Velferðarsvið Reykjavíkur hefur framlengt samningi við Barka, pólsk samtök sem aðstoða utangarðsmenn af erlendum uppruna að koma lífi sínu á réttan kjöl.
Barka verkefnið miðar að því að stuðla að betri lífsgæðum þessa hóps hvort sem í því felst að snúa aftur til heimalands eða vera áfram í Reykjavík.
Sex utangarðsmenn hafa snúið heim það hálfa ár sem Barka fulltúrar hafa starfað hér. Einn mannanna hefur komið aftur eftir að hafa farið í meðferð í Póllandi en hann lifir breyttu lífi í fullu starfi og með eigið heimili.
Samningurinn er til sex mánaða, frá 1. júlí og til ársloka en þá verður staðan tekin að nýju.
Barka-samtökin voru upprunalega stofnuð í Póllandi árið 1989 til að hjálpa fólki í erfiðum félagslegum aðstæðum. Árið 2007 leitaði Lundúnaborg til Barka til að fá aðstoð fyrir heimilislaust fólk af erlendum uppruna sem hélt til á götum borgarinnar. Verkefnið gaf góða raun og nú starfa Barka-samtökin í tíu borgum að Reykjavík með talinni.
Velferðarsvið hefur útvegað starfsmönnum samtakanna aðstöðu í Gistiskýlinu á Lindargötu, auk þess sem sviðið stendur straum af kostnaði við verkefnið. Reykjavíkurborg íhlutast ekki til um ákvörðun einstaklinga þ.e. hvort þeir vilji þiggja tilboð Barka um að snúa heim eða vera áfram í Reykjavík. Einnig er þeim sem taka þátt í verkefninu frjálst að snúa til baka þegar þeim hentar.
Talið er að tæplega 30 utangarðsmenn frá Austur-Evrópu geti nýtt sér aðstoð Barka í Reykjavík.