Viðburði vegna tendrunar Friðarsúlunnar í Viðey aflýst

Frá tendrun Friðarsúlunnar í Viðey
Tendrun Friðarsúlunnar í Viðey

Viðburði vegna tendrunar Friðarsúlunnar í Viðey, mánudaginn 9. október, hefur verið aflýst vegna veðurs.

Venju samkvæmt hefur verið haldin friðsæl athöfn við tendrun Friðarsúlunnar til að heiðra minningu tónlistarmannsins John Lennons. Friðarsúlan er hugarfóstur myndlistarmannsins, tónlistarmannsins og friðarsinnans Yoko Ono og er hugsuð sem leiðarljós fyrir heimsfriði. Ljós Friðarsúlunnar verður eftir sem áður tendrað klukkan 20:00 á mánudagskvöld, á fæðingardegi eiginmanns hennar John Lennons.

Elding sem sér um ferjuferðir út í Viðey segir vindáttina mjög óhagstæða til siglinga yfir sundið og hefur aflýst öllum ferjuferðum í dag og á morgun. Þó veður geti virst ágætt skal öryggi ávallt haft í fyrirrúmi og því er þessi ákvörðun tekin í samráði við þá sem að viðburðinum koma auk viðbragðsaðila.

Þrátt fyrir að viðburðinum sé aflýst þá er tilvalið að fylgjast með tendruninni í beinu streymi á heimasíðu IMAGINE PEACE TOWER  klukkan 20:00 spila Imagine, lag Lennons, og hugsa um frið.

Imagine Peace - Hugsum okkur frið.