Verið að ryðja húsagötur

Öflug græja við snjóhreinsun í Árbæ í dag.
Snjóruðningstæki að störfum.

Starfsfólk vetrarþjónustunnar okkar heldur áfram að vinna við að hreinsa götur og stíga borgarinnar af snjó. Unnið er í húsagötum í dag en þær klárast á næstu dögum. Vinnan er ekki auðveld því snjórinn er mjög mikill og þungur, sérstaklega í austurborginni, og hafa vélar jafnvel bilað út af miklu álagi.

1200 km af vegum og 600 km af stígum

Til að átta sig á umfangi verksins er vegakerfið í Reykjavík 1200 km sem verið er að ryðja en það er hátt í allur hringvegurinn. Þar af eru húsagötur 240 km sem er um það bil leiðin á milli Reykjavíkur og Blönduóss.  Í stígakerfinu er verið að snjóhreinsa í kringum 600 km sem er svipað og vegalengdin til Raufarhafnar.

Þökkum þolinmæði og skilning

Mjög margar ábendingar hafa borist vegna snjómoksturs og varða margar þeirra húsagötur sem verið er að vinna í núna og næstu daga. Ekki hefur tekist að að svara þeim öllum en hægt er að treysta því að verið að fara í húsagötur hverja af annarri. Verkið er tafsamt og starfsfólk vetrarþjónustunnar þakkar íbúum kærlega fyrir að sýna þolinmæði og skilning en það leggjast allir á eitt til að láta verkið ganga upp.