No translated content text
Fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2019 og fimm ára áætlun til 2023 var samþykkt á fundi borgarstjórnar í kvöld.
Í samþykktum breytingartillögum milli umræðna eru m.a. sumaropnanir leikskóla, áframhaldandi gjaldfrjáls námsgögn í grunnskólum, fjölgun NPA samninga, lengdur opnunartími Ylstrandarinnar í Nauthólsvík og aukin áhersla á snjalltækni í samgöngum. Þá var samþykkt að auka framlög vegna móttöku barna af erlendum uppruna og íslenskukennslu. Einnig var samþykkt að barnafjölskyldur greiði einungis námsgjald fyrir eitt barn, þvert á skólastig. Aukin framlög vegna hreinsunar borgarlandsins voru samþykkt en þeim er ætlað að minnka svifryk og gera borgina snyrtilegri.
Í breytingatillögu við fimm ára áætlun er gert ráð fyrir lækkun fasteignagjalda á atvinnuhúsnæði frá og með árinu 2021 en í samstarfssáttmála Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna er kveðið á um að fasteignagjöld á atvinnuhúsnæði lækki úr 1,65 í 1,60 fyrir lok kjörtímabilsins. Lækkunin verður gerð í tveimur skrefum. Á árinu 2021 lækkar hlutfall fasteignagjalda á atvinnuhúsnæði í 1,63 og lækka þá tekjur ársins um 206 milljónir króna. Á árinu 2022 mun skatthlutfallið lækka í 1,60 og munu tekjur borgarinnar vegna þess lækka um 552 mkr. og tekjur ársins 2023 um 592 mkr. Fasteignagjöld á íbúðarhúsnæði voru lækkuð á síðasta kjörtímabili.
Mikil áhersla er lögð á græn verkefni í fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2019 og fimm ára áætlun en þar er gert ráð fyrir fjármögnun Borgarlínunnar upp á fimm milljarða króna.
Stærstu grænu verkefnin á næsta ári eru lagning hjólastíga fyrir 450 milljónir króna á ári, samgönguás Borgarlínu fyrir 200 milljónir króna og endurnýjun gönguleiða í eldri hverfum fyrir 300 mkr. Þá heldur malbiksátak borgarinnar áfram, fleiri hleðslustöðvar fyrir rafbíla verða settar upp og aðstaða hjólreiðafólks í borginni bætt með hjólaskýlum og hjólastöndum. Að auki er hugað að umferðaröryggismálum en 150 mkr. fara til þess verkefnis.
Einnig er gert ráð fyrir að Laugavegi verði breytt í göngugötu og fleiri götur í miðborginni verða gerðar upp sem vistgötur auk þess sem ný torg eru að verða til, Bæjartorg, Steinbryggjan og Naustatorg. Þá verður aðstaða í Fjölskyldu og húsdýragarðinum bætt.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir að stóra myndin í rekstri borgarinnar sé afar jákvæð. Þjónusta við íbúa verði í forgrunni eins og áður og stefnufesta og skýr framtíðarsýn einkenni stjórn borgarinnar.
„Við erum að bæta aðeins við ýmis mikilvæg verkefni milli umræðna. Stóru málin eru samt húsnæðismálin þar sem nýjar íbúðir eru að rísa út um allt. Árið í ár er okkar stærsta í húsnæðisuppbyggingu frá upphafi en aldrei áður hafa eins margar íbúðir verið í byggingu í Reykjavík. Á sama tíma sjáum við Borgarlínuna færast nær okkur og raungerast í áætlun upp á fimm milljarða króna á næstu árum. Fjárfestingar í innviðum hafa heldur aldrei verið meiri en ný hverfi með nýjum götum eru að rísa ásamt nýjum íþróttamannvirkjum í austurhluta borgarinnar fyrir krakkana og unga fólkið okkar. Þá er sett fjármagn í nýja leik- og grunnskóla til að mæta barnafjöldanum þegar við brúum bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla,” segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.
Formaður borgarráðs, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, sem einnig fer fyrir fjármálahópi borgarinnar, tekur í sama streng.
„Ég fagna mjög þeirri góðu og öguðu vinnu sem liggur að baki fjárhagsáætlun og fimm ára áætlun Reykjavíkurborgar. Ráðist var í þverpólitíska vinnu þar sem mögulegar sviðsmyndir næstu ára voru greindar. Þannig aukum við skilning á því sem getur átt sér stað í ytra umhverfi borgarinnar og afleiðingum þess fyrir rekstur og efnahag borgarinnar. Niðurstaðan er sú að við erum mun betur undirbúin fyrir óvissu framtíðarinnar en ella.
Svo er það lækkun fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði sem er mér auðvitað sérstak fagnaðarefni. Fjölbreytt atvinnulíf er ein af forsendum þess að borgin okkar blómstri og laði til sín fólk og þess vegna viljum við létta á byrðum fyrirtækja í borginni – ekki síst þeirra litlu og meðalstóru sem eru vel yfir 95% allra fyrirtækja,” segir Þórdís Lóa Þórhallsdóttir formaður borgarráðs.
Þrátt fyrir mörg og stór verkefni Reykjavíkurborgar gerir fjárhagsáætlun 2019 engu að síður ráð fyrir góðum afgangi af rekstrinum og að niðurstaðan verði jákvæð um 3,6 milljarða króna.
Fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2019