No translated content text
Vetrarhlé stendur yfir á framkvæmdum umhverfis Hlemm eða annars vegar á Rauðarárstíg norður og hins vegar frá Hlemmi að Snorrabraut.
Verkin hafa gengið vel og er vinnu við fráveitu og vatnsveitu að mestu lokið í Rauðarárstíg og búið að fylla aftur upp í skurði, næstu verkliðir þar eru lagning hitaveitu og rafmagns. Stefnt er að því hefja vinnu aftur við Rauðarárstíg um mánaðamót febrúar og mars.
Laugavegur frá Mathöll að Snorrabraut
Við Laugaveg er lagningu fráveitu að mestu lokið, einnig er búið er að steypa undirstöður fyrir stálstrúktúr um miðbik götunnar. Næstu verkliðir þar eru lagning hitaveitu og rafmagns. Við Laugaveg er stefnt á að hefja vinnu aftur í byrjun apríl.
Stálstrúktúrinn tengist blágrænum ofanvatnslausnum á svæðinu en þeim er ætlað er að létta á veitukerfi borgarinnar. Regnvatnið mun nýtast í gróðurbeðunum og minnka álag á veitukerfið á svæðinu. Þannig nýtist regnvatnið og verkefnið verður sjálfbært.
Edda Ívarsdóttir borgarhönnuður segir að Hlemmtorgið kallist á við Lækjartorg. „Það stendur svo til að koma upp sviði á Hlemmtorgi og við gerum ráð fyrir að Hlemmur geti orðið upphafsstaður skrúðganga í miðbænum sem myndu svo enda á Lækjartorgi, Austurvelli eða Ingólfstorgi,“ segir Edda.
Sennilega verður hægt að ráðast í framkvæmdir á sjálfu Hlemmtorgi árið 2024 en framkvæmdum mun endanlega ljúka þegar Borgarlínan rennur í gegnum svæðið.
Hægt er að kynna sér málið betur hér á upplýsingasíðunni Hlemmur.
Nýlega birtist frétt um framkvæmdirnar á visir.is: Síðasti bíllinn hefur ekið Laugaveg milli Hlemms og Snorrabrautar.