Aðgengis- og samráðsnefnd í málefnum fatlaðs fólks - Fundur nr. 33

Aðgengis- og samráðsnefnd í málefnum fatlaðs fólks

Ár 2021, fimmtudaginn 21. október, var haldinn 33. fundur aðgengis- og samráðsnefndar í málefnum fatlaðs fólks. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 13.08. Fundinn sátu: Þorkell Heiðarsson, Þórdís Pálsdóttir, Rannveig Ernudóttir, Bergþór G. Böðvarsson, Ingólfur Már Magnússon, Björgvin Björgvinsson og Hanna Björk Kristinsdóttir.

Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundarbúnaði með vísan í 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, sbr. 4. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar varðandi fjarfundaheimild: Hallgrímur Eymundsson og Hlynur Þór Agnarsson. Eftirtaldir starfsmenn sátu fundinn: Guðný Bára Jónsdóttir og Tómas Ingi Adolfsson, sem ritaði fundargerð. Eftirtaldir starfsmenn sátu fundinn með fjarfundabúnaði: Anna Kristinsdóttir og Þórdís Linda Guðmundsdóttir.

Þetta gerðist:

 1. Fram fer kynning á vinnu og virkni fyrir fatlað fólk á velferðarsviði. R21100351

  Aðalbjörg Traustadóttir, Arne Friðrik Karlsson og Katrín Harpa Ásgeirsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði.

  Aðgengis- og samráðsnefnd leggur fram svohljóðandi bókun:

  Aðgengis- og samráðsnefnd þakkar starfsfólki velferðarsviðs fyrir áhugaverða kynningu á atvinnumálum og virkniþjónustu fyrir fatlað fólk í borginni. Nefndin tekur undir mikilvægi einstaklingsbundinnar nálgunar í málaflokknum og fagnar því frumkvæði sem merkja má frá velferðarsviði. Nefndin tekur þá undir og styður við þá nálgun og forgangsröðun sem kom fram í kynningunni og óskar eftir frekari samstarfi um málefnið og vill leggja sitt lóð á vogarskálarnar í þessu mikilvæga máli. Þá telur nefndin einboðið að Reykjavíkurborg gangi á undan með góðu fordæmi og auki möguleika fólks með skerta starfsgetu á störfum innan borgarinnar.

  Fylgigögn

 2. Fram fer kynning á breytingum á reglum um stuðnings- og stoðþjónustu fyrir fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. R21100352

  Aðalbjörg Traustadóttir, Arne Friðrik Karlsson, Katrín Harpa Ásgeirsdóttir og Styrmir Erlingsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði.

 3. Fram fer kynning á þjónustukönnun og breytingum sem orðið hafa á akstursþjónustu fatlaðs fólks. R21100353

  Erlendur Pálsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

  Aðgengis- og samráðsnefnd leggur fram svohljóðandi bókun:

  Aðgengis- og samráðsnefnd þakkar Erlendi Pálssyni frá Pant fyrir kynningu á endurbættri akstursþjónustu fyrir fatlað fólk og núverandi stöðu þess máls. Nefndin lýsir yfir ánægju sinni með hvaða stefnu þjónustan er að taka m.a. með nýrri vefsíðu, þjónustugátt og fyrirhuguðu appi og að tillit hafi verið tekið til ábendinga nefndarinnar á fyrri stigum málsins. Nefndin lýsir þá yfir ánægju með hversu gott samráð hefur verið haft við hana á öllum stigum málsins. Aðgengis- og samráðsnefnd fagnar því að auki að markmið Pant sé að draga úr aðgreiningu fatlaðs fólks og annarra hópa og gera þjónustuna að hluta af almenningssamgöngum.

  Fylgigögn

 4. Fram fer umræða um aðgengismál á sundstöðum borgarinnar. R21100354

  Ómar Einarsson, Steinþór Einarsson og Bragi Bergsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði.

  Aðgengis- og samráðsnefnd leggur fram svohljóðandi bókun:

  Nefndin þakkar þeim Ómari Einarssyni og Steinþóri Einarssyni fyrir góða yfirferð um stöðu aðgengismála í sund- og íþróttamannvirkjum og helstu áskoranir sem þar blasa við. Ljóst er að mikið hefur áunnist að undanförnu hvað varðar aðgengi að sundstöðum borgarinnar, þótt enn sé þar vissulega verk óunnið. Nefndin tekur undir það sjónarmið að aðgengi að íþróttahúsum og þeim viðburðum sem þar eru séu áskorun sem þurfi að mæta. Þar skal sérstaklega nefna að aðgengi að inngangi Laugardalshallar sem fengið hefur ófyrirséð hlutverk nú á tímum Covid verði tryggt meðfram þeim framkvæmdum sem þar standa yfir vegna vatnstjóns sem þar varð.

  -    Kl. 15.00 víkja Þórdís Pálsdóttir, Þorkell Heiðarsson og Rannveig Ernudóttir af fundi.

 5. Lögð eru fram erindi frá Gæða- og eftirlitsstofnun félagsþjónustu og barnaverndar, dags. 1. október 2021 og 13. október 2021, varðandi starfsleyfisumsóknir vegna þjónustu við fatlað fólk. R21020028.

  Notendaráð gerir engar athugasemdir við fyrirliggjandi starfsleyfisumsóknir.

Fundi slitið klukkan 15:13

PDF útgáfa fundargerðar
adgengis_og_samradsnefnd_2110.pdf