Velkomin á Menningarnótt 2023

Frá Menningarnótt 2022
Fólk að njóta á Austurvelli í kvöldsól á Menningarnótt

237 ára afmæli Reykjavíkur verður haldið hátíðlegt á Menningarnótt sem hefst klukkan 12.00 í dag og lýkur með flugeldasýningu klukkan 23.00.

400 viðburðir eru á dagskránni sem íbúar, listamenn, veitinga- og verslunareigendur auk menningarstofnana bjóða upp á.

Setning Menningarnætur

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri mun formlega setja Menningarnótt á Kjarvalsstöðum klukkan 12 á hádegi. Að lokinni setningu munu Langi Seli og skuggarnir flytja nokkur lög. Að því loknu opnar myndlistarsýningin Myndlistin okkar, en þar gefur að líta uppáhalds listaverk fólks sem tók þátt í kosningu um verk á sýninguna á vefnum Betri Reykjavík.

Hátíðarsvæði Menningarnætur

Í samráði við Lögregluna á Höfuðborgarsvæðinu verður hluti miðborgarinnar ekki ætlaður akandi umferð til að tryggja öryggi gesta Menningarnætur.

Kort af hátíðarsvæðinu sýnir það svæði sem verður lokað fyrir akandi umferð. Engar undantekningar verða gerðar. Lokanir taka gildi frá kl. 07.00 að morgni laugardagsins 19. ágúst og standa til kl. 01.00 eftir miðnætti.

Gestir eru hvattir til að koma fótgangandi eða hjólandi í miðborgina. Þeir sem kjósa að koma á bíl er bent á að bílastæði eru af skornum skammti, en tilvalið er að leggja bílum í Laugardal eða Borgartúni og taka skutlu frítt inn á hátíðarsvæðið.

Tíðar almenningssamgöngur 

Strætó mun ganga og verður aukin tíðni ferða. Borga þarf almennt fargjald í strætó. Sjá þjónustu strætó á Menningarnótt

Klukkan 22.30 mun leiðakerfi strætó verða rofið og allir strætisvagnar koma að Sólfarinu á Sæbraut til að ferja gesti heim. Frítt er í strætó frá klukkan 22.30 til 01.00.

Næsturstrætó hefur svo göngu sína klukkan 01.00 og þá er næturgjald.

Góða skemmtun.