Vinnusmiðja með unglingum í nemendafélögum grunnskóla og félagsmiðstöðva í Vesturbæ, Miðborg og Hlíðum fór fram í Tjörninni frístundamiðstöð. Fulltrúar frá eftirfarandi skólum og félagsmiðstöðvum tóku þátt: Austurbæjarskóla og félagsmiðstöðinni 100og1, Háteigsskóla og félagsmiðstöðinni 105, Hagaskóla og félagsmiðstöðinni Frosta og Hlíðaskóla og félagsmiðstöðinni Gleðibankanum.
Áhrif unglinga á eigið líf og starf
Fjallað var um hlutverk nemendafélaga, lýðræðislega virkni unglinga í skóla- og frístundastarfi og áhrif þeirra á eigið líf í leik og starfi. Unnið var með aðferðafræði samfélagslegrar nýsköpunar þar sem allir þátttakendur fá rödd og tækifæri til að taka þátt í samtali og samsköpun hugmynda.
Dagskráin skiptist í stutt innlegg, verkefni þar sem kafað er dýpra í viðfangsefnið, leiki og æfingar þar sem unglingar og starfsfólk æfa sig í að hugsa á skapandi og lausnarmiðaðan hátt og setja sig í spor annarra. Að lokum skipulögðu unglingarnir viðburð og ræddu um hvernig þeir geta orðið áhrifavaldar í því að bæta skóla- og frístundabraginn í sínu hverfi.
Unglingarnir sýndu mikla virkni
Mikill kraftur og sköpun einkenndi daginn og framtíðin er björt. „Það var sérstaklega gaman að vera með þeim af því að þau voru svo virk í samtalinu, komu fram svo margar góðar hugmyndir um hvernig er hægt að auka lýðræðislega virkni í skóla- og frístundastarfi,“ segir Helgi Grímsson sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs.
Sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs stýrði smiðjunum ásamt Guðrúnu Kaldal, framkvæmdastjóra frístundamiðstöðvarinnar Tjarnarinnar, Svandísi Egilsdóttur, fagstjóra grunnskóla í Vesturbæ, Miðborg og Hlíðum og Andreu Marel, deildarstjóra unglingastarfs Tjarnarinnar.