Velferðarráð úthlutar 35 styrkjum fyrir 102 milljónir króna

Velferð

""

Hagsmuna- og grasrótarsamtökum í Reykjavík voru í gær veittir 35 styrkir fyrir 102 milljónir, við úthlutun styrkja velferðarráðs. Þegar tekið er inn í myndina það sem þegar er bundið í þriggja ára samningum er upphæðin 132 milljónir. Alls bárust 68 umsóknir um styrki að upphæð rúmlega 292 milljóna.

Veittir voru almennir styrkir að upphæð 11,2 milljónum króna. Þá verða gerðir þjónustusamningar til eins árs að upphæð 54 milljónum króna og þjónustusamningar til þriggja ára að upphæð 36,5 milljónum króna. Þessu til viðbótar er kostnaður við gildandi þjónustusamninga til þriggja ára 30,6 milljónir á árinu. 

Það var starfshópur um styrkveitingar velferðarsviðs sem fór yfir umsóknirnar og valdi úr þeim eftir matslista um mat umsókna. Hver umsókn var metin til stiga og meðalstigafjöldi gefinna einkunna hafður til hliðsjónar við úthlutun styrkja. Hópinn skipaði þau Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður velferðarráðs, Regína Ásvaldsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs og Egill Þór Jónsson sem situr í velferðarráði. 

Heiða Björg segir afar mikilvægt að Reykjavíkurborg eigi í farsælu sambandi og stöðugu samtali við hagsmuna- og grasrótarsamtök í borginni. „Innan þeirra raða á sér oft stað mikilvægt frumkvöðlastarf sem nýtist vel við að styrkja og þróa velferðarþjónustu í borginni. Við vitum að styrkirnir sem nú var úthlutað verða nýttir í mikilvæg verkefni. Í hópi þeirra sem fá styrk eru félagasamtök sem löngu hafa sannað gildi sitt og önnur nýrri sem við höfum miklar væntingar til og hlökkum til að eiga í samstarfi við,“ segir hún. 

Hæsta almenna styrkinn í ár fær Vernd, fangahjálp, eða tvær milljónir króna. Hæsta þjónustusamninginn til eins árs fær Samhjálp fyrir rekstur kaffistofu sinnar, eða tíu milljónir króna. Hæsta þjónustusamninginn til þriggja ára fær SÁÁ, eða 20 milljónir króna. 

Hjálpræðisherinn er einn þeirra samtaka sem fengið hafa styrki til góðra verka í gegnum tíðina. Í ár fær Hjálpræðisherinn einn almennan styrk að upphæð 500 þúsund krónur til verkefnisins „Sumarfríið“ sem er samstarfsverkefni Hjálpræðishersins og Hjálparstarfs kirkjunnar. Þá fær hann tvo þjónustusamninga til eins árs, annars vegar vegna nýs verkefnis sem kallað er Smiðjan og hins vegar vegna verkefnisins Opið hús fyrir jaðarsetta. Hvor samningur hljóðar upp á þrjár milljónir króna. Hjördís Kristinsdóttir, svæðisforingi Hjálpræðishersins á Íslandi, segir styrkina styðja við það markmið að hjálpa fólki að koma sér út úr fíkniaðstæðum. „Þegar þú hættir að nota vímuefni þarftu að fylla líf þitt með öðrum hætti, það þarf alltaf eitthvað annað að koma í staðinn. Með þessum verkefnum erum við að reyna að skapa fleiri leiðir til þess að gera það með jákvæðum hætti. Við viljum skapa vettvang þar sem fólk getur fengið félagsskap, verið virkt og átt áhugaverðan frítíma án vímuefna. Í Smiðjunni sjáum við meðal annars fyrir okkur að fólk geti skapað ýmiss konar handverk, búið til nýja hluti úr gömlum, saumað og þar fram eftir götunum. En starfið er opið í báða enda og uppbygging þess veltur að sjálfsögðu á því hvað fólkið sjálft vill gera.“

Eftirfarandi samtök og verkefni fengu almennan styrk:

Allir hjóla, félagasamtök – 300.000 krónur.

Einhverfusamtökin. Fræðsla um einhverfu til skóla, starfsendurhæfinga og almennings. 1.000.000 kr. 

Gigtarfélag Íslands. Ráðgjöf, félagstarf, valdefling og stuðningur við gigtarfólk og aðra með annan stoðkerfisvanda í Reykjavík. 1.000.000. kr. 

Hjálparstarf kirkjunnar. Sumarfrí innanlands. 500.000 kr.

Hjálparstarf kirkjunnar. Taupokar með tilgang. 800.000 kr.

Hjálpræðisherinn á Íslandi. Samvera og góðar minningar – sumarbúðir fyrir fjölskyldur. 500.000 kr. 

Höndin. Stuðningur við skjólstæðinga Handarinnar í Covid-19 faraldri. 300.000 kr.

Íþróttafélag Reykjavíkur. Tinna –sjóður ÍR. 300.000 kr.

Kvennaráðgjöfin. Lögfræði- og félagsráðgjöf í Kvennaráðgjöfinni og lögfræðiviðtöl fyrir brotaþola í Bjarkarhlíð. 100.000 kr.

Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur. Aðstoð við bágstadda. 1.000.000 kr. 

Samband íslenskra Kristniboðsfélaga. Íslenskukennsla fyrir útlendinga. 400.000 kr.

Samvera og súpa, félagasamtök. Samvera og súpa. 300.000 kr.

Sorgarmiðstöð, félagasamtök. Stuðningur við erlenda syrgjendur á Íslandi. 1.000.000 kr.

Sorgarmiðstöð, félagasamtök. Stuðningur við syrgjendur á Íslandi. 800.000 kr. 

Trans Ísland, félag transgender. Talað um Trans – handbók um hugtök og orðræðu. 200.000 kr.

Vernd, fangahjálp. Brú yfir í virkni. 2.000.000 kr. 

Vinaskákfélagið. Skákiðkun. 200.000 kr.

Vímulaus æska – Foreldrahús. Námskeið fyrir foreldra/forsjáraðila í Foreldrahúsi. 500.000 kr. 

Eftirfarandi verkefni fengu þjónustusamning til eins árs: 

Afstaða til ábyrgðar. Þjónustusamningur við Afstöðu. 3.500.000 kr.

ADHD samtökin. Ráðgjöf og stuðningur við fólk með ADHD. 2.000.000 kr. 

Bergið Headspace – félagasamtök. Bergið Headspace. 3.500.000 kr.

Blindrafélagið. Stuðningur til sjálfstæðis. 5.000.000 kr.

EAPN á Íslandi, samtök gegn fátækt. Samfélagshús – miðstöð fólks í fátækt. 3.000.000 kr.

Félag heyrnarlausra. Þjónusta við heyrnarlausa íbúa Reykjavíkur. 4.000.000 kr.

Hjálpræðisherinn á Íslandi. Opið hús fyrir jaðarsetta. 3.000.000 kr.

Hjálpræðisherinn á Íslandi. Smiðjan. 3.000.000 kr.

Hugarafl. Endurhæfing – valdefling. 5.500.000 kr.

MS-félag Íslands. Ráðgjafarþjónusta. 2.000.000 kr.

Rauði krossinn í Reykjavík. Frú Ragnheiður – skaðaminnkun. 3.500.000 kr.

Rauði krossinn í Reykjavík. Heimsóknarvinir Rauða krossins. 1.500.000 kr.

Samhjálp, félagasamtök. Rekstur Kaffistofu Samhjálpar. 10.000.000 kr.

Vímulaus æska – Foreldrahús. Fjölskylduráðgjöf. 4.500.000 kr.

Þessi verkefni fá þjónustusamningar til þriggja ára:

Samtök um kvennaathvarf. Rekstur Kvennaathvarfs. 12.500.000 kr.

SÁÁ fjölskylduþjónusta. Samningur á grundvelli styrkveitingar. 20.000.000 kr.

Sjónarhóll – ráðgjafarmiðstöð. Ráðgjöf til foreldra barna með sérþarfir. 4.000.000 kr.