Viðburðasvæðið í Hljómskálagarði verður styrkt og byggt upp svo garðurinn verði betur í stakk búinn til að taka á móti mannfjölda á stórum hátíðisdögum í Reykjavík á borð við þjóðhátíðardaginn og menningarnótt. Áætlað er að framkvæmdir hefjist í haust og ljúki í júní 2023. Verkið verður áfangaskipt. Borgarráð samþykkti fyrir helgi að bjóða út framkvæmdirnar en áætlaður kostnaður er 130 milljónir króna.
Þessi tillaga var sérstaklega kynnt í íbúaráði Miðborgar og Hlíða í mars síðastliðnum og fór enn fremur fyrir umhverfis- og heilbrigðisráð í apríl.
Hljómskálagarðurinn hentar mjög vel til viðburðahalds vegna staðsetningar og skjólsældar. Þá eru þar fyrir innviðir eins og leiktæki, vaðlaug og rafmagnstengingar. Svæðið mun áfram henta til dvalar og leikja og verður áfram fyrst og fremst almenningsgarður þrátt fyrir undirbyggingu fyrir viðburði.
Hvað verður gert á viðburðasvæði?
- Í garðinum verður útbúin álagsþolin viðburðaflöt.
- Skipt verður um jarðveg á svæðinu og lagðar drenlagnir undir grassvæði.
- Við grasflötina verður gert nokkuð stórt upphækkað og undirbyggt svæði fyrir svið.
- Akstursleið fyrir þjónustubíla inn á svæðið verður styrkt.
- Gróður verður grisjaður og beð stækkuð.
- Sett verður upp lýsing á svæðinu.
- Aðstaða fyrir matarvagna verður á aðliggjandi svæði.
Ekki teljandi áhrif á umferð um garðinn eða nágrenni
Framkvæmdasvæðið verður lokað af á meðan framkvæmdum stendur. Ekki er gert ráð fyrir að framkvæmdin hafi teljandi áhrif á umferð um garðinn eða nágrenni hans. Leiðin af brúnni yfir Hringbraut inn í garðinn verður lokuð tímabundið en á meðan verður umferð beint um hjáleið.
Tekið tillit til ólíkra þarfa gesta
Hljómskálagarðurinn hefur þróast í takt við nýjar áherslur og þarfir á hverjum tíma. Garðurinn er ekki óbreytanlegt sögulegt minnismerki en við þróun hans er borin virðing fyrir sögunni og framþróun hans unnin í samhengi við uppbyggingu borgarinnar og þarfir gesta garðsins. Horft er til aðgengis fyrir alla.
Tjörnin er mikilvægur hluti garðsins með búsvæði fugla, lífríki og varpsvæði. Í garðinum er einnig fjölbreyttur gróður og gott stígakerfi sem tengir saman mismunandi svæði hans. Markmiðið er að garðurinn geti uppfyllt ólíkar þarfir gesta sem geti heimsótt garðinn hvort sem er til að njóta næðis, náttúru, hreyfingar eða viðburða. Áfram verður unnið að nýju heildarskipulagi og stefnumörkun fyrir garðinn.