Vetrarhátíð sett í kvöld

Austurvöllur í ljósadýrð á Vetrarhátíð. Ljósmynd Ragnar Th. Sigurðsson

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri mun setja Vetrarhátíð í kvöld 2. febrúar kl 19:00 á torginu fyrir framan Hallgrímskirkju. Ljósaslóð Vetrarhátíðar er glæsileg í ár en alls lýsa 23 ljóslistaverk upp skammdegið á skapandi hátt og mynda skemmtilega gönguleið frá Hallgrímskirkju niður Skólavörðustíg og niður á Austurvöll.

Fuser á Hallgrímskirkju

Metfjöldi ljóslistaverka verða á Vetrarhátíð í ár og taka margir þekktir listamenn þátt í ár. Ljóslistaverkið sem varpað verður á Hallgrímskirkju heitir Fuser og er eftir listamanninn Sigurð Guðjónsson.

Sigurður Guðjónsson er þekktastur fyrir magnþrungin tímatengd verk sem rannsaka manngerðar vélar og tækniminjar, í tengslum við eðlislæga þætti þeirra og sameinar mynd og hljóð með áhrifamiklum hætti. Sigurður Guðjónsson var fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum 2022. Hann hlaut Íslensku myndlistarverðlaunin 2018 og hafa verk hans hafa verið sýnd á fjölmörgum einka og samsýningum bæði hérlendi og erlendis.

Snúrusúpa – Myndlistarsýning

Í Ráðhúsi Reykjavíkur verður boðið upp á myndlistarsýninguna Snúrusúpa. Rafmagnið flæðir um allt: innan í okkur, um tækin sem eru framlenging okkar, undir fótum okkar, yfir höfðum okkar, um dýrin og plönturnar; í leiðslum, snúrum, taugum, köplum, strengjum. Listamenn sem standa að sýningunni eru: Andri Björgvinsson, Atli Bollason, Hákon Bragason, Patricia Carolina, Sean Patrick O’Brien, Una Sigtryggsdóttir, Þorsteinn Eyfjörð.

Á Göflum

Þrjú stutt ljóð sýnd á veggjum á Skólavörðustíg, Bankastræti og Austurstræti. Ljóðin fjalla um íslenskar þjóðsögur og nóttina. Fríða Ísberg er rithöfundur og skáld og hefur gefið út fjölda bóka.

Upplausn 3

Verk eftir Hrafnkel Sigurðsson, listamann, en Í list sinni teflir hann gjarnan saman myndum af náttúrunni og hinu manngerða sem spennuþrungnum andstæðum. Verk Hrafnkels eru þekkt langt út fyrir landsteinana og eru í eigu safna bæði í Evrópu og Bandaríkjunum.

Hæðir og lægðir. Upp og niður.

Verk eftir Þórdísi Erlu Zoëga en í verkum sínum vinnur hún með tengsl okkar við hinn stafræna heim ásamt stefnum og rútínum okkar í margvíslegum miðlum. Verk Þórdísar hafa verið sýnd bæði hér heima og erlendis og var hún útnefnd bæjarlistamaður Seltjarnarness 2022.

Öll velkomin og munum að klæða okkur eftir veðri.

Allar nánari upplýsingar um ljósaslóðina má nálgast á vetrarhatid.is