Visthæfar skífur falla úr gildi við áramót

Samgöngur

Arctic Images/Ragnar Th.
Bílaumferð í Austurstræti.

Reglur um bifreiðar sem eiga rétt á visthæfum skífum verða ekki endurnýjaðar þegar þær renna út í árslok 2022. Umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkurborgar samþykkti tillögu skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar þessa efnis á fundi sínum í morgun. Þetta þýðir að frá og með áramótum verður ekki lengur hægt að leggja rafmagns- eða vetnisbifreiðum endurgjaldslaust í 90 mínútur á skilgreindum gjaldsvæðum.

Tók fyrst gildi 2007

Fyrstu reglurnar um visthæfar skífur tóku gildi árið 2007 þegar bifreiðum sem uppfylltu ákveðin skilyrði varðandi CO2 losun fengu rétt til að leggja bifreiðum sínum í gjaldskyld stæði í 90 mínútur án endurgjalds. Reglurnar hafa verið uppfærðar reglulega síðan.

Þegar fyrstu reglurnar um visthæfar bifreiðar voru settar höfðu einnig bensín- og díselbílar rétt á skífunum ef þeir losuðu minna en 120g/km af CO2. Nú hafa eingöngu bifreiðar rétt á visthæfum skífum sem hafa skráða lengd minni en fimm metra og ganga annað hvort eingöngu fyrir rafmagni eða ganga fyrir vetni.

Ekki lengur þörf fyrir ívilnun

Þegar reglurnar voru settar var hlutfall visthæfra bíla mun minna en nú og hlutfall rafmagnsbíla afar lágt. Með tímanum hefur fjöldi bíla sem gengur fyrir rafmagni eða endurnýjanlegum orkugjöfum fjölgað til muna. Visthæfar skífur höfðu það markmið að búa til hvata fyrir íbúa til að ferðast um á vistvænni ökutækjum.

Í dag er fjöldi ökutækja sem ganga fyrir rafmagni orðinn það mikill að ekki er lengur talin þörf fyrir þessari ívilnun. Því er eðlilegt að þessi ökutæki greiði fyrir afnot af borgarlandi líkt og önnur ökutæki og að það stjórntæki sem gjaldskylda bílastæða er nái einnig til bifreiða sem ganga fyrir rafmagni eða vetni.