Veggmyndir eftir Erró í efra Breiðholti

Mannlíf Menning og listir

""

Borgarráð hefur samþykkt að settar verði upp tvær veggmyndir eftir Erró í Efra-Breiðholti. Erró gefur Reykjavíkurborg höfundarverk sitt fyrir og verða verkin til þess að breiða út list í opinberu rými utan miðborgarinnar, fegra Efra-Breiðholt og auka stolt íbúanna af nærumhverfi sínu.

Annars vegar er um að ræða bogadreginn vegg íþróttahússins við Austurberg, sem er í eigu Reykjavíkurborgar og hins vegar vesturgafl íbúðablokkarinnar við Álftahóla 4-6.

Erró er heiðursborgari Reykjavíkur og hefur í gegnum tíðina sýnt Reykjavíkurborg og Listasafni Reykjavíkur einstakan rausnarskap með því að gefa safninu verk sín. Það er mikill fengur að fá varanlegt listaverk eftir þennan heimsfræga listamann í almenningsrými í borginni.

Verk  eftir Erró hafa verið sýnd á mörgum helstu söfnum Evrópu og víða um heim. Veggmyndir hans prýða merkar byggingar í mörgum borgum og hafa reynst mikið aðdráttarafl og aukið umhverfisgæði þar sem þær hafa verið settar upp.

„Við erum mjög spennt fyrir þessu verkefni“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri. „Það verður spennandi að sjá hvernig verkin koma út á þessum risastóru göflum og annað þeirra ætti að sjást mjög víða að. En hugmyndin er líka sú að list eigi heima alls staðar í borginni. Með þessari gjöf Errós er kominn staður í Breiðholt sem hvorki borgarbúar né gestir borgarinnar mega láta fram hjá sér fara. Erró hefur alltaf verið mjög rausnarlegur listamaður þegar Reykjavíkurborg er annarsvegar og vil ég nota ég tækifærið og þakka honum fyrir það“, segir Dagur.

Erró hefur í samráði við Listasafn Reykjavíkur, útfært teikningu sína á byggingarnar tvær. Annars vegar yrði myndin á 24 metra háum gafli fjölbýlishússins, þar sem efri hluti hennar myndi sjást langt að. Neðri hlutinn myndi fyrst birtast þegar komið er í námunda við myndina. Þannig myndi listaverkið kalla fólk langt að og bjóða því inn í hverfið, þar sem það fengi að njóta heildarmyndarinnar. Fígúrur úr myndinni yrðu svo stækkaðar á bogadreginn vegg íþróttahússins við Austurberg, sem er í eigu Reykjavíkurborgar og yrðu því á afar fjölförnu svæði við hliðina á Breiðholtslaug og Fjölbrautaskóla Breiðholts og á móts við frístundamiðstöðina Miðberg, bókasafnið og Menningarmiðstöðina Gerðuberg.

Áætlað er að kostnaður  vegna framleiðslu og uppsetningar verði um 38,8 m.kr.

Listasafni Reykjavíkur er falin umsjón með undirbúningi og framkvæmd verksins.