Vel heppnuð vinnustofa um börn í viðkvæmri stöðu

Mannréttindi Skóli og frístund

Um 120 manns tóku þátt í vinnustofunni og hér má sjá hluta hópsins.
Hópmynd af hluta hóps sem tók þátt í vinnustofu í Valsheimili um börn í viðkvæmri stöðu.

Vesturmiðstöð og lögreglan á höfuðborgarsvæðinu héldu í gær vel heppnaða vinnustofu í Valsheimilinu fyrir fagfólk í uppeldisumhverfi barna og fjölskyldna þar sem málefnið „Börn í viðkvæmri stöðu“ var til umræðu.

Markmiðið með vinnustofunni var að auka líkurnar á farsæld barna með því að efla samvinnu þeirra aðila sem sinna börnum, svo sem skóla, frístundamiðstöðva, barnaverndar, félagsþjónustu, félagasamtaka og annarra stofnana, eins og lögreglu, sýslumanna og heilbrigðiskerfisins. Vinnustofan var hugsuð sérstaklega fyrir þá samstarfsaðila innan Vesturmiðstöðvar sem eiga snertiflöt við börn sem teljast vera í viðkvæmri stöðu vegna ýmiss konar ofbeldis og vanrækslu.

Tengslamyndun og nýting sérfræðiþekkingar

Tilgangur vinnustofunnar var tvíþættur, annars vegar að sérfræðiþekking allra sem taka þátt í henni nýtist til að vinna að farsæld barna í Reykjavík og verklagi um samvinnu vegna barna í viðkvæmri stöðu og hins vegar tengslamyndun til að auðvelda öllum að kynnast og vinna saman eftir verklaginu. Um 120 manns mættu á vinnustofuna en Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, Vesturmiðstöð, Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu, Heilsugæslan og Barnavernd Reykjavíkur, félagsmiðstöðvar, frístundaheimili, frístundamiðstöð, leik-, grunn- og framhaldsskólar á svæðinu hafa unnið að því að þróa samvinnu og samstarf við þau sem gegna lykilhlutverki í lífi barna í viðkvæmri stöðu. Mikill hugur var í fólki, mörg markverð erindi flutt og mikið rætt um verklag og tækifæri til eflingar og þróunar samvinnu og samskipta í kringum málefnið. Fundarstjóri var Guðrún Kaldal, framkvæmdastjóri frístundamiðstöðvarinnar Tjarnarinnar.

Frá vinnustofu í Valsheimili um börn í viðkvæmri stöðu. Glæra sem á stendur Hvað getum við gert? og kona í púlti að ræða efni glærunnar