„Við viljum að fólk finni að það er velkomið til Íslands“

Velferð

""

Fer Beniamin Alin er „sendiherra“ fyrir samfélag Rúmena og hefur það hlutverk að miðla mikilvægum upplýsingum til Rúmena sem búa í Reykjavík og taka við óskum þeirra og ábendingum. Hann sagði frá þessu hlutverki á velferðarkaffi, opnum fundi velferðarráðs, í morgun. 

Á þjónustumiðstöðvum í öllum hverfum Reykjavíkurborgar eru fjölmörg verkefni í gangi sem hafa það að markmiði að auðvelda fjölskyldum sem flytja hingað til lands að aðlagast á nýjum slóðum. Eitt þeirra er sendiherraverkefnið í Breiðholti. Þar hafa fulltrúar ólíkra samfélaga fólks af erlendum uppruna það hlutverk að miðla upplýsingum til síns samfélagshóps. Þeir koma einnig óskum og skoðunum fólks sem tilheyra hópnum á framfæri við borgina. Þannig nýtast þær upplýsingar með beinum hætti til að þróa þjónustuna frekar. 

Fer Beniamin Alin er sendiherra fyrir samfélag Rúmena á Íslandi en hann hefur búið hér á landi í sautján ár, frá upphafi í Breiðholtinu. Hann lýsti því að sjálfur hafi hann verið heppinn þegar hann kom hingað til lands, því fljótlega hafi hann kynnst íslenskri konu sem leiðbeindi honum um kerfið og benti honum á þá þjónustu sem hann hafði rétt á. Ekki séu allir sem hingað koma eins heppnir og því geti tengiliðir á borð við sendiherrana gegnt mikilvægu hlutverki. „Mér fannst strax spennandi að vera tengiliður við Rúmena á Íslandi af því á síðustu þremur til fimm árum hefur rúmenska samfélagið stækkað gríðarlega mikið. Fyrir tíu til fimmtán árum vorum við um 200 til 300 manns en núna erum við um það bil 1.500.“ 

Að undanförnu hafi verið gert átak í að koma upplýsingum til Rúmena hér á landi, bæði í gegnum sendiherraverkefnið og eins í gegnum nýstofnað Félag Rúmena á Norðurlöndum. Hann segir verkefnin ganga vel og að mikilvægum upplýsingum hafi verið komið til margra fjölskyldna og einstaklinga sem hafi nýst þeim vel. „Við reynum að upplýsa fólk og svörum alls konar spurningum. Við viljum að fólki líði vel og finni að það er velkomið til Íslands,“ sagði hann meðal annars. 

Á fundinum fór Óskar Dýrmundur Ólafsson, framkvæmdastjóri Þjónustumiðstöðvar Breiðholts, vítt og breitt yfir sviðið og sagði frá ólíkum verkefnum sem hafa það að markmiði að mæta fólki af erlendum uppruna þar sem það er statt. Á fundinum var einnig sagt frá Velkomin-verkefninu sem hefur verið innleitt í öll hverfi Reykjavíkur. Verkefnastjórarnir Trausti Jónsson frá Þjónustumiðstöð Árbæjar og Grafarholts og Sigríður Arndís Jóhannsdóttir frá Þjónustumiðstöð Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða sögðu frá stöðu verkefnisins á þeirra starfssvæði.

Hægt er að hlusta á erindi allra sem fram komu á fundinum á Facebook-síðu velferðarsviðs en hann var sendur út í beinu streymi.