Víðförull afhjúpaður í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum

Mannlíf Menning og listir

Skeifan er listaverk sem fengið hefur nafnið „Víðförull – í fótspor feðranna“. Það er samansett úr 2.850 notuðum skeifum sem Ísleifur fékk frá hestafólki víða um land.
Vinnustofa, maður situr á gólfi, listaverk úr skeifum í kring.

Nýtt listaverk verður afhjúpað í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum í dag en höfundur listaverksins er fyrrum starfsmaður garðsins, Ísleifur Pádraig Friðriksson. Ísleifur afhjúpar verkið fimmtudaginn 13. júní klukkan 17, í námunda við selalaugina.

Gert úr tæplega þrjú þúsund skeifum

Ísleifur hefur sannarlega ekki setið auðum höndum frá starfslokum. Meðal þess sem hann hefur verið að fást við síðan hann lét af störfum í garðinum á síðasta ári er smíði risastórrar skeifu. Skeifan er listaverk sem fengið hefur nafnið „Víðförull – í fótspor feðranna“. Það er samansett úr 2.850 notuðum skeifum sem Ísleifur fékk frá hestafólki víða um land. Þaðan er nafn verksins tilkomið enda má ætla að skeifurnar hafi farið vítt og breitt um landið undanfarin ár. 

Víðförull mun svo standa uppi í garðinum næstu daga fyrir gesti garðsins til að njóta og áhugasöm eru hvött til að koma í heimsókn og sjá þetta skemmtilega verk.  

Grafa að vinna við að reisa upp listaverk úr skeifum.

Unnið að uppsetningu verksins í Fjölskyldu og húsdýragarðinum.