Vegna netárásar á Strætó

Líkt og komið hefur fram í fréttum varð Strætó fyrir fjandsamlegri netárás frá erlendum árásaraðilum í lok desember sem náðu að brjóta sér leið inn í kerfi Strætó og afrita gögn og upplýsingar sem þar eru að finna.

Komið hefur í ljós að árásaraðilarnir komust yfir kerfi Strætó sem hýsir gögn er tengjast akstursþjónustu fatlaðs fólks og aldraðra sem Strætó hefur sinnt fyrir hönd Reykjavíkurborgar auk Garðabæjar, Hafnarfjarðarbæjar, Kópavogsbæjar, Mosfellsbæjar og Seltjarnarnesbæjar á tímabilinu 2014–2021.

Rannsókn málsins stendur enn yfir. Hér má lesa fréttatilkynningu á vef Strætó um málið en þar segir meðal annars að Gripið hafi verið til umfangsmikilla ráðstafana til að loka á aðgang umræddra aðila og takmarka áhrif á þá einstaklinga sem Strætó vinnur upplýsingar um. Ekkert bendi til þess að árásaraðilarnir hafi eða geti misnotað þessar upplýsingar, en ekki sé hægt að útiloka að upplýsingarnar verði birtar opinberlega af hálfu umræddra aðila.    

Fylgst er náið með framvindu málsins á vettvangi Reykjavíkurborgar.

Fréttin á auðlesnu máli: 

Komið hefur fram í fréttum að Strætó varð fyrir netárás í lok desember.

Það þýðir að hópur af tölvuþrjótum braust inn í tölvukerfi strætó.

Þeir tóku upplýsingar um fólk sem notar akstursþjónustu Strætó sem heitir Pant.

Það er verið að rannsaka málið.

Persónuvernd hefur verið tilkynnt um málið.

Núna er ekki vitað hvort þeir sem gerðu netárásina geti notað upplýsingarnar sem þeir tóku. Það er samt ekki hægt að útiloka það.

Reykjavíkurborg fylgist áfram vel með málinu.

Þú getur haft samband við þjónustuver Pants og fengið meiri upplýsingar um málið. Síminn þar er 540-2727

Þú getur haft samband við persónuverndarfulltrúa Strætó ef þú vilt fá meiri upplýsingar. Hann heitir Sigurður Már Eggertsson, netfang: personuvernd@straeto.is, sími 540-2727

Persónuverndarfulltrúi Reykjavíkurborgar getur líka gefið þér upplýsingar um málið.  Hún heitir Dagbjört Hákonardóttir, netfang: personuverndarfulltrui@reykjavik.is, sími 411-1111