Yfirlýsing borgarráðs um Palestínu og Ísrael

Reykjavíkurborg úr loft í desember, séð yfir Tjörnina.

Borgarráð samþykkti einróma í dag ályktun sem fordæmir öll ofbeldisverk sem beinast gegn almennum borgurum í Palestínu og Ísrael. Jafnframt hvetur borgarráð til að komið verði á tafarlausu vopnahléi og að allra leiða verði leitað til að koma á varanlegum friði. 

Borgarráð Reykjavíkur samþykkti í dag eftirfarandi yfirlýsingu: 

Borgarráð fordæmir öll ofbeldisverk sem beinast gegn almennum borgurum í Palestínu og Ísrael. Borgarráð hvetur ekki aðeins til þess að tafarlausu vopnahléi af mannúðarástæðum verði komið á á Gaza-svæðinu heldur verði allra leiða leitað til að koma á varanlegum friði. Borgarráð styður frumkvæði framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna um að Öryggisráðið beiti sér í þágu mannúðar og friðar án tafar, og tekur undir kröfur þess efnis að alþjóðalögum sé fylgt í einu og öllu í þágu mannúðar, öryggis almennra borgara og verndar borgaralegra innviða.  

Borgarráð fordæmir hryðjuverkaárás Hamas-liða á almenna borgara í Ísrael sem hófst 7. október 2023. Borgarráð fordæmir sömuleiðis allar aðgerðir ísraelskra stjórnvalda í kjölfarið sem brjóta gegn alþjóðlegum mannúðarlögum, þar með talið óheyrilega þjáningu, manntjón, mannfall almennra borgara og eyðileggingu borgaralegra innviða. Brýnt er að öll brot stríðandi aðila á alþjóðalögum verði rannsökuð til hlítar. 

Borgarráð kallar eftir mannúðlegri meðferð á og tafarlausri lausn gísla, aðgengi hjálpar- og mannúðarsamtaka og að neyðarvistum og læknisaðstoð verði komið til almennings tafarlaust.