Verið að bæta aðgengi á Klambratúni

Umhverfi

""

Fyrirhugað er að bæta stíga á Klambratúni og aðgengi við Kjarvalsstaði. Framkvæmdirnar snúast um að auka aðgengi að nýja útisvæðinu sunnan við Kjarvalsstaði og færa stíga að hluta á svæðinu með það að markmiði að auka aðgengi fyrir alla. Einnig verður aðgengi gangandi vegfarenda að Kjarvalsstöðum bætt. Áætlaður kostnaður er 90 milljónir króna í fyrsta framkvæmdahluta. Verkefnið er hluti af áætlun um flýtingu framkvæmda vegna COVID-19.

Um er að ræða annars vegar framkvæmdir við Kjarvalsstaði sem felast í endurgerð aðkomu við aðalinngang að norðanverðu og gerð skábrautar að vestanverðu. Þá verður einnig komið fyrir skábraut til að tryggja aðgengi fyrir alla að torgsvæði að sunnanverðu.

Hins vegar er um að ræða endurgerð og færslu að hluta á stígum á Klambratúni meðal annars með það að markmiði að tryggja aðgengi fyrir alla. Malarstígur verður malbikaður og annar stígur verður færður til að hluta og malbikaður í takt við „óskastíg“ sem myndast hefur á þessu svæði. Þetta er í samræmi við grunnhönnun garðsins og stefnumörkun frá árinu 2015. Með þessu myndast bæði þægilegri leið á ská í gegnum garðinn og betri tenging við væntanlega biðstöð Strætó við Lönguhlíð.

Áætlað er að framkvæmdum við stíga og bætt aðgengi verði lokið um áramótin. Fyrsti framkvæmdahluti verður unninn í þremur áföngum og er vinna nú þegar hafin við áfanga eitt. Verið er að hanna áframhaldandi rými í garðinum. Nánari lýsingar á framkvæmdunum er að finna í framkvæmdasjá Reykjavíkurborgar.

Margt að gera í garðinum

Klambratún hefur notið mikilla vinsælda í sumar enda er margt hægt að gera þar. Í garðinum eru leiksvæði, dvalarsvæði með bekkjum, ýmsir boltavellir, frisbígolfvölllur og pétanque-völlur. Síðustu ár hefur heilmikið verið framkvæmt í garðinum,  meðal annars á skemmtilegu torgsvæði sunnan við Kjarvalsstaði.

Klambratún er einn stærsti almenningsgarðurinn sem var sérstaklega hannaður sem hluti af aðalskipulagi borgarinnar en hönnun hans hófst upp úr 1960.

Saga garðsins

  • Klambratún var áður hluti af landi þriggja bæja en það voru Háteigur, Sunnuhvoll og Klömbrur.
  • Fyrstu skólagarðar sem starfræktir voru í Reykjavík voru á Klambratúni um miðja 20. öldina.
  • Framkvæmdir við gerð almenningsgarðs á Klambratúni hófust 1964 og var Reynir Vilhjálmsson landslagsarkitekt aðalhönnuður garðsins.
  • Kjarvalsstaðir risu á árunum 1971-1972 en Hannes Kr. Davíðsson arkitekt hannaði bygginguna.
  • Meðal listaverka á Klambratúni eru Rek (1990) eftir Kristin E. Hrafnsson og Reykjavíkurvarðan (1970) eftir Jóhann Eyfells.
  • Klambratún heitir eftir bænum Klömbrum, en bæjarheitið Klambrar er dregið af orðinu „klömbur“ sem merkir „þrengsli“. Klambratún fékk heitið Miklatún haustið 1964 og hélst það heiti þar til 2010 er nafnið Klambratún var aftur tekið í almenna notkun.