Verkefni forsætisnefndar breytast og til verða tvö ný ráð

Einar Þorsteinsson, formaður borgarráðs sat sinn fyrsta borgarstjórnarfund sem borgarstjóri í fjarveru Dags B. Eggertssonar. Við hlið hans er Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, forseti borgarstjórnar.
Einar Þorsteinsson og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir.

Breytingar voru samþykktar á ráðum og nefndum á fundi borgarstjórnar í gær. Forsætisnefnd fær breytt hlutverk og til verða mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð og stafrænt ráð.  

Hlutverk forsætisnefndar breytist með því að málaflokkar atvinnumála, nýsköpunar og ferðaþjónustu fara undir nefndina. 

Í tillögunni sem samþykkt var í borgarráði í gær segir að atvinnumál, nýsköpun og ferðaþjónusta séu málaflokkar sem eiga margt sameiginlegt með núverandi verkefnum forsætisnefndar og munu stuðla að því að efla störf nefndarinnar og skerpa það hlutverk sem nefndin hefur nú þegar varðandi alþjóðleg samskipti borgarstjórnar.  

Í forsætisnefnd sitja; 

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Einar Þorsteinsson, Líf Magneudóttir, Sabine Leskopf og Marta Guðjónsdóttir og varamenn eru þau Gísli S. Brynjólfsson, Hildur Björnsdóttir, Pawel Bartoszek, Skúli Helgason og Stefán Pálsson. 

Mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð  

Borgarstjórn samþykkti að sameina málaflokk mannréttinda og ofbeldisvarna í nýju mannréttinda- og ofbeldisvarnarráði sem tekur við hlutverki ofbeldisvarnarnefndar. Ráðið starfar í samráði við mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu og kemur það í stað gildandi samþykkta mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs og ofbeldisvarnarnefndar.  

Ráðið mun funda sérstaklega um ofbeldisvarnarmál og byggja á grunni þess starfs sem ofbeldisvarnarnefnd hefur unnið að á síðustu árum.  

Mannréttinda- og ofbeldisráð skipa;

Magnús Davíð Norðdahl sem fer með formennsku, Árelía Eydís Guðmundsdóttir Sabine Leskopf, Þorvaldur Daníelsson, Friðjón R. Friðjónsson, Helga Þórðardóttir og Trausti Breiðfjörð Magnússon. Varamenn eru Rannveig Ernudóttir, Unnur Þöll Benediktsdóttir, Ellen Calmon, Ásta Björg Jóhannsdóttir, Sandra Hlíf Ocares, Kolbrún Baldursdóttir og Sanna Magdalena Mörtudóttir. 

Stafrænt ráð Reykjavíkurborgar 

Nýtt stafrænt ráð Reykjavíkurborgar mun fjalla um stafræna umbreytingu, þjónustu, lýðræðis- og gagnsæismál auk samfélagslegrar og opinberrar nýsköpunar.  

Ráðið mun fara með málefni stafrænnar vegferðar, lýðræðis, gagnsæis og þann hluta nýsköpunar sem snýr að samfélagsinnviðum og sem á sér stað innan borgarkerfisins. Ráðið mun að sama skapi fara með önnur verkefni sem snúa að gagna-, skjala- og upplýsingastýringu, langtímavarðveislu gagna og umbótum í þjónustuveitingu gagnvart íbúum, fyrirtækjum og stofnunum, ásamt því að stuðla að betri samræmingu í framlínuþjónustu þvert á svið.  

Stafrænt ráð skipa;

Alexandra Briem sem fer með formennsku, Kristinn Jón Ólafsson, Skúli Helgason, Aðalsteinn Haukur Sverrisson, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, Friðjón R. Friðjónsson og Andrea Helgadóttir en varamenn eru Elísabet Guðrúnar og Jónsdóttir, Rannveig Ernudóttir, Sara Björg Sigurðardóttir, Ásta Björg Jóhannsdóttir, Jórunn Pála Jónasdóttir, Sandra Hlíf Ocares og Sanna Magdalena Mörtudóttir.