Vel heppnaðar vinnumarkaðsaðgerðir

Svanhildur Jónsdóttir stýrði atvinnu- og virknimiðlun Reykjavíkurborgar áður en hún fluttist yfir í Virknihús.
Svanhildur Jónsdóttir, fyrrv. stjórnandi atvinnu- og virknimiðlunar Reykjavíkurborgar. Portrettmynd tekin fyrir utan Ráðhúsið.

262 einstaklingar fengu tímabundin störf í gegnum vinnumarkaðsaðgerðir Reykjavíkurborgar. Af þeim höfðu 104 þegið fjárhagsaðstoð til framfærslu en um 80% þeirra sem fengu fjárhagsaðstoð fyrir úrræðið komu ekki aftur á fjárhagsaðstoð eftir að starfstíma lauk. Þá skiluðu aðgerðirnar 934 viðbótarsumarstörfum fyrir 18 ára og eldri og 400 störfum fyrir 17 ára einstaklinga, síðustu tvö sumur. Þetta kemur fram í lokaskýrslu vinnumarkaðsaðgerða Reykjavíkurborgar í kjölfar Covid-19, sem lögð var fram til kynningar í borgarráði í gær.

Vinnumarkaðsaðgerðirnar voru hluti af viðspyrnuaðgerðum borgarinnar í kjölfar heimsfaraldurs Covid-19. Þær hófust sumarið 2020 og lauk í apríl 2022 og var markmið þeirra að takast á við stöðuna á vinnumarkaði, en atvinnuleysi hafði aukist mikið í faraldrinum og einstaklingum fjölgað sem fengu fjárhagsaðstoð til framfærslu. Í fyrsta áfanga voru ráðningar í viðbótarsumarstörf fyrir 18 ára og eldri auk ráðninga í störf sem sneru að nýsköpun og skapandi greinum. Í öðrum áfanga, í byrjun árs 2021, var atvinnu- og virknimiðlun stofnuð sem tímabundið úrræði og var þá aukin áhersla á ráðningar langtímaatvinnulausra. Haft var að leiðarljósi að miðla einstaklingum í störf við hæfi, þar sem áhugasvið skipti höfuðmáli. Eftirfylgni sýndi að störfin höfðu afar jákvæð áhrif á líðan, fjárhag og líf þeirra sem áður höfðu þegið fjárhagsaðstoð og skiptu tækifærin sem vinnumarkaðsaðgerðirnar gáfu þeim meginmáli fyrir framtíð þeirra og lífsgæði sem og aðstandenda þeirra. 

Mikil ánægja meðal stjórnenda

Vert er að nefna að vinnumarkaðsaðgerðirnar náðu einnig að virkja fólk í atvinnuleit og á tímabilinu áttu sér stað margar óbeinar ráðningar, þ.e. fólk fór í virka atvinnuleit og fékk ráðningu á eigin vegum eftir að atvinnu- og virknimiðlun hafði samband við það. 

Stjórnendakönnun sýndi ótvíræða ánægju með aðgerðirnar en 97% svarenda sögðust myndu ráða fólk aftur með þessum hætti. 88% sögðu starfsfólk sem ráðið var í gegnum vinnumarkaðsaðgerðir hafa staðið sig mjög eða frekar vel og margir stjórnendur nefndu að þetta starfsfólk hefði stuðlað að jákvæðri þróun og komið með nýja þekkingu eða menningu inn á vinnustaðina. Þá voru 93% mjög eða frekar ánægð með þjónustu atvinnu- og virknimiðlunar. 

Samfélagslegur og fjárhagslegur ávinningur

Ávinningur af vinnumarkaðsaðgerðunum birtist meðal annars í því að fjöldi notenda á fjárhagsaðstoð var 23% undir áætlun fyrstu sex mánuði ársins 2021. Fjárhagsaðstoð til framfærslu kostar sveitarfélag um 2,6 milljónir á ári fyrir hvern einstakling en ofan á það geta bæst við heimildagreiðslur. Því getur verið mikill fjárhagslegur hvati fyrir sveitarfélag að halda úti aðgerðum sem þessum og er þá ótalinn samfélagslegur ávinningur af fleiri vinnandi höndum, þegar skortur er á starfsfólki á ýmsum sviðum. 

Það er reynsla starfsfólks atvinnu- og virknimiðlunar að margir sem fá fjárhagsaðstoð og hafa verið án atvinnu til lengri tíma þurfa aðstoð við að komast aftur í virkni og atvinnu. Hagur einstaklinga, sveitarfélagsins og samfélagsins er að virkja fólk og aðstoða við að komast út á vinnumarkaðinn. Því var lögð fram tillaga í borgarráði í mars 2022 um áframhald á atvinnu- og virknimiðlun með breyttum forsendum og var hún samþykkt samhljóða af öllum borgarfulltrúum. Verkefnið varð þá þróunarverkefni til tveggja ára, fluttist yfir í Virknihús og þjónustar þau sem fá fjárhagsaðstoð við að koma sér í virkni og atvinnu. 

Mikið virði í fólkinu

„Þessar niðurstöður eru í samræmi við það sem lagt var upp með í byrjun og ég er mjög ánægð með hvernig til tókst,“ segir Svanhildur Jónsdóttir, sem stýrði atvinnu- og virknimiðlun Reykjavíkurborgar áður en hún fluttist yfir í Virknihús. „Öflugt fagfólk vann að þessu verkefni og þar sem það stóð yfir í stuttan tíma þurfti að vinna hratt og vel. Atvinnu- og virknimiðlunin náði líka að aðlaga sig vel að aðstæðum í samfélaginu og því hvernig atvinnuástand þróaðist á þessu tímabili.“ 

Svanhildur segir athyglisvert að um 80% þeirra sem þáðu fjárhagsaðstoð fóru ekki aftur á hana eftir að úrræðinu lauk. „Mér finnst líka afar ánægjulegt að tæp 90% stjórnenda voru ánægðir með fólkið sem þeir fengu í vinnu. Það sýnir að þetta var og er gott starfsfólk. Mér finnst frábært að atvinnu- og virknimiðlun verði áfram til fyrir fólk á fjárhagsaðstoð því oft þarf fólk stuðning og aukið sjálfstraust til að komast út á vinnumarkaðinn eða aðstoð til dæmis við að gera ferilskrá og undirbúa sig fyrir atvinnuviðtöl. Það er mikið virði í fólkinu og vert að gefa öllum tækifæri.“