Yfir 100 nýir hjólastólarampar komnir í Miðborgina

Velferð Mannréttindi

""

Alls hefur 101 nýjum hjólastólarampi verið komið upp í Miðborginni á vegum Aðgengissjóðs sem hefur haldið utan um verkefnið Römpum upp Reykjavík. Verkefnið er fjórum mánuðum á undan áætlun og 15 milljónum undir kostnaðaráætlun.

Verkefnið Römpum upp Reykjavík var sett af stað í mars á þessu ári. Markmiðið var að aðstoða fyrirtæki við það að koma upp hjólastólarömpum til að auka aðgengi fyrir fatlað fólk. Markmiðið var að koma upp 100 römpum á einu ári. Svo vel hefur tekist til að markmiðið náðist fjórum mánuðum á undan áætlun og eru 15 milljónir eftir í sérstökum Aðgengissjóði sem hélt utan um verkefnið.

Verslunar- og veitingahúsaeigendur gátu fengið endurgreiddan allt að 80%  af kostnaði við að koma upp rampi til að auðvelda aðgengi fyrir fólk á hjólastólum.

Ótrúlegt hvað þetta var auðvelt

Haraldur Þorleifsson frumkvöðull hafði forgöngu um verkefnið og hann þakkaði öllum sem komu að verkefninu innilega fyrir sitt framlag á blaðamannafundi sem haldinn var í Ráðhúsi Reykjavíkur í morgun þar sem þessum merka áfanga var fagnað.

„Það er í rauninni ótrúlegt hvað þetta var auðvelt. Allir stofnaðilar, skipulagsyfirvöld, veitingastaðir og verslanir á svæðinu lyftu grettistaki til að koma upp römpunum og við fundum fyrir miklum meðbyr alveg frá byrjun. Að við séum að klára þetta fjórum mánuðum á undan áætlun er sönnun þess,“ segir Haraldur.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sagði verkefnið hafa gengið ótrúlega vel og hratt fyrir sig. Hann væri stoltur af Haraldi og því sem hann hefði áorkað í þessum efnum en ekki síður af starfsfólki borgarinnar sem hefði fundið lausnir til að leysa málin hratt og vel svo ramparnir gætu risið á nokkrum mánuðum. Hann lýsti því yfir að borgin væri reiðubúin að styðja verkefnið áfram.

Einnig á landsbyggðina

Til stendur að átakið haldi áfram í Reykjavík en færist einnig út á land. Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri á Akureyri kvaðst ætla að leggja verkefninu lið þar í bæ og Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sögðust myndu styðja við að verkefnið fengi góðan framgang á landsbyggðinni eftir hinn markverða árangur í höfuðborginni.  

Auk þess tók forseti Íslands,  Guðni Th. Jóhannesson til máls á fundinum en hann var verndari verkefnisins.

Nýju ramparnir stórauka aðgengi fatlaðs fólks að verslunum, veitingastöðum og þjónustu í borginni. Unnið hefur verið að uppsetningunni í góðu samstarfi við eigendur viðkomandi bygginga, rekstraraðila og skipulagsyfirvöld en Reykjavíkurborg er einn af stofnaðilum verkefnisins og hefur tryggt góðan framgang þess. 

Öflugir stofnaðilar

Öflugir stofnaðilar komu að verkefninu og var settur á laggirnar sérstakur aðgengissjóður en úr honum hafa verslunar- og veitingahúsaeigendur fengið greitt til að leysa aðgengismál hjá sér.

Stofnaðilarnir eru: Byko, Haraldur Þorleifsson, Kvika banki, Reginn, Reykjavíkurborg, Össur, Félagsmálaráðuneytið, Hagar, Íslandsbanki, Stjórnarráðið, Aton.JL, Brandenburg, ÍAV, Sjálfsbjörg og Öryrkjabandalagið, BM Vallá, Efla og Eik.

Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu Römpum upp Reykjavík