Viðburðapottur Sumarborgarinnar

Menning og listir Mannlíf

""

Borgin okkar auglýsir eftir umsóknum um styrki úr Viðburðapotti Sumarborgarinnar til verkefna og viðburða í miðborg Reykjavíkur í sumar.

Markmið Sumarborgarverkefnisins er að efla og kynna miðborgina sem sjálfstæðan áfangastað og styðja þannig við fyrirtæki; verslun, veitingastaði og aðra þjónustu á svæðinu. Mannlíf og menning verður efld með margvíslegum hætti, svo sem fjölbreyttir viðburðir, endurhönnun borgarrýmis, hreinsun og umhirða.  

Sumarborgin auglýsir eftir umsóknum um styrki til verkefna sem stuðla að samstarfi borgar og aðila í miðborginni og gerir þeim kleift að skipuleggja m.a. viðburði og uppákomur sem hvetja borgarbúa og aðra gesti til að upplifa miðborgina og njóta alls þess sem hún hefur uppá að bjóða.

Helstu skilyrði fyrir styrkveitingu:

  • Verkefnið skal glæða borgina lífi og varpa ljósi á fjölbreytileika miðborgarinnar
  • Verkefnið skal vera samstarfsverkefni hið minnsta tveggja aðila í miðborginni
  • Verkefnið skal fara fram á tímabilinu frá júní 2021 – ágúst 2021
  • Margir fái að njóta

Framkvæmdir tengdar húsnæði, innan- eða utanhúss, verða ekki styrktar, né markaðssetning einstaka reksturs. Ekki eru veittir styrkir vegna Menningarnætur úr þessum potti en bent er á Menninganæturpott Landsbankans.

Hægt er að sækja um styrk að hámarki 500.000 kr.

Skriflega umsókn skal senda sem viðhengi á netfangið midborgin@reykjavik.is og skal sameina umsókn og fylgigögn í eitt pdf-skjal, sé um fleiri en eitt skjal að ræða.

Í umsókn skal koma fram:

  • Nafn umsækjanda, kennitala, netfang og símanúmer
  • Samstarfsaðilar verkefnisins
  • Upphæð sem sótt er um
  • Nákvæm lýsing á verkefni og markmið þess
  • Tímarammi verkefnisins
  • Fjárhagsáætlun verkefnisins

Umsóknarfrestur er til og með 14. apríl 2021.