
Borgarráð samþykkti á fundi sínum í gær að fara í formlegar viðræður um sameiningu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur (HER) og Heilbrigðiseftirlits Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Kópavogs, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness (HEF).
Fulltrúar Reykjavíkurborgar í sameiginlegri viðræðunefnd HER og HEF verða Aðalsteinn Haukur Sverrisson formaður heilbrigðisnefndar, Sandra Hlíf Ocares varaformaður og Tómas G. Gíslason framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur.
Ákvörðun um sameiningu síðar á árinu
Viðræðunefndin á að kanna fýsileika á forsendum mögulegrar sameiningar og skili kostnaðarmetnum tillögum til borgarráðs og bæjarráða aðildarsveitarfélaga HEF eigi síðar en 15. nóvember 2023. Ákvörðun um sameiningu á síðan að liggja fyrir fyrir eigi síðar en 15. desember 2023.
Í greinargerð segir að það séu sterk rök fyrir sameiningu út frá faglegum sjónarmiðum. Samlegðaráhrif yrðu töluverð og tækifæri til staðar sérstaklega þar sem er skörun á málefnum. Þar er nefnt eftirlit með strandlengjunni og vatnsverndarmál.