Vorhreinsun í húsagötum í góðum gangi

Umhverfi

Vorsópun

Vorhreinsun Reykjavíkurborgar hófst í mars en helstu göngu- og hjólaleiðar eru í forgangi. Hreinsunin er komin vel af stað og er nú komið að húsagötum. Forsópun hófst í síðustu viku og götuþvotturinn hófst á mánudag. 

Daginn áður en íbúagötur eru þvegnar sendir Reykjavíkurborg SMS til að láta íbúa vita af þvottinum svo þeim gefist tækifæri til að færa bíla sína.

Mikilvægt að færa bíla

Mikilvægt er að bílar séu færðir úr götunni á meðan á götuþvotti stendur. Það flýtir mjög fyrir og skilar betri þrifum þegar bílar eru færðir og ekki lagt á ný fyrr en hreinsun er að fullu lokið. Þetta gildir eingöngu um almenn stæði í götunni og á borgarlandi en ekki stæði innan lóðarmarka íbúðarhúsa og fyrirtækja.

Símaskilaboð send daginn fyrir götuþvott

SMS er sent til íbúa daginn áður til að tryggja að allt gangi sem best fyrir sig en hefðbundnar skiltamerkingar verða enn fremur settar upp til að láta íbúa og gesti borgarinnar vita af götuþvottinum. Reykjavíkurborg hefur sent skilaboð til fólks síðustu tvö ár og hefur það gefið góða raun. Vonast er til þess að fólk taki einnig vel í skilaboðin nú og liðki til við hreinsunina með því að færa bíla sína en það skilar hreinni og fallegri götum.

Í þetta sinn verður byrjað í Háaleiti- og Bústöðum, Kjalarnesi og Breiðholti.

Athugið að Vegagerðin sér um rekstur og hreinsun þjóðvega í þéttbýli. Dæmi um þjóðvegi í borginni eru Kringlumýrarbraut, Miklabraut, Hringbraut, Vesturlandsvegur og Reykjanesbraut.