Úthlutað úr Menningarnæturpotti Landsbankans og Reykjavíkurborgar

Frá setningu Menningarnætur við Hagatorg árið 2019.

Margir bíða með eftirvæntingu eftir Menningarnótt í ár en alls fá 22 spennandi verkefni styrki úr Menningarnæturpotti Landsbankans og Reykjavíkurborgar og öll eru verkefnin til þess fallin að gleðja þátttakendur Menningarnætur 2022.

Það var starfshópur á vegum Reykjavíkurborgar sem valdi styrkþegana en alls bárust 69 umsóknir og af þeim voru valin 22 verkefni fyrir Menningarnótt í ár. Verkefnin felast m.a. í því að færa borgarbúum myndlist, fjölbreytta listgjörninga og tónlist. Flutningur listafólks og þátttakenda verður bæði innan dyra og oftar en ekki utandyra. Styrkirnir sem er veittir eru á bilinu 100-300 þúsund kr. og þeir fara bæði til einstaklinga og hópa. Samtals eru veittir styrkir fyrir fjóra og hálfa milljón króna.

Hægt verður að sjá afrakstur þeirra á Menningarnótt og vonandi leikur veðrið við flytjendur, gesti og gangandi. Sjáumst á Menningarnótt 20. ágúst næstkomandi!

Menningarnæturpottur 2022

Opnunarhátíð King og Bong
King og Bong
Samsýning ungs myndlistarfólks, gjörningar og tónlist ofl. á Laugavegi 27. Rýmið verður fyllt af lífi allan daginn með myndlistarsýningu og fjölbreyttum gjörningum frá grasrót listasenunnar í Reykjavík. Dagskráin endar svo í tónleikahátíð um kvöldið. King og Bong er lifandi en jafnframt tifandi tímasprengja sem vill ekki springa. Markmið King og Bong er að gera meira,og meira og meira!

Einnar nætur gaman
Laumulistasamsteypan

Gjörningadagskrá með 18 alþjóðlegum listamönnum. Laumulistasamsteypan er félagasamtök og gestavinnustofa sem hittast árlega í Hrísey í Eyjafirði og vinna að skapandi verkefnum. Á Menningarnótt sýnir hópurinn í OPEN, sem er vinnurými listamanna við á við höfnina á Granda og flæðir dagskráin út fyrir rýmið. Dagskráin verður fjölbreytt eða blanda af ýmiskonar uppákomum. Búast má við raftónlist, lip-sync gjörningum, sérhönnuðum búningum og myndböndum.

Spunamaraþon
Improv Ísland

Improv Ísland sýnir spunasýningar sem búnar eru til á staðnum. Ekkert er ákveðið fyrirfram, allt getur gerst og er hver sýning er æfingaferli, frumsýning og lokasýning. Spunamaraþon þetta hefur slegið í gegn á hverju ári og vakið þvílíka athygli. Það verður ókeypis inn og á hálftíma fresti verður hleypt inn og út úr salnum. Spunaleikarar munu spinna ólík spunaform eins og Haraldinn, söngleiki,  eintal og Martröð leikarans.

Öll niðurföll renna til sjávar
Plastlaus september í samstarfi við Landvernd og Operation Creed.  

Búið ykkur undir endurkomu þverfaglega lista- og hönnunarhópsins Operation Creed. Hópurinn mun beina athygli gesta og gangandi að niðurföllum miðbæjarins með gáskafullum krítarverkum. Hópurinn fær menningarnæturgesti sér í lagi börn  í lið með sér í að myndskreyta niðurföll með plastlausum krítum. Verkefnið minnir okkur á með kímni og litagleði að allt, þ.á.m. plast, sem rennur niður í niðurföllin, endar úti í sjó og mengar þessa lífæð okkar sem hafið er.

Skúrinn 2022
Íbúar Óðinsgötu 26
Í 103 ára gömlu húsi við Óðinsgötu 26 búa arkitekt, myndlistarkona, tónlistarmaður og leikmyndahönnuður. Þangað venja komur sína skapandi fólk og langar okkur að blása til veislu í garðinum. Þannig viljum við deila með nágrönnum og almenningi afrakstri þeirrar skapandi vinnu sem fram hefur farið innandyra í vetur. Svið verður byggt ofan á lágreistum skúr sem tilheyrir lóðinni og geta gestir og gangandi notið tónlistarinnar í grasinu fyrir neðan.

Gallery Port x Húrra Reykjavík x Mikki Refur
Myndlistarsýning og útitónleikar

Útitónleikar og myndlistarsýning í verslun Húrra Reykjavík, í samstarfi við Gallerý Port.
Átta ungir myndlistarmenn sýna ný prentverk og  samhliða því verða haldnir tónleikar. Sýningin og útitónleikarnir eru liður í því að kynna myndlist fyrir ungu fólki í Reykjavík. Flutt verða fimm tónlistaratriði og plötusnúðar spila á milli atriða. Kaffi- og vínbarinn Mikki Refur,er einnig staðsettur við portið og þar verður útisvæði fyrir gesti og seldar veitingar.

Opinn saumó
Hússtjórnarskólinn í Reykjavík

Hússtjórnarskólinn  í Reykjavík opnar dyr skólans að Sólvallagötu 12 á Menningarnótt. Viðburðinn heitir "Opinn saumó" og er fólki boðið að koma með handavinnuna sína með sér, fá sér sæti í stássstofum skólans og gæða sér á nýbökuðum vöfflum á meðan það drekkur heitt kaffi eða kakó. Á meðan hlýðir mannskapurinn á ljúfa píanótónlist og söng.

Afmælishátíð Norræna félagsins
Ung norræn 100

Í tilefni af 100 ára afmæli Norræna félagsins á Íslandi, þá heldur Ung norræn  (ungmennadeild Norræna félagsins) útitónleika á Óðinstorgi, Tónleikarnir er ætlað að höfða til ungmenna og ungt listafólk er í fyrirrúmi auk þess sem norræn menning og samstarf Norðurlanda verða áberandi.

Ásmundarsalur dreifir úr sér á Menningarnótt.
Ásmundarsalur

Á Menningarnótt mun menningarstarfsemi Ásmundarsalar vaxa út í garð.  Gestum er boðið uppá lifandi tónlist og listamönnum gefið færi á að færa verk sín út í garð. Listavettvangurinn er færður út undir bert loft og fleirum boðið að ganga inn í garðinn og njóta myndlistar og tónlistar á Menningarnótt.

Garðveisla í gamla Hressógarðinum
LEMMY

LEMMY hefur lagt mikið púður í að opna á ný gamla Hressó garðinn fyrir menningarstarfsemi. Á Menningarnótt er gestum og gangandi boðið að koma í garðinn. Dagskráin mun standa yfir allan daginn og fram á kvöld í garðinum og hýsa bæði ungt og efnilegt tónlistar fólk sem er að hasla sér völl ásamt vinsælum popp og rokk sveitum

Jazzveisla á Menningarnótt
Reykjavík Record Store og Skuggabaldur

"Showcase" eða sýningarbrot á þeim stórkostlegu djasslistamönnum sem hafa gefið út plötur undir merkjum Reykjavík Record Shop. Lifandi flutningur á djasstónlist frá mörgu af okkar allra besta djasstónlistarfólki. Má þar nefna Sigmar Þór Matthíasson og hljómsveit, Magnús Tryggvason Eliassen, Hróðmar Sigurðsson, Ingibjörgu Elsu Turchi auk Tuma Árnasonar, Þorgríms Jónssonar, Magnúsar Jóhanns, Skúla Sverrisson og tríósins Hist en öll hafa þau hlotið tilnefningar og verðlaun fyrir plötur sínar. Við lofum góðri skemmtun og algjörri veislu fyrir djassáhugafólk .

Ævintýraheimur Hugleiks við Reykjavíkurtjörn
Leikfélagið Hugleikur

Áhugaleikfélagið Hugleikur setur upp Ævintýraheim fyrir alla fjölskylduna við Reykjavíkurtjörn á Menningarnótt. Settir verða upp frumsamdir leikþættir og ævintýralegar verur munu taka á móti gestum. Á milli leikþátta gefst gestum kostur á að prófa leikhúsförðun og klæða sig upp í nokkra af fjölmörgum búningum okkar og smella af sér mynd í myndabás sem við setjum upp á staðnum. Hugleikur á nærri því 40 ára sögu að baki og hlakkar til bjóða gestum að taka þátt í henni með sér.

Útitónleikar í KEX portinu
KEX

KEX Hostel býður upp á útitónleika í KEX portinu á Menningarnótt. Listamenn byrja að spila klukkan 14:00 og verður dagskrá til 21:00.  Frábært tækifæri til að kynnast grasrótinni í íslenskri tónlist ásamt þekktari listamönnum.

Fjölskyldu þrauta samvera
Bandalag íslenskra skáta

Opinn fjölskylduskátafundur fyrir allar fjölskyldur. Skátarnir útbúa dagskrá sem fjölskyldurnar geta tekið þátt í saman. Fjörið mun samanstanda af leikjum og þrautum sem fjölskyldan fer saman í gegnum. Markmiðið er að foreldrar/forráðamenn og börn verji tíma í náttúrunni og geri eitthvað jákvætt og uppbyggilegt saman. Börnin njóta þess sérstaklega að leiða fullorðna í gegnum verkefnin.

Kliður í Listasafni Íslands
Listasafn Íslands

Kórinn Kliður skapar töfrandi upplifun með söng sínum fyrir gesti Listasafns Íslands á Menningarnótt. Viðburðurinn mun kallast á við myndlistarsýninguna Liðamót þar sem sýnd eru verk Margrétar H. Blöndal, en hún er einnig meðlimur í kórnum. Flutt verða  vönduð verk eftir meðlimi kórsins, bæði ný og eldri, sem spanna stóran skala frá fínofnum kórverkum til spuna, auk sönglaga frá söngvaskáldum kórsins. Í þessum kór, sem á engan sinn líkan, koma saman tónskáld, myndlistarfólk, skáld, sviðslistafólk og hljóðfæraleikarar sem hafa á síðustu árum staðið fyrir ýmiss konar viðburðum og frumflutt tónverk eftir meðlimi hópsins. Kliður hefur getið sér gott orð fyrir spennandi uppákomur og komið fram hér heima og erlendis.

Leikið á ljós
Sölvi Viggósson Dýrfjörð
.
Hér fær tónlistin nýja vídd. Margvíslegir lampar og ljós verða hengd í loftið og á grind. Tónlistarmenn mæta á svæðið og flytja fallega tónlist þar sem hver tónn er tengdur ákveðnu ljósi, þannig tendrast mismunandi ljós eftir því hvaða tónar eða hljómar eru notaðir, hvort sem um er að ræða einstök hljóðfæri, söng eða samspil. Með þessu öðlast flutningurinn alveg nýja vídd. Auk þess að vekja hljóð sem gleður eyrun, tendrast ljós sem gleðja augu, þannig er spilað á mörg skynfæri. Það verða ekki bara lærðir listamenn sem flytja tónlist, heldur fá gestir og gangandi líka að spreyta sig og leika á ljósin.

Róttæklingarnir!
Barmmerkjasmiðja fyrir unga róttæklinga! Samkvæmt 12. grein barnasáttmálans eiga börn rétt á því að tjá sig frjálslega um öll málefni sem hafa áhrif á líf þeirra og fullorðnir eiga að hlusta og taka mark á þeim. Hér gefst ungu baráttufólki tækifæri til að hanna og búa sér til sitt eigið barmmerki um  málefni  sem brennur á því! Boðið verður upp á kaffi og meðlæti fyrir fullorðna fólkið á meðan það bíður eftir róttæklingunum sínum.

Festival á Fiskislóð
Bjórland

Festival í stóru porti á milli húsanna á Fiskislóð 24 - 26 þar sem fyrirtækin á Granda  skapa skemmtilega stemmningu, tónlist og fleira skemmtilegt fyrir gesti festivalsins.

ListBreytiLeikar
Vínstúkan Tíu Sopar

Viðburðurinn ListBreytiLeikar hefur það markmið að gefa fjölbreyttum listamönnum rými til að  fagna fallegu tjáningarfrelsi sem birtist í mörgum myndum. Vínstúkan Tíu Sopar vill ljúka sumrinu með stórviðburði á Menningarnótt þar sem fjölbreytileiki ræður ríkjum og göngugatan okkar góða breytist í svið  fyrir gesti og gangandi.

Hljómsveitin Brek
Fisch
Pop-up tónleikar á Vesturgötu
Hljómsveitin Brek ætlar sér að halda þrjá hálftíma langa tónleika fyrir utan veitingastaðinn Kaffi Rosenberg á Vesturgötu 3. Á tónleikunum mun hljómsveitin leika lög af plötu sinni sem hlaut einmitt íslensku tónlistarverðlaunin sem plata ársins í flokki þjóðlaga- og heimstónlistar á árinu. Sveitin sérhæfir sig í flutningi órafmagnaðrar þjóðlagatónlistar.

Listin að ganga á línu
Slackline Iceland

Slackline er eitt skemmtilegasta sumarsport sem sögur fara af. Settar verða upp 3-5 línur, mislangar og misháar, fyrir gesti og gangandi að spreyta sig á og er gestum kennt að ganga eftir línunum. Hvað getið þið tekið mörg skref á línunni án þess að missa jafnvægið?

Bókmenntahátíð alþýðunnar
Kanínuholan-fornbókaveröld

Kanínuholan-fornbókaveröld heldur upp á tveggja ára afmæli sitt með Bókmenntahátíð alþýðunnar. Kanínuholan er bílskúr í holtunum sem hefur verið að festa sig í sessi sem ein besta alþjóðlega bókabúð landsins og 105 póstnúmersins. Hér er að finna góðar bækur á fjölmörgum tungumálum. Á hátíðinni verður boðið upp á léttar veitingar, límonaði, bakkelsi og kaffi. Viðburðir á Bókmenntahátíð Alþýðunnar verða af ýmsu tagi: Fornbókamarkaður og kynning á Kanínuholunni, upplestur, höfundakynning, kynning á pólsk/íslenskum ljóðum og höfundum. Það verður líka  andlitsmálning fyrir fullorðna og börn og Doktor Arnar Eggert DJ spilar alþjóðlega bókmenntamúsík.