Veisla á Kvikmyndahátíðinni RIFF 2024

Úr kvikmyndinni Allra augu á mér
Úr kvikmyndinni "Allra augu á mér"

Kvikmyndahátíðin RIFF stendur nú sem hæst. Sýndar verða um 200 kvikmyndir hvaðanæva að úr heiminum, þar á meðal 80 glænýjar myndir og fjölbreytt úrval stuttmynda.

RIFF 2024 býður upp á eitthvað fyrir alla, á UngRIFF  er boðið upp á skólasýningar, fjölskyldumyndir og hagnýtar vinnustofur. Á Talent Lab, eru vinnustofur þar sem framúrskarandi kvikmyndagerðarmenn geta lært af leiðtogum iðnaðarins. 

Á hátíðinni má sjá framleiðslu liðins árs, nýjustu myndirnar frumsýndar og íslenskri stuttmyndagerð gert hátt undir höfði. Besta íslenska stuttmyndin fær verðlaun frá RÚV, sem kaupir sýningarrétt hennar, en Gullna eggið kemur í hlut bestu stuttmyndarinnar sem tekur þátt í Kvikmyndasmiðju RIFF.

Að auki eru sérstakir viðburðir, eins og sjónræn matarupplifun og tónleikar, sem gera hátíðina ógleymanlega.

Athina Tsangari heiðruð á RIFF

Gríska kvikmyndagerðarkonan Athina Tsangari verður heiðruð á RIFF í ár sem upprennandi meistari og er vel að þeirri nafnbót komin, svo afkastamikil og ástríðufull sem hún hefur verið í listsköpun sinni og fræðimennsku í faginu um áratugaskeið. Hún tekur við viðurkenningunni í boði forseta Íslands á Bessastöðum á morgun. 

Gríska kvikmyndagerðarkonan Athina Tsangari
Gríska kvikmyndagerðarkonan Athina Tsangari

Tsangari hefur jöfnum höndum unnið sem kvikmyndaframleiðandi og handritshöfundur, en er hvað þekktust fyrir að leikstýra stuttmyndum og leiknum myndum í fullri lengd allar götur frá því í byrjun tíunda áratugar síðustu aldar. Meðal kunnustu verka hennar eru The Slow Business of Going frá 2000, Attenberg sem frumsýnd var 2010 og Chevalier frá 2015. Hún var einnig meðframleiðandi í myndum landa síns Yorgos Lanthimos og má þar nefna Kinetta frá 2005, Dogtooth sem fullgerð var fjórum árum síðar og Alps sem kom fyrir sjónir kvikmyndaunnenda 2011.

Tsangari er aufúsugestur á RIFF í ár, en auk hennar verður suður-kóreski leikstjórinn Bong Joon-ho heiðraður á hátíðinni ár, svo og heiðursgestirnir Jonas Åkerlund og Nastassja Kinski.