Velkomin á Menningarnótt 2022

Mannlíf Menning og listir

Gestir Menninharnætur 2012 fyrir framan sviðið við Arnarhól.

236 ára afmæli Reykjavíkur verður haldið hátíðlegt á Menningarnótt sem hefst klukkan 13.00 í dag og stendur til 23.00. Dagskráin er afar fjölbreytt í ár og má búast við fjölmenni í miðborg Reykjavíkur.

Setning Menningarnætur

Menningarnótt verður sett við Hörpu klukkan 13.00 í dag. Einar Þorsteinsson, starfandi borgarstjóri, mun setja hátíðina formlega en þetta er í tuttugasta og sjöunda sinn sem hún er haldin. Jón Jónsson tónlistarmaður mun flytja nokkur lög og loftfimleikafólk mun sýna listir sínar.

Dagurinn hófst með Reykjavíkurmaraþoni líkt og hefð er fyrir og hafa fleiri en 8000 hlauparar skráð sig til þátttöku í ár. Einar Þorsteinsson, starfandi borgarstjóri ræsti hlaupara í hálfmaraþoni og maraþoni í morgun og hljóp svo sjálfur ásamt eiginkonu sinni í 10 km hlaupinu. Mikil stemning var meðal þátttakenda sem safna fé fyrir góð málefni og hefur áheitasöfnun gengið sérlega vel í ár. Nánar inn á https://www.rmi.is/

Fjölbreytt dagskrá

Dagskráin í ár er sérstaklega fjölbreytt og menningarleg allt frá stórtónleikum til opins húss í Hússtjórnarskólanum, alls konar tónlistaratriða um allan bæ, uppákomum og listsýningum.

Í Ráðhúsi Reykjavíkur er sérstök menningar- og fræðsludagskrá til heiðurs Úkraínu og hefur Support Ukraine Iceland haft veg og vanda af skipulagningu hennar.

Tónlistin skipar stóran sess líkt og fyrri ár. Tónaflóð Rásar 2 verður á Arnarhóli og svo tónlistarveisla Bylgjunnar í Hljómskálagarðinum. Karnivalið hans DJ Margeirs sér svo um stuðið við Klapparstíg. Tónleikastaðir verða með tónleika auk þess sem veitingastaðir, kirkjur, verslanir, og meira að segja Héraðsdómur Reykjavíkur hafa farið í sparifötin og bjóða til veislu.

Götubitinn verður á Miðbakkanum þar sem 20 matarvagnar verða á staðnum og bjóða fjölbreytt úrval af gómsætum réttum.

Allar menningarstofnanir Reykjavíkurborgar verða með opið allan daginn og langt fram á kvöld og er ókeypis aðgangur. Menningarnótt lýkur svo með flugeldasýningu sem fylgjast má með frá Arnarhóli og víðar.

Aðgengi og öryggismál

Miðborgin hefur verið lokuð fyrir akandi umferð frá kl. 07:00 í morgun og verður það fram yfir miðnætti svo gangandi vegfarendur geti notið dagskrárinnar. Gestir eru hvattir til að koma fótgangandi eða hjólandi í miðborgina. Það verður frítt í Strætó og munu skutlur ferja fólk frá bílastæðum við Laugardal að Hallgrímskirkju.

Reykjavíkurborg er í samstarfi við rafskútufyrirtækin Hopp og Zolo varðandi notkun rafskútna. Aksturshraði þeirra verður lækkaður á ákveðnum svæðum og komið hefur verið upp sérstökum stæðum utan við hátíðarsvæðið sjálft til að leggja þeim.

Dagskrá: https://menningarnott.is/dagskra

Gleðilega Menningarnótt!