Yfirlýsing vegna Fossvogsskóla

Skóli og frístund

""

Yfirlýsing frá skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar og skólaráði Fossvogsskóla í kjölfar fundar 17. febrúar 2021. 

Í framhaldi af framkvæmdum sumarið 2020 var farið í sýnatöku í kennsluhúsnæði Fossvogsskóla, í loftsíum og rýmum ofan millilofta í Vesturlandi í lok ársins. Sýnin voru send í ræktun og í tegundagreiningu hjá Náttúrufræðistofnun Íslands og hefur Verkís tekið saman greinargerð um niðurstöðurnar. Þær voru kynntar og ræddar á fundi skólaráðs Fossvogsskóla síðdegis í gær. Á fundinum voru auk skólaráðsins, fulltrúar skóla- og frístundasviðs, umhverfis- og skipulagssviðs, fulltrúi Verkís, SAMFOK, félags grunnskólakennara og ráðgjafi foreldrafélagsins.

Hluti sýnanna sem tekin voru í lok árs sýndi óeðlilegan vöxt á nokkrum stöðum. Fulltrúi umhverfis- og skipulagssviðs fór yfir verkáætlun vegna þessa og liggur fyrir að aðgerðir hefjast á komandi dögum og eiga þær að taka stuttan tíma. Í kjölfar framkvæmda verður ráðist í ítarlega hreingerningu þar sem þess er þörf. Þá verða tekin sýni í lok skólaárs til að ganga úr skugga um að framkvæmdir hafi skilað tilætluðum árangri. Samráð verður haft við skólaráð Fossvogsskóla um framgang máls. Skóla- og frístundasvið og Fossvogsskóli sjá til þess að fylgst verður reglulega með líðan þeirra barna sem sérstakar áhyggjur eru af.

Á síðastliðnum tveimur árum hafa yfirgripsmiklar viðgerðir farið fram á skólahúsnæði Fossvogsskóla. Innivistin hefur verið bætt með endurnýjun þaka og lofta, loftræstikerfa, gólfefna og málun í skólanum. Þá hefur allur skólinn verið þrifinn hátt og lágt og margvíslegar endurbætur verið gerðar á búnaði, húsgögnum, bókakosti og fleiru.

Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar og skólaráð Fossvogsskóla er einhuga um að tryggja þurfi að húsnæði og aðstaða til skóla- og frístundastarfs veiti fullnægjandi umgjörð um metnaðarfullt starf og stuðli að heilbrigði og vellíðan barna og starfsmanna, líkt og segir í Menntastefnu Reykjavíkurborgar.