Viðbrögð við asahláku á morgun

Umhverfi

Starfsmaður Reykjavíkurborgar hreinsar ís og snjó frá niðurfalli.
Verið að brjóta ís við niðurfall

Gert er ráð fyrir asahláku á morgun föstudag í kjölfar hlýnandi veðurs eins og komið hefur fram í fréttum frá Veðurstofu Íslands. Gul viðvörun verður í gildi á föstudag og fram á laugardag um land allt. Eftir langan frostakafla stefnir í að það verði allt að 10 stiga hiti á láglendi með rigningu. Varhugavert ástand getur skapast samhliða þessari asahláku.

Undirbúningur Reykjavíkurborgar

Til að undirbúa götur og stíga fyrir umhleypingar í veðri hefur starfsfólk Reykjavíkurborgar unnið síðustu daga að því að hreinsa í kringum niðurföll á þekktum lágpunktum til að lagnakerfið geti betur tekið á móti vatninu. Nauðsynlegt hefur reynst að saga í gegnum klakann og beita ýmsum verkfærum til að komast að niðurföllunum. Einnig hjálpar til að búið er að flytja mikið magn af snjó í burtu úr þrengri götum eins og til að mynda í vesturhluta borgarinnar. Líka hefur verið unnið að því að sanda gönguleiðir síðustu daga.

Enn fremur verða hverfastöðvar Reykjavíkurborgar með starfsfólk á vakt fram eftir kvöldi á föstudag og á laugardeginum ef þörf verður á. Helsta verkefni þeirra verður að takast á við og koma í veg fyrir vatnssöfnun á götum.

Við hvetjum fólk til að fylgjast vel með sínu nærumhverfi og vera vakandi fyrir aðstæðunum, sem geta breyst hratt. Mikilvægt er að hreinsa frá niðurföllum sé þess einhver kostur til að minnka líkur á að vatn flæði inn í hús.

Fylgst verður með ábendingavef Reykjavíkurborgar um helgina en hægt er að senda inn ábendingar um til dæmis vatnssöfnun á götum.

Húseigendur athugi snjóhengjur og grýlukerti í dag

Í ljósi væntanlegrar hláku vill Reykjavíkurborg einnig koma því á framfæri að það er á ábyrgð húseigenda að tryggja að snjór og grýlukerti, sem fallið geta niður, séu fjarlægð af húsi. Mikilvægt er að huga að þessu í dag en ástæðan er sú að við þessar erfiðu veðuraðstæður geti vegfarendum stafað hætta af þegar snjór og ís fellur niður.

Niðurföll í Borgarvefsjá

Niðurföll í Reykjavík hafa verið kortlögð að hluta til. Þau sem eru skráð sjást ef kveikt er á fráveitu í Borgarvefsjá (merkt N).