No translated content text
Þróunarverkefni í Víkurskóla, Háteigsskóla og Laugarnesskóla hlutu Hvatningarverðlaun skóla- og og frístundaráðs Reykjavíkur 2023 sem veitt voru fyrir skóla- og frístundastarf á Öskudagsrástefnunni í dag.
Um 350 þátttakendur voru á ráðstefnunni þetta árið en að auki fylgdust margir með í beinu streymi.
Áhersla á orðaforða og hugtakaskilning
Til viðbótar við hvatningarverðlaunin fengu Fellaskóli, leikskólinn Holt, leikskólinn Ösp og frístundaheimilið Vinafell viðurkenningu fyrir samstarfsverkefnið Málþroski og læsi í Fellahverfi. Markmið verkefnisins er að auka orðaforða og hugtakaskilning barna með sérstaka áherslu á málþroska, framburð og hljóðkerfisþætti, sem leggja góðan grunn að læsi og framtíðarnámi barna.
Bjuggu til barnaefni um hinseginleikann
Víkurskóli hlaut hvatningarverðlaun fyrir verkefnið Regnboginn þar sem markmiðið er að læra um hinseginleikann og skilja mikilvægi þess að bera virðingu fyrir öllu fólki. Í því felst að fræðast um réttindabaráttu hinsegin fólks og að búa til barnaefni sem sýnir fram á hinseginleikann og hvernig hægt er að auka við flóru hinsegin barnaefnis. Í umsögn dómnefndar segir meðal annars að það sem greinir verkefnið frá öðrum sambærilegum er að til verði afurð sem er barnaefni. Þannig gangi verkefnið lengra en þarf til að fá regnbogavottun og sé sannarlega öðrum til eftirbreytni.
Efla tillfinninga-, samskipta- og sjálfsþekkingargreind
Háteigsskóli hlaut hvatningarverðlaun fyrir verkefnið Menntun hugar og hjarta – nemandinn sem manneskja. Í verkefninu er unnið markvisst að því að efla sterka tilfinninga-, samskipta- og sjálfsþekkingargreind. Áhersla er á að nemandinn þekki sjálfan sig sem manneskju og uppskeri þannig sterkari sjálfsmynd og aukna sjálfstiltrú. Í 7. – 10. bekk eru þrjár til fimm stundir í viku settar til að vinna að þróunarverkefninu. Í umsögn dómnefndar mikilvægt að fá börnin til að horfa inn á við og takast á við brýna áskoranir í unglingahópnum í dag. Að hafa fasta tíma fyrir lífsleikni sem þessa sé í takt við bæði farsældarlög og menntastefnuna.
Verkefni sem ýtir undir lýðræðisþjálfun
Laugarnesskóli hlaut hvatningarverðlaun fyrir verkefnið Lista- og menningarráð Laugarnesskóla. Í verkefninu felst að lista og menningarráð sem samanstendur af tíu nemendum úr 2. - 6. bekk, tveimur úr hverjum árgangi. Hlutverk þeirra er kynna sér og stinga upp á list og menningarviðburðum innan og utan skólans, taka á móti listafólki sem kemur í skólann, sýna þeim aðstöðuna, bjóða uppá kaffi o.þ.h., sjá um kynningu á viðburðum sem koma í skólann og aðstoða við alls undirbúning þeirra. Í umsögn um verkefnið segir meðal annars að verkefnið sé lýðræðisþjálfun fyrir börn og gefur þeim færi sem eru sterk í því að koma fram að nýta þá eiginleika snemma og sé öðrum skólum til eftirbreytni í þeim efnum.
Myndverk í verðlaun
Verkefnin sem hljóta verðlaun fá annað árið í röð myndverk eftir Einar Baldursson listamann á Sólheimum. Dómnefnd ákvað einnig að veita viðurkenninu fyrir eitt samstarfsverkefni. Verkefnin sem eru verðlaunuð hafa beina skírskotun í menntastefnu Reykjavíkurborgar og tengjast grundvallarþáttum hennar og leiðarljósum.