Viltu hafa áhrif á stefnu í málefnum heimilislausra?

Velferð

""

Almenningi og hagsmuna- og félagasamtökum er boðið að koma með athugasemdir að drögum að stefnu í málefnum heimilislausra með miklar og flóknar stuðningsþarfir.

Drög stefnunnar voru rædd á fundi velferðarráðs 24. apríl síðastliðinn og kynnt á opnum fundi velferðarráðs auk þess sem einhverjir hagsmunaaðilar hafa kynnt sér drögin og gert athugasemdir. Nú gefst almenningi tækifæri til að kynna þér stefnumótunina og hafa áhrif á stefnu borgarinnar í málaflokki heimilislausra með miklar og flóknar stuðningsþarfir.

Í stefnunni verður notast við hugtakið „heimilislaus með miklar og flóknar þjónustuþarfir“ og kemur það í stað orðsins utangarðsfólk, sem hefur hin síðari ár sætt gagnrýni og þykir gildishlaðið.

Þegar fjallað er um heimilisleysi í stefnunni er stuðst við skilgreiningu Evrópusambandsins (ETHOS) þar sem er átt við einstaklinga sem glíma við margþættan vanda, t.d. vímuefna- eða geðrænan vanda, þroskafrávik eða hafa lent í miklum áföllum í lífinu, búa við óstöðugleika í búsetu og þarfnast margháttaðs stuðnings. Stuðst er við hugmyndafræðina „húsnæði fyrst“ en í henni felst mikilvægi þess að að hver einstaklingur eigi heimili sem auðveldar viðkomandi að nýta sér þá þjónustu sem er fyrir hendi í samfélaginu. Lögð er áhersla á það í stefnunni að enginn ætti að sofa úti, dvelja í neyðarhúsnæði eða útskrifast af stofnun eða verða borinn út án þess að annað úrræði standi til boða.

Við undirbúning stefnumótunnar var litið til þess sem verið er að gera í nágrannalöndunum og skoðað  hvaða áherslum hefur verið fylgt sem borið hafa mælanlegan árangur. Þar eru áberandi stefnur sem byggja á skaðaminnkandi nálgun og hugmyndafræði um „húsnæði fyrst“ auk samstarfi ríkis og sveitarfélaga.  Ákveðið var að horfa til þessara þátta við mótun stefnunnar hér og mikilvægi samstarfs sveitarfélaga, ríkis og frjálsra félagasamtaka. Starfsfólk velferðarsviðs sem vinnur með heimilislausum, sem og allt starfsfólk Reykjavíkurborgar, skal hafa það að leiðarljósi að sýna virðingu á öllum stigum þjónustunnar. Áhersla er lögð á að efla og auka sjálfsvirðingu notandans, valdefla einstaklinginn og ekki síst að draga úr fordómum í samfélaginu. Öll þjónusta  við heimilislausa skal stuðla að framangreindum þáttum auk samstarfs þvert á stofnanir og samtök.

Hægt er að koma með athugasemdir við stefnuna og senda á velferd@reykjavik.is fyrir fimmtudaginn 23. maí næstkomandi.

Drög að stefnu í málefnum heimilislausra með miklar og flóknar stuðningsþarfir.