflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Framsókn þakkar fyrir ágætt yfirlit yfir þá vinnu sem staðið hefur yfir í uppbyggingaráætlunum leikskólamála á kjörtímabilinu. Hér er ekki ný áætlun á ferðinni heldur er nýr meirihluti að eigna sér vinnu fyrri meirihluta. Eina nýja hugmynd er þó að finna í þessu skjali en það er tilraunaverkefni um „hreystiskóla“ sem er vert að kanna. Leitt er að sjá að tillaga frá síðasta ári um stofnstyrki til sjálfstætt starfandi leikskóla til leikskólauppbyggingar hafi tekið breytingum hjá nýjum meirihluta þar sem segir að „styrkir miðist eingöngu við félög sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni.“ Eðlilegt er að mati Framsóknar að aðilar sem reka leikskóla greiði sér hóflegan arð af starfsemi sinni að því gefnu að opinbert fé renni til skólastarfsins. Framsókn sér ekki betur en að róttækar vinstriáherslur meirihlutans muni útiloka flesta sjálfstætt starfandi leikskóla frá því að nýta sér stofnstyrki. Þá er einnig sorglegt að meirihlutinn gerir ekki ráð fyrir samningum um leikskólauppbyggingu hjá vinnustöðum eins og áform voru um.

    Fylgigögn

  11. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 15. maí 2025, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 14. maí 2025 á tillögu um Aðalskipulag Reykjavíkur 2040 – Borgarlína 1. lota – Ártún Fossvogsbrú, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna gegn tveimur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.
    Borgarráðsfulltrúi Framsóknarflokksins situr hjá við afgreiðslu málsins.
    Málið fer til endanlegrar afgreiðslu borgarstjórnar með vísan til 2. mgr. 48. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar.

    Ólöf Örvarsdóttir, Haraldur Sigurðsson og Ámundi V. Brynjólfsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. USK24080320

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna ásamt áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Samþykkt á rammahluta Aðalskipulags Reykjavíkur 2040 um fyrstu lotu Borgarlínunnar, frá Ártúni að Fossvogi, er mikilvægur áfangi í því að hefja framkvæmdir. Mikið samráð hefur átt sér stað í skipulagsferlinu og mun áfram eiga sér stað þegar deiliskipulagsvinna á hverjum kafla hefst. Það samráð er gífurlega mikilvægt í jafn stóru og viðamiklu verkefni og Borgarlína er. Við þann hluta skipulags sem snýr að rammahlutanum komu umsagnir frá 35 aðilum og 21 til viðbótar við umhverfismatsskýrsluna sem kynnt var samhliða. Er öllum þeim sem skiluðu inn umsögn þakkað fyrir sýndan áhuga á verkefninu og fjölbreyttar og gagnlegar athugasemdir. Mikilvægt er að í áframhaldandi vinnslu verkefnisins verði áfram virkt samtal við íbúa og hagsmunaaðila.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks leggjast gegn þeirri útfærslu að tvær akreinar verði teknar af almennri umferð og lagðar undir Borgarlínu á Suðurlandsbraut. Með góðu móti mætti áfram tryggja sama fjölda akbrauta en samt sem áður bæta við sérafnotarými fyrir almenningssamgöngur. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks styðja stórbættar almenningssamgöngur en leggja áherslu á að tryggt sé frelsi og val í samgöngum þar sem einn fararmáti vegur ekki að öðrum. Fulltrúarnir leggja jafnframt ríka áherslu á að tekið sé tillit til sjónarmiða atvinnurekenda á svæðinu sem verða óhjákvæmilega fyrir miklum áhrifum af fyrirhuguðum breytingum.

    Borgarráðsfulltrúi Framsóknarflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Framsókn styður uppbyggingu Fossvogsbrúar og fyrstu lotu borgarlínu. Framsókn situr hinsvegar hjá við afgreiðslu málsins vegna áhyggja af útfærslu á legu borgarlínu um Suðurlandsbraut. 

    Fylgigögn

  12. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 15. maí 2025, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 14. maí 2025 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Háskólans í Reykjavík vegna legu borgarlínu í gegnum svæðið og frekari uppbyggingar við háskólann, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt.
    Bogarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Ólöf Örvarsdóttir, Haraldur Sigurðsson og Ámundi V. Brynjólfsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. SN220056

    Fylgigögn

  13. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 7. maí 2025, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 7. maí 2025 á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Hlíðarenda vegna lóðarinnar nr. 3 við Arnarhlíð, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna gegn tveimur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.
    Borgarráðsfulltrúi Framsóknarflokksins situr hjá við afgreiðslu málsins.
    Málið fer til endanlegrar afgreiðslu borgarstjórnar með vísan til 2. mgr. 48. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar.

    Ólöf Örvarsdóttir, Haraldur Sigurðsson og Ámundi V. Brynjólfsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. USK23060353

    Borgarráðsfulltrúi Framsóknarflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Framsókn situr hjá við afgreiðslu málsins í ljósi þess að fjöldi íbúða eykst umtalsvert frá fyrra skipulagi og íbúar hafa lýst áhyggjum af of mikilli uppbyggingu á svæðinu. Verkefnið er þó mikilvægt enda rennur ágóði þess til uppbyggingar fjölnota íþróttahúss Vals sem gagnast öllum íbúum á svæðinu.

    Fylgigögn

  14. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 16. maí 2025, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að hefja innkaupaferli vegna framkvæmda við yfirborðsfrágang við Brekknaás, ásamt fylgiskjölum. Kostnaðaráætlun er 150 m.kr.
    Samþykkt.

    Ólöf Örvarsdóttir, Haraldur Sigurðsson og Ámundi V. Brynjólfsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. USK25050259

    Fylgigögn

  15. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 16. maí 2025, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að halda áfram með frekari hönnun og framkvæmdir vegna endurgerðar og lagfæringa á húsnæði Hagaskóla, álmum B og C, ásamt fylgiskjölum. Kostnaðaráætlun er 850 m.kr.
    Samþykkt.

    Ólöf Örvarsdóttir, Haraldur Sigurðsson og Ámundi V. Brynjólfsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. USK25050258

    Fylgigögn

  16. Lagt fram bréf menningar- og íþróttasviðs, dags. 7. maí 2025, sbr. samþykkt menningar- og íþróttaráðs frá 11. apríl 2025 á tillögu um lengingu opnunartíma sundlauga, ásamt fylgiskjölum.

    Steinþór Einarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS25020123

    Fylgigögn

  17. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 13. maí 2025, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 12. maí 2025 varðandi tillögu um breytingu á fjölda barna í leikskólanum Stakkaborg, ásamt fylgiskjölum.
    Frestað.

    Steinn Jóhannsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. SFS25010201

    Fylgigögn

  18. Lagt til að Helga Þórðardóttir taki sæti sem fulltrúi Reykjavíkurborgar á sveitarstjórnarvettvangi EFTA í stað Þórdísar Lóu Þórhallsdóttur.
    Samþykkt. MSS22090136

  19. Lagður fram dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-7459/2023. MSS24040075

  20. Lagður fram úrskurður Landsréttar í máli nr. 302/2025. MSS24040036

  21. Lögð fram upplýsingabeiðni Alþýðusambands Íslands, Starfsgreinasambands Íslands og Eflingar, dags. 6. mars 2025, um útvistun sveitarfélags á ræstingu og þrifum. Jafnframt lagt fram svar fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 12. maí 2025, ásamt fylgiskjölum. MSS25030021

    Fylgigögn

  22. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 20. maí 2025, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að kjósa eftirfarandi sjö fulltrúa og fjóra varafulltrúa í fulltrúaráð hjúkrunarheimilisins Eirar til næstu fjögurra ára. Aðalfulltrúar verði eftirtaldir: Ellen Calmon, Berglind Eyjólfsdóttir, Guðbrandur Guðmundsson, Halldór Vignir Frímannsson, Sigurður Ágúst Sigurðsson, Berglind Magnúsdóttir og Árelía Eydís Guðmundsdóttir. Varafulltrúar verði eftirtaldir: Ragna Lilja Garðarsdóttir, Kristinn Reimarsson, Ingibjörg Þ. Sigurþórsdóttir og Ása Kolbrún Hauksdóttir.

    Samþykkt. MSS25050040 

    Fylgigögn

  23. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 20. maí 2025, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að kjósa eftirfarandi þrjá fulltrúa og tvo varafulltrúa í fulltrúaráð hjúkrunarheimilisins Skjóls til næstu fjögurra ára. Aðalfulltrúar verði eftirtaldir: Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir, Þórhildur Egilsdóttir og Helgi Pétursson. Varafulltrúar verði eftirtaldir: Ása Kolbrún Hauksdóttir og Berglind Magnúsdóttir. Jafnframt er lagt til að borgarráð samþykki að Sanna Magdalena Mörtudóttir verði tilnefnd sem fulltrúi Reykjavíkurborgar í stjórn hjúkrunarheimilisins Skjóls og Alexandra Briem til vara.

    Samþykkt. MSS25050070

    Fylgigögn

  24. Lagt fram svar fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 27. janúar 2025, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um leyfisskylda gististarfsemi, sbr. 33. lið fundargerðar borgarráðs frá 30. nóvember 2023. MSS23110169

    Fylgigögn

  25. Lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að fjarlægja skilti úr bílastæðum Austurstrætis frá Pósthússtræti, sbr. 26. lið fundargerðar borgarráðs frá 15. maí 2025.
    Samþykkt með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna gegn tveimur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins að vísa tillögunni frá.
    Borgarráðsfulltrúi Framsóknarflokksins situr hjá við afgreiðslu málsins. MSS25050041

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins mótmæla harðlega frávísun tillögunnar af hálfu meirihlutans. Austurstræti er sem stendur enn formlega opið fyrir umferð og ekki hefur verið tekin formleg ákvörðun um endanlega lokun götunnar þó meirihlutinn hafi samþykkt að hrinda af stað vinnu við breytingu á deiliskipulagi þess efnis. Það að ákveða að gera bílastæðin ónothæf og byrja að vinna að endanlegri lokun götunnar án þess að slík ákvörðun hafi hlotið tilheyrandi afgreiðslu eru fráleit vinnubrögð. Þau senda rekstraraðilum skýr skilaboð um hvernig meirihlutinn starfar og viðhorf þeirra til rekstraraðila. Ekkert lát er á steypuklumpablæti meirihlutans.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna ásamt áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Þegar hefur verið samþykkt að umbreyta Kvosinni í göngusvæði og undirbúningur er hafinn við nýja heildarhönnun svæðisins. Sumarið 2024 var Kvosin göngusvæði sem og í kringum jólin og næsta skrefið eru varanlegar göngugötur í aðdraganda framkvæmda á svæðinu. Í ljósi þeirrar stefnu um umbreytinguna er tillögu um að vinda ofan af umbreytingarfasanum vísað frá en skiltin gefa til kynna að bílastæði verði fösuð út á svæðinu.

    Fylgigögn

  26. Lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að óska eftir meiri viðveru lögreglu í miðbæ Reykjavíkur um helgar, sbr. 25. lið fundargerðar borgarráðs frá 15. maí 2025.
    Vísað til meðferðar borgarstjóra. MSS25050042

    Fylgigögn

  27. Lögð fram fundargerð endurskoðunarnefndar frá 19. maí 2025. MSS25010004

    Fylgigögn

  28. Lögð fram fundargerð heilbrigðisnefndar frá 15. maí 2025. MSS25010007

    Fylgigögn

  29. Lögð fram fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 21. maí 2025.
    11. liður fundargerðarinnar er samþykktur. MSS25010030

    Fylgigögn

  30. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls níu mál (MSS22030265, MSS25010021, MSS25050093, MSS25050104, MSS24070017, MSS25050071, SFS25030053, SFS25050016, MSS24100050). MSS25040069

    Fylgigögn

  31. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019.

    -     Kl. 11:45 víkur Hildur Björnsdóttir af fundinum. MSS25050020

    Fylgigögn

Fundi slitið kl. 11:55

Líf Magneudóttir Dóra Björt Guðjónsdóttir

Einar Þorsteinsson Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir

Sanna Magdalena Mörtudottir Skúli Helgason

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarráð 22. maí 2025 - Prentvæn útgáfa