Vilja taka á ólöglegri skammtímagistingu | Reykjavíkurborg

Vilja taka á ólöglegri skammtímagistingu

föstudagur, 26. janúar 2018

Borgir í Evrópu vilja nýta sér aðgang að rafrænum gögnum til að hafa eftirlit með og koma reglum yfir ólöglega ferðamannagistingu. Þetta kom fram á blaðamannafundi ráðstefnu í Amsterdam í dag sem Sigurður Björn Blöndal, formaður borgarráðs, hefur setið og haldið erindi á.

  • Þátttakendur í ráðstefnu um gististarfsemi í borgum í Amsterdam.
    Þátttakendur í ráðstefnu um gististarfsemi í borgum í Amsterdam.

Reykjavíkurborg var boðið að taka þátt í ráðstefnunni sem haldin er undir yfirskriftinni Amsterdam Holiday Rental Conference. Á ráðstefnunni er sérstaklega fjallað um það hvernig borgir geta unnið saman að því að koma í veg fyrir ólöglega gististarfsemi og að farið sé að settum reglum varðandi heimagistingu og aðra skammtímagistingu. Amsterdam hefur að mörgu leyti verið leiðandi í því að koma böndum á ólöglega gistingu í íbúðahverfum en þar hefur sérstakt teymi frá borginni unnið með lögreglunni og eldvarnareftirliti, að því að loka ólöglegum gististöðum og það hefur komið fyrir að ferðamenn hafi þurft að yfirgefa slíkt gistihúsnæði. Í Amsterdam líkt og í Reykjavík hefur íbúðaverð hækkað mikið á ákveðnum svæðum á meðan íbúum hefur fækkað vegna þess að talsvert af íbúðarhúsnæði er notað alfarið í útleigu til ferðamanna. 

Sama er uppi á teningnum í öðrum borgum í Evrópu þar sem ferðamannaiðnaður hefur vaxið hratt, m.a. Barcelona, París, Vín, Kaupmannahöfn, Brussel, Lissabon, Krakow og Madríd en fulltrúar allra þessara borga taka þátt í ráðstefnunni.

Tilgangur ráðstefnunnar er að deila þekkingu auk þess sem umræða skapaðist um að borgirnar taki sig saman með að beina erindi til Evrópusambandsins um regluverk varðandi skammtímagistingu. Amsterdam safnar ítarlegum gögnum af vefsíðum sem bjóða upp á heimagistingu í borginni til að fást við vandamálið. Er líklegt að Reykjavík muni nýta sér slíka gagnaöflun í framtíðinni. Þá beitir Amsterdamborg þá sem brjóta reglurnar háum sektum og lokar jafnvel húsnæði.

Á Íslandi er aðeins heimilt að reka heimagistingu í íbúðarhúsnæði, að undangenginni skráningu, í skilgreindum íbúðahverfum í 90 daga á ári eða upp að ákveðnu tekjuhámarki sem miðast við ca. tvær milljónir króna. 

Með í för með formanni borgarráðs er samninganefnd Reykjavíkurborgar við Airbnb sem er skipuð Helgu Björk Laxdal, Ebbu Schram og Hrólfi Jónssyni ásamt ráðgjafa nefndarinnar,Tómasi Hrafni Sveinssyni hrl.