Vel sóttur fundur um notendasamráð | Reykjavíkurborg

Vel sóttur fundur um notendasamráð

þriðjudagur, 30. október 2018

Mannréttinda- og lýðræðisráð Reykjavíkurborgar og mannréttindindaskrifstofa Reykjavíkurborgar stóðu að fundi um notendasamráð með fötluðu fólki á Grand Hótel í gær. Tilefni fundarins var breytingar á lögum um félagsþjónustu. Fundurinn var vel sóttur.

  • Fjöldi fólks mættu á fundinn og tóku þátt í umræðum um þetta brýna málefni
    Fjöldi fólks mættu á fundinn og tóku þátt í umræðum um þetta brýna málefni

Lagabreytingarnar sem voru til umfjöllunar fela í sér auknar skyldur fyrir Reykjavíkurborg um samráð við notendur um framkvæmd þjónustu fyrir fatlað fólk.

Helstu umfjöllunarefni fundarins voru:

Hvernig er samráði við notendur þjónustu fyrir fatlað fólk í Reykjavík best háttað? Hvaða breytingar boða ný lög á notendasamráði í Reykjavík? Hvað er mikilvægast að hafa í huga við framkvæmd notendasamráðs?

Flutt voru þrjú erindi. Sigurjón Unnar Sveinsson frá Öryrkjabandalagi Íslands fjallaði um samráðsskyldu samkvæmt Samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Rúnar Björn Herrera Þorkelsson, formaður málefnahóps um sjálfstætt líf hjá ÖBÍ, var með erindi um hvað væri virkt samráð. Þá fjallaði Tómas Ingi Adolfsson frá mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar um starfsemi notendaráðs fatlaðs fólks og ferlinefndar fatlaðs fólks, sem fjallar um aðgengismál í borginni.

Því næst fóru fram umræður á borðum þar sem einn borðstjóri og ritari var á hverju borði. Þar var rætt um hvernig samráðshópur Reykjavíkurborgar um málefni fatlaðs fólks ætti að vera skipulagður út frá breytingu á félagsþjónustulögunum. Einnig fóru fram umræður um hvernig Reykjavíkurborg gæti sem best stuðlað að virku samráði við notendur um þjónustu fyrir fatlað fólk og hvaða leiðir fatlað fólk myndi helst vilja nýta til að hafa áhrif á þjónustu borgarinnar.

Allar ábendingarnar sem fram komu á fundinum verða teknar saman og notaðar til þess að móta nýjan samráðshóp borgarinnar um málefni fatlaðs fólks. Þær verða líka notaðar til þess að móta samráð almennt við fatlað fólk og hvaða leiðir verða farnar til þess að eiga samráð við fatlað fólk um þjónustu borgarinnar.